Veiðar smábáta

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 21:13:56 (8437)

2001-05-19 21:13:56# 126. lþ. 129.97 fundur 578#B veiðar smábáta# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[21:13]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu eitt af snúnari úrlausnarefnum Alþingis. Sjósókn smábáta er ein af stoðum atvinnulífs margra byggðarlaga. Hið sama gildir um aflamarksbáta, hina svonefndu vertíðarbáta.

Eins og þetta mál hefur snúist er spurningin nú um flutning aflaheimilda af öðrum flokknum yfir á hinn.

Herra forseti. Ég tel það óyndi þegar þessum tveimur gerðum fiskibáta er stefnt hvorri gegn annarri því að báðar gerðir eru landsbyggðinni afar mikilvægar.

Um hvað snýst málið? Það snýst um aflaheimildir sem nema hugsanlega á bilinu 7--10 þús. lestum. Það er í rauninni allt og sumt. Samtímis má vísa til könnunar um brottkast á fiskiskipum og spyrja hvar það virðist mest. Er það meðal smábáta? Nei. Meðal vertíðarbáta? Nei. Skýrslan bendir til þess að brottkastið af öðrum sé talið nema á bilinu 30--50 þús. lestum á ári. Þessu til viðbótar má benda á vaxandi efasemdir um fiskveiðiráðgjöfina.

Herra forseti. Í ljósi þess ættu 7--10 þús. lestir ekki að vera óyfirstíganlegt vandamál og þessi pattstaða í sjálfu sér óþörf. Taka má undir þá gagnrýni að á meðan heildarendurskoðun fiskveiðistjórnar eigi sér stað sé óeðlilegt að taka einn þátt úr og breyta með róttækum hætti. Krafan hlýtur að vera sú, úr því sem komið er, að vinnu endurskoðunarnefndar ljúki fyrr en seinna þar sem kynntar eru heildstæðar lausnir á málinu. Því verki hlýtur að mega ljúka fyrir 1. september.