Lax- og silungsveiði

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 21:52:33 (8448)

2001-05-19 21:52:33# 126. lþ. 129.40 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv. 83/2001, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[21:52]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér hefur verið farið yfir nál. meiri og minni hluta hv. landbn. um frv. til laga um breyting á lögum um lax- og silungsveiði. Hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttur hefur gert góða grein fyrir nefndaráliti minni hlutans. Ég er einn af flutningsmönnum þess álits áliti en mig langar að fara í nokkrum orðum, herra forseti, yfir ákveðin atriði.

Þegar hv. landbn. fékk málið inn á borð til sín var greinilegt að frv. var ekki nægilega vel unnið í byrjun. Segja má að því meira sem við fórum í frv. og eftir því sem við fengum fleiri gesti til okkar til að fjalla um það hafi orðið ljósara að frv. var ónothæft nema sem rammi þegar upp var staðið. Þó ég sé með á sérstöku nál. vegna umhverfisþátta sem mér finnst vanta inn í frv. þá tek ég heils hugar undir allar þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. og tel að hv. landbn. hafi unnið mjög vel saman að því að koma þeim breytingum á og að tillit hafi verið tekið til fjölmargra ábendinga og athugasemda við frv., enda veitti ekki af því. Það var hálfgerð hrákasmíð í upphafi. Að mínu mati vantar þó töluvert upp á að frv. geti orðið nothæf lög til að vinna eftir við svo stóra og mikla atvinnugrein sem sjókvíaeldi getur orðið hér á landi, ef við förum að öllu með gát.

Það er ánægjulegt að vita til þess að margir hafi trú á að hægt sé að fara í sjókvíaeldi við Ísland. Leyfi hafa þegar verið gefin fyrir slíkri starfsemi og mikill undirbúningur í gangi, t.d. austur á Berufirði og Djúpavogi þar sem undirbúið er mjög stórt laxeldi. Lögin eins og þau eru, sem þeir aðilar hafa þurft að vinna eftir, eru mjög ófullkomin og erfitt að feta sig í gegnum þessa undirbúningsvinnu vegna þess. Því er mjög brýnt að betrumbæta lögin og ég vona að við höldum áfram, lærum af reynslunni og höldum áfram að bæta þau.

Það eru mjög alvarlegir sjúkdómar sem herja í þauleldi, þ.e. því stærri sem sjókvíarnar eru því meiri líkur eru á að upp komi sjúkdómar. Það bara gerist og er erfitt að koma í veg fyrir það. Hér á landi eru menn stórhuga en fara ekki í venjuleg verkefni á borð við þau sem þekkjast í nágrannalöndum okkar. Ef við lítum til Norðmanna, sem við höfum lært mikið af enda á að fara að rækta norsk-íslenskan lax en ekki íslenskan, þá er meðalstærð sjókvía þar um 1 þús. tonn en hér var strax sótt um 8 þús. tonna rekstur. Af þessu má sjá hversu stórhuga við erum.

Ég er sannfærð um að það mundi gera okkur vinnuna auðveldari í framtíðinni að varast fleira en eingöngu erfðablöndun við íslenska villta laxinn og að hugsa að mestu leyti út frá fiskeldissjónarmiðum, mengun og öðru því sem snýr að sjókvíunum sjálfum. Það er margt annað í umhverfinu sem þarf að huga að og við stöndum veikt varðandi grunnrannsóknir. Það mundi hreinlega verða bæði vinnusparnaður og einfaldara að láta umsóknir um sjókvíaeldi alltaf fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum. Hugsanlega væri þá hægt að gefa út samhliða rekstrarleyfi og starfsleyfi ef svo yrði gert.

Það þarf að líta til fleiri þátta heldur en fiskeldissjónarmiða. Hér eru að vísu brtt. frá meiri hlutanum um að það verði gert. En ef Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun verður ekki hleypt að sem umsagnaraðilum þá er hætt við að sjónarmið þeirra komist ekki að og það getur orðið okkur dýrkeypt.

Ég held að það hafi verið rétt leið hjá okkur að halda leyfisveitingunni áfram hjá veiðimálastjóra. Þá gildir málskotsréttur varðandi rekstrarleyfið til ráðherra. Eitt af mörgum vandamálum sem við stöndum eftir sem áður frammi fyrir, ef frv. verður að lögum, er að gæta réttar fólks eða fyrirtækja, þeirra sem telja sig eiga hagsmuna að gæta, til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, athugasemdum, kvörtunum, hafi menn eitthvað út á rekstrarleyfið að setja. Við getum gert það varðandi starfsleyfið en varðandi rekstrarleyfið gildir eingöngu málskotsréttur og kæra til ráðherra. Réttur og aðkoma almennings yrði tryggð ef farið væri eftir lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í þeim lögum eru nú þegar ákvæði um þauleldi í svínarækt, miðað við stærð búa. Samkvæmt þeim þurfa stærstu búin alltaf að fara í gegnum slíkt mat en minni búin eftir því sem þurfa þykir. Þannig ætti þetta auðvitað að vera.

Ég legg áherslu á að þegar á komandi hausti endurskoðum við lögin um mat á umhverfisáhrifum og tökum laxeldi inn í þau rétt eins og þauleldi á svínum.