Veiðar smábáta

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 21:31:41 (8445)

2001-05-19 21:31:41# 126. lþ. 129.97 fundur 578#B veiðar smábáta# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[21:31]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er ekki alltaf tækifæri til þess að halda glæsilegar ræður (ÖS: Haltu eina.) og stundum þurfum við að taka þannig á málum að ekki er ástæða til mikillar kæti yfir því. Ég var ekki einn af þeim sem hrópuðu húrra fyrir dómi Hæstaréttar í desember 1998. Ég minnist þess meira að segja að hafa átt samræður um þann dóm við hv. frammíkallanda þar sem hann var harla kátur með hann, meðan ég gagnrýndi hann. En ég, eins og aðrir hv. þm., verð að starfa í samræmi við dóminn. Ég get ekki leyft mér að leggja fram frumvörp á hv. Alþingi sem ekki standast stjórnarskrána frekar en hv. nefndarformenn (Gripið fram í: Þú gerðir það í fyrra.) geta leyft sér að bera þau á borð í þinginu.

Hér hafa fallið dýr orð og ég veit eiginlega ekki af hverju menn nota slík orð þegar verið er að fjalla um stjórnarskrána og hvort menn ætli sér að virða hana eða ekki.

Ég hef gengið eins langt til þess að veita smábátamönnum tíma til aðlögunar og frekast hefur verið hægt. (Gripið fram í.) Ég hef kannski farið lengra en hefði átt að gera. En núna er ekki hægt að fara lengra því að ef það verður gert eru allar líkur til þess að við værum að brjóta stjórnarskrána (Gripið fram í.) og því verðum við hvort sem okkur líkar það betur eða verr að láta okkur það lynda að það er stjórnarskráin sem ræður fyrir okkur öll.