Veiðar smábáta

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 21:29:27 (8444)

2001-05-19 21:29:27# 126. lþ. 129.97 fundur 578#B veiðar smábáta# (umræður utan dagskrár), Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[21:29]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. sagði að næg aðlögun hefði verið gefin fyrir smábátasjómenn til þess að mæta kvótasetningunni nú. Hann sagði einnig frá því að hann óttaðist málsókn um að sjómenn mættu ekki veiða ýsu og fleiri tegundir. Hann sagði ekki frá því hver það er sem hótar málssókn en það hefur hins vegar áður komið fram. Það hefur komið fram frá forustumönnum LÍÚ að þeir hafi hótað málssókn ef sjútvrh. beitti sér fyrir því að þessum lögum yrði breytt.

Ég verð að segja sem skoðun mína að ég teldi það eftirsóknarvert að fá Landssamband ísl. útvegsmanna til að hefja málssókn á hendur byggðunum, á hendur sjómönnum í smábátakerfinu. Fróðlegt væri að fá slíka málssókn.

Hverjir hafa staðið fyrir byggðaröskun á Íslandi aðrir en stórgreifarnir sem selt hafa nánast allan rétt úr mörgum byggðarlögum? Á Vestfjörðum eru eftir 5 togarar af 15 sem þar voru áður og nánast allar aflaheimildir frá flestum stöðunum eru farnar, einungis Ísafjarðarbær á eftir dálítið af aflaheimildum.

Ungir menn og eldri sjómenn hafa haslað sér völl í smábátakerfinu. Þeir hafa verið að kaupa sig þangað inn á undanförnum árum. Þeir hafa ekki keypt ýsu- og steinbítsreynsluna. Hún er eftir hjá fyrri eigendum. Þegar kvótasetningin kemur á, þá eru það fyrri eigendur sem eiga reynsluna og það fyrsta sem menn þurfa þá að gera er að gera sjálfa sig af leiguliðum eða kaupa af eldri eigendum skipanna veiðiréttinn. Þetta er svívirða.