Lax- og silungsveiði

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 21:41:44 (8447)

2001-05-19 21:41:44# 126. lþ. 129.40 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv. 83/2001, Frsm. minni hluta SJóh
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[21:41]

Frsm. minni hluta landbn. (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Í athugasemdum með frumvarpi þessu, eins og það var lagt fram af hálfu landbúnaðar ráðherra, segir m.a.:

,,Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að setja skýrari og ítarlegri ákvæði í IX. kafla laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum, um fiskeldi og hafbeit. Ljóst er að löggjöf um fiskeldi hefur lengi verið ábótavant hér á landi. Núgildandi löggjöf um þennan málaflokk er fábrotin og gefur stjórnvöldum ekki nægjanlegt svigrúm til að hafa afgerandi áhrif á mótun og starfsemi atvinnugreinarinnar. Í löggjöfina vantar ýmis ákvæði sem eðlilegt og nauðsynlegt má telja að þar sé að finna.``

Svo mörg voru þau orð. En í þeim kemur fram að frumvarpshöfundar í raun að viðurkenna að gildandi löggjöf um fiskeldi sé ,,fábrotin`` og í hana vanti ýmis ákvæði sem teldust ,,eðlileg og nauðsynleg`` og í því ljósi hljóti að vera erfitt að taka á og meta umsóknir um rekstur af þessum toga. Í frumvarpinu eru hins vegar umtalsverðar endurbætur sem miða fram á við og skapa eðlilegri og skýrari ramma um starfsgreinina og ítarlegri leikreglur á þessum vettvangi.

Áður en vikið verður að frumvarpinu sjálfu er óhjákvæmilegt í ljósi þess sem að framan greinir að staldra við stöðu mála í atvinnugreininni eins og sakir standa, nú þegar lagabætur standa fyrir dyrum á næstu dögum eða vikum. Tvennt vekur þar sérstaka athygli.

1. Yfirvöld hafa með samþykki landbúnaðarráðherra á grundvelli gildandi laga, eins takmörkuð og þau eru, gefið út reglugerð þar sem fiskeldi á stórum svæðum á landinu er með öllu bannað en annars staðar heimilað. Nokkuð vantar hins vegar á að hlutlæg og málefnaleg rök liggi þar til grundvallar þar sem grunnrannsóknir vantar á mörgum sviðum og bannið því ekki byggt á vísindalegum niðurstöðum og hlutlægni, hvorki hvað varðar vernd íslenska laxastofnsins né önnur vistfræðileg atriði sem taka þarf tillit til við friðun svæða. Það er því undrunarefni að landbúnaðarráðherra telji sig þess umkominn að taka slíkar ákvarðanir án nauðsynlegrar málefnalegrar undirstöðu sem að hluta til er þrátt fyrir allt að finna í nýju lagafrumvarpi sem lagt er kapp á að lögfesta fyrir þinglok nú í maí.

2. Gildandi löggjöf er fábrotin og tekur mið af sjókvíaeldi fyrri tíma þegar það var stundað í tiltölulega litlum mæli og þekking manna á sjókvíaeldi og mengunarþáttum var takmörkuð. Nú er sjókvíaeldi stundað í stórum stíl í nágrannalöndum okkar og bera umsóknir um sjókvíaeldi merki þess að margir hafa nú áhuga á þessari atvinnugrein hér á landi. Umsóknir og þegar veitt rekstrarleyfi eru fyrir stöðvar með mun meiri framleiðslu en þekkist í Noregi og Skotlandi, en það eru þau lönd sem við berum okkur oftast saman við á þessu sviði. Ef sjókvíaeldi á að verða öflug atvinnugrein hér á landi ber okkur að læra af reynslu nágrannaþjóðanna og viðhafa varúð frá upphafi, þ.e. gæta að mengunarþáttum, vernd villta laxastofnsins, umhverfisvernd og meta þátt annarra atvinnugreina á sama svæði.

[21:45]

Við framangreindar aðstæður er það undrunarefni að á síðustu mánuðum hafa verið gefin út rekstrarleyfi til sjókvíaeldis í Mjóafirði og Berufirði og tilraunaeldis í Klettsvík og er um verulegan rekstur að ræða í öllum tilvikum. Eðlilegast hefði verið að bíða samþykktar hinna nýju laga, þannig að jafnræði yrði í greininni. Enda þótt í bráðabirgðaákvæði segi að handhafar rekstrarleyfa þurfi að endurnýja rekstrarleyfi innan árs frá gildistöku hinna nýju laga er það þekkt að vandasamara er en ella í allri stjórnsýslu að gera stórauknar og nýjar kröfur til fyrirtækja og atvinnureksturs sem þegar er starfandi. Gjarnan þarf aðlögunartíma við þær aðstæður, ekki síst ef viðkomandi fyrirtæki hafa lagt í umtalsverðar fjárfestingar þegar lagaumhverfið var annað og fábrotnara og fjárfestar þá væntanlega lagt í þær í góðri trú í samræmi við gildandi lagaumhverfi.

