Veiðar smábáta

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 21:11:38 (8436)

2001-05-19 21:11:38# 126. lþ. 129.97 fundur 578#B veiðar smábáta# (umræður utan dagskrár), KVM
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[21:11]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Fyrir einu ári lagði hæstv. sjútvrh. fram frv. til laga um frestun kvótasetningar smábáta. Það var nánast eins og það frv. sem nú er lagt fram af hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni ásamt þeim er hér stendur. Frv. hæstv. ráðherra var þá samþykkt. Rökin fyrir samþykkt frv. þá voru að heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða stæði yfir. Þessi heildarendurskoðun stendur enn yfir og því hefur ekkert breyst. En frv. okkar Guðjóns Arnar Kristjánssonar fæst ekki afgreitt eða tekið út úr sjútvn.

Herra forseti. Ég lít svo á að það sé árás á ákveðin byggðarlög í landinu og ekki síst á fólk sem býr á Vestfjörðum. Þetta er árás á fiskverkafólk, en hæstv. sjútvrh. bar hag þess ákaflega fyrir brjósti í vörnum sínum fyrir þeim lögum sem hann stóð fyrir að samþykkt voru hér fyrir fáum dögum þegar sjómenn á Vestfjörðum sem ekki voru í verkfalli voru settir undir gerðardóm.

Stór hluti smábátaflotans mun nú standa frammi fyrir því að verða að stórauka skuldir sínar ellegar afleggjast. Verður það til þess að minnka skuldir annarra sjávarútvegsfyrirtækja, herra forseti? Ég spyr.

Með þessari synjun er fjöldi byggða nú settur í uppnám en það skiptir ríkisstjórnina auðvitað ekki nokkru einasta máli. Jöfn aðstaða til að skapa ný atvinnutækifæri er ekki fyrir hendi og það er skuggalegt að mesti ógnvaldur jákvæðrar byggðastefnu skuli vera ríkisstjórn sem þorir ekki að taka frv. okkar Guðjóns Arnars Kristjánssonar til afgreiðslu af ótta við þann meiri hluta sem kann að vera fyrir málinu í Alþingi. (Gripið fram í: Heyr!)