Veiðar smábáta

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 21:07:25 (8435)

2001-05-19 21:07:25# 126. lþ. 129.97 fundur 578#B veiðar smábáta# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[21:07]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson gerir að umtalsefni þá lagasetningu sem taka á gildi 1. september nk. um kvótasetningu þorskaflamarksbáta þannig að þeir verði krókaaflamarksbátar. Þessi lagasetning á rætur að rekja til laga frá því í janúar 1999 sem voru viðbrögð við svokölluðum Valdimarsdómi, en sá dómur gekk út á það að óheimilt væri að takmarka aðgang að veiðum hér við land með 5. gr. laga um stjórn fiskveiða sem takmarkaði aðgang að veiðileyfum, batt veiðileyfi við það að eigendur skipanna hefðu haldið skipum til veiða á tilteknu tímabili.

Þetta var dómur Hæstaréttar og byggðist hann á því að þetta var óheimilt samkvæmt 61. gr. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi dómur er án nokkurs fyrirvara hvað 5. gr. varðar og hlýtur því að taka til fyrirkomulags allrar greinarinnar í heild enda varð það niðurstaða lögfræðingahóps sem ráðuneytið kallaði til á þeim tíma að breyta ... (Gripið fram í.) Hv. þm. Sverrir Hermannsson, nei, það var ekki Jón Steinar. Hann var ekki í þeim hópi. Það varð niðurstaða þess hóps að það bæri að breyta lögunum bæði hvað varðar svokallaða þorskaflahámarksbáta jafnt sem svokallaða aflamarksbáta. Því varð þetta niðurstaðan. Gefinn var tími til aðlögunar. Þá var það reyndar gagnrýnt að menn væru að sigla krappt hvað varðaði stjórnarskrána. Gildistöku þessa ákvæðis hefur síðan einu sinni verið frestað og þá var aftur varað við því að siglt væri krappt hvað varðar stjórnarskrána. Nú er fullyrt, alla vega af sumum, að ef enn væri frestað þá væri afar líklegt, ef einhver færi í mál, að þá mundi dómur í Hæstarétti falla á þann veg að verið væri að brjóta gegn 65. gr. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Þess vegna, og reyndar af ýmsum öðrum orsökum, er varða fiskveiðistjórnina hef ég ekki talið mér fært að leggja fram frv. aftur um frestun á gildistöku þessara laga og því munu þau taka gildi 1. september nk.

Það fer auðvitað ekki hjá því þegar aðstæður breytast að menn þurfi að bregðast við á einhvern hátt og hugsanlega getur það valdið erfiðleikum. En í upphafi þegar breytingin var gerð var mönnum gefinn aðlögunartími og sá aðlögunartími hefur síðan verið lengdur. Ég vona að sá aðlögunartími hafi verið nægur til að enginn fari verulega illa út úr þessari breytingu.