Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 22:40:55 (8463)

2001-05-19 22:40:55# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[22:40]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt að þurfa að segja það en ég hef á tilfinningunni að hæstv. landbrh. hafi alls ekki lesið frv. eða þau skilyrði sem sett eru fram fyrir sölu hlutafjárins. Þar er einmitt gert ráð fyrir því að almenningur og lífeyrissjóðirnir fái ekki rétt til að kaupa Landssímann með þeim hætti sem hæstv. ráðherra er að tala um, heldur á að búta hann niður þannig að almenningur hafi aðgang að hluta og síðan fjárfestarnir, sem hann var að minnast á, aðgang að hluta o.s.frv.

Ég vil því benda hæstv. landbrh. á að ég er svo sem sammála því sjónarmiði hans að þetta gæti verið betra en því miður sýnist mér hann ekki fara alveg með rétt mál.