Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Laugardaginn 19. maí 2001, kl. 22:41:53 (8464)

2001-05-19 22:41:53# 126. lþ. 129.6 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 126. lþ.

[22:41]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það koma iðulega fram fullyrðingar um að maður lesi ekki um málin, vitringarnir segja það gjarnan. En 14% er mikil sala til fólksins til að byrja með og ... (JB: Fólkið á þetta.) Fólkið á það, en staðan er sú að það er samstaða um það, líklega í öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi nema Vinstri grænum, að samkeppnisfyrirtæki verði ekki áfram í ríkiseigu. Það er bara staðan, alþjóðasamningar, EES-samningur og fleira spilar þar inn í. (Gripið fram í.) Þetta er gjörningur sem hefur átt sér stað og þess vegna er spurning hvort ekki þurfi að stýra því hverjir kaupa. Ég sé fyrir mér lífeyrissjóðina með 120 milljarða á ári.

Það mundi ekki standa í hv. þm. Ögmundi Jónassyni, formanni stærsta lífeyrissjóðs landsmanna, að safna kennitölum og gerast áhugamaður um hlut Landssímans. (ÖJ: Afsala þjóðinni þessum dýrmætu eignum.) Ja, afsala. Þetta er staða sem við stöndum frammi fyrir. (ÖJ: Framsfl. er kominn langt frá uppruna sínum.) Hæstv. forseti. Er það svo að hér sé hafið tveggja manna tal?

(Forseti (HBl): Mér heyrðist það.)

Glöggur er hæstv. forseti. Staðan er auðvitað sú að þetta blasir við og ég sé fyrir mér að fjöldahreyfing fólksins, þessi fjöldavæðing sem ég kalla svo, geti komið og tekið við þessu hlutverki af ríkisvaldinu fyrst það fær ekki að reka þessar stofnanir.