Safnalög

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 22:23:22 (8457)

2001-05-19 22:23:22# 126. lþ. 129.31 fundur 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[22:23]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til safnalaga frá menntmn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölmarga gesti til viðræðna um málið og einnig bárust nefndinni mjög margar umsagnir.

Megintilgangur frv. er að styrkja og efla almenna safnastarfsemi í landinu. Jafnframt því er nauðsynlegt að tryggja að opinberum fjármunum, sem veittir eru til safnamála, sé vel varið og að fjárveitingar til safna grundvallist á rökstuddu mati og heildstæðri stefnu í safnamálum. Helstu breytingar sem nefndin leggur til á frv. eru eftirfarandi:

Nefndin leggur til að skipan og hlutverki safnaráðs verði breytt. Ráðið verði skipað fimm mönnum, einum tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga auk varamanns, einum tilnefndum af Félagi íslenskra safnmanna auk varamanns og jafnframt eigi þar sæti forstöðumenn höfuðsafna er tilnefni varamenn í sinn stað. Er þannig komið til móts við það sjónarmið að þeir sem í ráðinu sitja hafi faglega innsýn í sérþarfir viðkomandi safna. Ráðið sinni ekki stefnumörkunarhlutverki eða áætlanagerð fyrir safnastarfsemi í landinu heldur verði slíkt á forræði hvers höfuðsafns á sínu sviði. Að öðru leyti verði hlutverk safnaráðs óbreytt og úthluti ráðið úr safnasjóði og hafi eftirlit.

Þar sem frv. nær einnig til náttúruminjasafna telur nefndin að undirstrika þurfi betur en gert er í markmiðsákvæði 1. gr. að ætlunin sé að stuðla að varðveislu og kynningu á náttúrusögu Íslands ásamt menningarsögu íslensku þjóðarinnar.

Nefndin leggur til efnislegar breytingar á 5. mgr. 5. gr. þannig að ljóst sé að Náttúruminjasafni Íslands er ætlað að vera gott og fullkomið höfuðsafn --- sýningarsafn --- um náttúrufræði Íslands. Taka breytingartillögur nefndarinnar mið af hlutverki Náttúrufræðistofnunar Íslands, sbr. lög nr. 60/1992, enda ekki að því stefnt að reisa skorður við uppbyggingu þeirra gagna- og upplýsingasafna um náttúrufræði Íslands sem unnið er að á setrum Náttúrufræðistofnunar Íslands og að vissu marki er svæðisbundið á náttúrustofum landshlutanna.

Þá eru lagðar til breytingar á 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða þannig að ákvæði 5. mgr. 5. gr., þar sem kveðið er á um að Náttúruminjasafn Íslands hafi stöðu höfuðsafns, komi ekki til framkvæmda fyrr en sett hafi verið sérlög um Náttúruminjasafn Íslands í samræmi við lög þessi. Æskilegt væri að hafinn yrði undirbúningur að gerð þess frv. sem fyrst og að það yrði samið í nánu samstarfi við umhverfisráðherra og í því yrði m.a. kveðið á um tengsl laganna við Náttúrufræðistofnun Íslands. Lagt er til að fellt verði brott að fram skuli fara endurskoðun á lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, er miði að því að aðgreina safnastarfsemi Náttúrufræðistofnunar frá öðrum skilgreindum verkefnum stofnunarinnar.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Menntmn. er einróma í afstöðu sinni til málsins.