Bendir minni hlutinn á að taka þarf tillit til margfeldisáhrifa af rekstri fleiri en einnar eldisstöðvar á viðkomandi svæði. Því er nauðsynlegt að meta hugsanlegt þol hvers staðar fyrir sig áður en leyfi er veitt. Vísað er til matsskyldu framkvæmdar samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt þeim lögum er metið hverju sinni hvort viðkomandi framkvæmd fiskeldisstöðvar á að fara í umhverfismat. Þessu þarf að breyta í lögunum og setja inn skýr ákvæði um að fiskeldisstöðvar sem framleiða meira en 200 tonn á ári skuli alltaf fara í mat á umhverfisáhrifum og sömuleiðis verði tillit tekið til margfeldisáhrifa fleiri en einnar stöðvar á sama svæði, þ.e. gera þarf heildstætt mat. Við veitingu rekstrarleyfa verður aðkoma almennings og annarra hagsmunaaðila ekki tryggð nema með mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Einnig er minnt á álit umhverfisnefndar Alþingis, að veita skuli skipulagsyfirvöldum viðkomandi sveitarfélaga aðkomu að veitingu leyfa þótt laxeldi fari fram utan netlaga sem víðast mun reynast nauðsynlegt.

Auk þess bendir minni hlutinn á að ekki er nægilega tillit tekið til umhverfissjónarmiða og náttúruverndar almennt í frumvarpinu. Náttúruvernd ríkisins á t.d. ekki umsagnarrétt um veitingu rekstrarleyfis til fiskeldis- eða hafbeitar samkvæmt 1. mgr. 3. gr., flutning á eldistegundum o.fl. milli fiskeldis- og hafbeitarstöðva eða ótengdra vatnasvæða samkvæmt 3. mgr. c-liðar 5. gr. og takmörkun á eða bann við fiskeldi, hafbeit eða ákveðnum eldisaðferðum á afmörkuðum stöðum samkvæmt e-lið sömu greinar. Minni hlutinn leggur mikla áherslu á að úr þessi verði bætt áður en frumvarpið verður endanlega afgreitt sem lög frá Alþingi. Þá telur minni hlutinn afar óeðlilegt að umhverfisráðuneyti sé ekki ætlað að tilnefna fulltrúa í fiskeldisnefnd þar sem hlutverk hennar er að vera samstarfsvettvangur fagráðuneyta.

Minni hlutinn telur enn fremur óhjákvæmilegt að vekja athygli á umræðum sem hafa verið ofarlega á baugi um ábyrgð aðila komi til óhappa eða slysa í fiskeldi sem valdið geti umtalsverðri umhverfisröskun, þ.e. tjóni fyrir þriðja aðila, t.d. eigendur laxveiðiáa. Hafa sumir haldið því fram að leyfisveitandinn, þ.e. ríkisvaldið, kunni að verða skaðabótaskyldur komi til slíkra umhverfisslysa, ef rekstraraðilar hafa ekki keypt slíkar sértækar tryggingar. Hafa sérfræðingar á sviði skaðabótaréttar vakið athygli á því að núgildandi lög og reglur henti ekki eða illa þegar um umhverfistjón er að ræða. Fyrirliggjandi frumvarp tekur ekki af tvímæli í þessum efnum eins og rætt var í nefndinni að nauðsynlegt væri að gera.

Eftirlitsþáttur þessara mála hefur sumpart verið færður til betri vegar í breytingartillögum meiri hlutans frá því sem var í frumvarpinu sjálfu, en samkvæmt tillögunum er nú miðað við að rekstraraðilar greiði kostnað af eftirliti í samræmi við raunkostnað. Á það skal minnt að í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið var áætlað að kostnaður við eftirlitið yrði um 8 millj. kr. frá og með árinu 2002. Ýmsir gestir nefndarinnar bentu hins vegar á að kostnaður við nauðsynlegt eftirlit mundi hlaupa á miklu hærri upphæðum, eða tugum milljóna króna. Um þetta skal engu slegið föstu, en hins vegar eru þessir þættir skildir eftir tiltölulega opnir í breytingartillögum meiri hlutans og fáar leiðbeinandi vísbendingar um kostnað og umfang nauðsynlegs eftirlits. Það er galli --- hvort heldur er litið til hagsmuna rekstraraðila sjálfra ellegar þeirra sem hagsmuna eiga að gæta af virku og öflugu eftirliti af opinberra hálfu.

Í heild verður að átelja það að í þessu frumvarpi sem lagt er fram til að setja skýrari og ítarlegri ákvæði í IX. kafla laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, vegna mikillar ásóknar í leyfi til laxeldis í stórum stíl, vantar mjög upp á að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða og náttúruverndar. Til dæmis hefur algerlega gleymst að taka tillit til alþjóðlegra skuldbindinga um náttúruvernd sem Íslendingar eru aðilar að, t.d. Ríó-samningsins frá 1992 um líffræðilegan fjölbreytileika, hafréttarsamnings frá 1982 og Bernarsamningsins um vernd villtrar náttúru í Evrópu frá 1979.

Þrátt fyrir fyrrnefnda galla á frumvarpinu mun minni hlutinn styðja það að lyktum en áskilur sér allan rétt til að flytja breytingartillögur sem lúta að fyrrgreindum atriðum sem minni hlutinn hefur átalið og væntir þess að þær njóti stuðnings.

Hér liggja fyrir brtt. á sérstöku blaði sem ég hef í nál. mínu gert grein fyrir jafnóðum. Ég tel því ekki þörf á að lesa þær upp sérstaklega en vil minna á að með minnihlutaálitinu fylgir umsögn umhvn. Alþingis sem var einróma samþykkt þar og við byggjum mikið á í áliti okkar. Einnig minni ég á umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands og minnisblað frá Veiðimálastofnun um e-lið 5. gr. frv., varðandi erfðablöndun. Að lokum bendi ég á fylgiskjal um fisksjúkdóma, frá Gísla Jónssyni, dýralækni fisksjúkdóma, þar sem glöggt kemur fram að í þessu máli er margt að varast og fyllsta ástæða til þess að fara með mikilli gát.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri.