Húsafriðun

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 22:31:40 (8460)

2001-05-19 22:31:40# 126. lþ. 129.32 fundur 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[22:31]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla í örstuttu máli að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef á varðandi þetta mál. Hann felst í því að hér er verið að stofna, eins og fram hefur komið, sjálfstæða stofnun sem kallast samkvæmt frv. húsafriðunarnefnd. Ég hefði af ýmsum ástæðum viljað sjá þetta nafn skrifað með upphafsstaf. Það hefur verið leitað eftir því í vinnu nefndarinnar hvort möguleiki væri á slíku en á það hefur ekki verið fallist.

Rök mín fyrir þessu eru m.a. þau að ekki er langt síðan það gerðist í sölum þingsins að hæstv. forseti Alþingis gerði ljóst að hann teldi stofnunum sem ritaðar eru með litlum upphafsstaf í lögum ekki vera ætluð stór verkefni. Ég held að húsafriðunarnefnd séu ætluð stór verkefni og hefði haldið að hún ætti rétt á að fá þá stöðu í lögunum að nafn hennar væri ritað með upphafsstaf. Það fékkst ekki í gegn. Ég set mig þó ekki upp á móti málinu. Ég hefði kannski viljað ræða það hér hvort ekki væri ráð að kalla þessa litlu stofnun Húsafriðun ríkisins. Það hefði verið mér mjög að skapi. Ég tel að ef við hefðum valið þá leið þá hefði ekki verið erfitt að sækja það að fá nafnið ritað með upphafsstaf. Hjá umsagnaraðila sem kom fyrir nefndina kom fram að við þyrftum ekki að hafa neina Danahræðslu í þeim efnum. Nefndin var frædd um það að Guðni Guðmundsson rektor Menntaskólans í Reykjavík hefði kallað það Danahræðslu eða timor Danorum þegar menn fældust upphafsstafi.

Áhyggjur mínar af þessu máli eru svo sem ekki þungar. Þó vildi ég gera grein fyrir annarri athugasemd sem ég hef við málið, þ.e. varðandi kirkjur. Það hefur verið talað um að taka þurfi til athugunar kirkjur, jafnvel frá síðustu öld. Það hefur komið fyrir að kirkjur byggðar fyrir 1940 hafi verið skemmdar eða gerðar á þeim breytingar sem húsafriðunarmenn hafa talið til vansa. Það er kannski mál sem við gætum skoðað í framhaldinu. Ég fagna því hins vegar að húsafriðunarnefnd skuli orðin sjálfstæð stofnun og hef ekki fleiri athugasemdir við þetta mál.