Suðurlandsskógar

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 22:14:19 (8452)

2001-05-19 22:14:19# 126. lþ. 129.41 fundur 589. mál: #A Suðurlandsskógar# (starfssvæði) frv. 89/2001, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[22:14]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt sem fram kemur hjá formanni nefndarinnar, að hann skýrði í ræðu sinni hvað átt væri við með þessu dularfulla nafni, Gullbringusýslu, sem getur að mér sýnist þýtt hvað sem er. Ég veit ekki hversu sterk lögskýringargögn orð hv. þm. eru. Það hefur stundum verið um það deilt og auðvitað skýrara að hafa þetta inni í lögunum. Við erum öll sammála um við hvað er átt.

Nú hefur það óvænt komið fram í ræðu hv. formanns nefndarinnar að ekki sé sérstaklega ætlað að beina skógræktarfé til Suðurnesja. Þá er mér gersamlega óskiljanlegt hvers vegna á, með alls konar lagakrókum, að setja það svæði undir lögin ef meining var að leggja ekki neina peninga í skógrækt þar. Ég veit ekki hvar væri meiri þörf fyrir ræktun. Það eru engin lögbýli í byggð þarna. Þarna eru nokkur eyðibýli. Ég veit ekki hvað eigendur þeirra vilja gera í skógrækt.