Suðurlandsskógar

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 22:01:06 (8449)

2001-05-19 22:01:06# 126. lþ. 129.41 fundur 589. mál: #A Suðurlandsskógar# (starfssvæði) frv. 89/2001, Frsm. HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[22:01]

Frsm. landbn. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 93/1997, um Suðurlandsskóga.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Níels Árna Lund frá landbúnaðarráðuneyti og Halldór Magnússon frá Skógræktarfélagi Suðurnesja. Með frumvarpinu er lagt til að Austur-Skaftafellssýslu og Gullbringusýslu verði bætt inn í verkefni Suðurlandsskóga sem taka samkvæmt lögum nr. 93/1997 til Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu.

Á undanförnum árum hefur Alþingi sett ítarlega löggjöf um skógrækt, sbr. lög nr. 32/1991, um Héraðsskóga, lög nr. 93/1997, um Suðurlandsskóga, og lög nr. 56/1999, um landshlutabundin skógræktarverkefni. Með því má segja að landshlutabundin skógræktarverkefni nái til alls landsins núna nema Austur-Skaftafellssýslu og Gullbringusýslu.

Þar sem engin lög hafa fjallað um skógrækt á þessum landsvæðum er með frumvarpinu lagt til að þeim verði bætt inn í verkefni Suðurlandsskóga þannig að Suðurlandsskógaverkefnið nái einnig til þeirra sem lögbýli eiga á þessum landsvæðum. Með þeirri breytingu er allt landið í einhverju af þessum landshlutabundnu skógræktarverkefnum.

Herra forseti. Nú á síðustu dögum varð svolítil umræða um hvar mörk Gullbringusýslu væru eða hvort fremur ætti að ræða um Gullbringu- og Kjósarsýslu. Því varð að leita til þeirra sem gerst ættu að þekkja um það. Þó að við höfum ekki lengur sýslur og sýslumörk eins og var þá höfum við í stjórnsýslunni samt sem áður sýslumenn og lögsagnarumdæmi þeirra í héruðum landsins. Samkvæmt upplýsingum Jóns Eysteinssonar, sýslumanns í Keflavík, þá miðast lögsagnarumdæmi embættisins við Gullbringusýslu eins og hún var. Þá er almennt talað um sveitarfélögin Sandgerði, Gerðahrepp, Vatnsleysustrandarhrepp, Reykjanesbæ og Grindavík. Þetta er einnig skilningur hv. landbn., a.m.k. meiri hlutans, að í frv. sé átt við framangreinda hreppa og bæi hvað varðar Gullbringusýslu. Ég hygg að ekki sé málefna- eða meiningarmunur um Skaftafellssýsluna. Hún er öll inni í þessu verkefni. Það er sem sagt núverandi Suðurkjördæmi sem þetta verkefni, Suðurlandsskógar, á að ná yfir. Það er okkar skilningur.