Ávarp forseta

Mánudaginn 02. október 2000, kl. 16:04:31 (5)

2000-10-02 16:04:31# 126. lþ. 1.92 fundur 10#B ávarp forseta#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 1. fundur, 126. lþ.

[16:04]

Forseti (Halldór Blöndal):

Háttvirtir alþingismenn. Ég þakka hæstv. aldursforseta, Páli Péturssyni, hlý orð í minn garð. Ég þakka hv. alþingismönnum það traust sem þeir hafa sýnt mér með því að kjósa mig á ný forseta Alþingis. Ég met það traust mikils.

Alþingi kemur nú að nýju saman til reglulegra þingstarfa eftir viðburðaríkt sumar. Þar ber hæst hátíðarfundinn á Þingvöllum 2. júlí þar sem þess var minnst að þúsund ár voru liðin síðan kristni var lögtekin. Það er mikilsverðasta samþykkt Alþingis, atburður sem er einstæður meðal þjóðanna, niðurstaða sem vísaði fram á veginn. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka öllum þeim sem að undirbúningi hátíðahaldanna komu og unnu að því að gera þau svo ánægjuleg og eftirminnileg sem raun ber vitni.

Með kristnitökunni var tekin ákvörðun um að ganga í samfélag Evrópuþjóða. Það var gert með opnum huga. Höfðingjasynir sóttu menntun sína til nágrannalandanna, Danmerkur, Saxlands, Parísar og Englands, og mótuðu íslenska frumkristni. Hún spratt því upp af þjóðlegri rót sem nærðist af þeim menningarlegu og siðferðilegu straumum sem bárust með kaþólsku kirkjunni til Norður-Evrópu. Íslenskt ritmál varð til og sögu okkar og tungu bjargað.

Alþingi var stofnað árið 930 til þess að tryggja ein lög í landinu og að menn næðu rétti sínum hvar sem þeir byggju. Einar Arnórsson hefur einnig fært rök að því að það hafi flýtt fyrir stofnun Alþingis að Noregskonungur sendi hingað Una danska til þess að ná landinu undir sig. Íslendingar skildu að þeir yrðu að standa saman gegn erlendu valdi. Alþingi hefur þess vegna frá upphafi komið fram fyrir hönd þjóðarinnar út á við gagnvart erlendum konungum og erlendu valdi þegar þess hefur þurft við. Gamli sáttmáli var samningur tveggja jafnrétthárra aðila og í ákvæði hans sóttu Íslendingar vopn sín í sjálfstæðisbaráttunni þangað til sigur var unninn.

Á síðustu árum hafa erlend samskipti orðið snar þáttur í störfum Alþingis. Gagnkvæmum heimsóknum þingforseta og þingmanna hefur fjölgað. Við erum í tíu alþjóðlegum þingmannasamtökum og eru umsvif þeirra vaxandi. Í byrjun nóvember verður þing Norðurlandaráðs háð í Reykjavík. Það kallar á mikla vinnu og góðan undirbúning sem ég efast ekki um að verði okkur til sóma.

Allt þetta starf á vegum Norðurlandaráðs, Evrópusamstarfið og alþjóðasamstarfið er mjög krefjandi en þingmenn skilja mikilvægi þess að það sé vel leyst af hendi svo að við getum fylgst með þeim straumum sem leika um lönd og álfur. Menn eru sem betur fer farnir að skilja að ferðir stjórnmálamanna, ráðherra og þingmanna til annarra landa eru ekki skemmtiferðir heldur vinnuferðir sem krefjast góðs undirbúnings, árvekni og hreinskilni. Persónuleg kynni sem stofnað er til í slíkum ferðum eru til þess fallin að auðvelda mönnum að vinna betur saman og hafa á stundum beinlínis flýtt fyrir því að ágreiningsmál leysist þjóða á milli. Íslenskir stjórnmálamenn hafa unnið sér traust í alþjóðlegu umhverfi.

Það er mikilvægt fyrir störf Alþingis að þingmenn búi við góð vinnuskilyrði. Það hefur verið of þröngt um nefndirnar í Þórshamri og þess vegna er mér ánægja að skýra frá því að nú á þessum haustdögum verður tilbúið nýtt húsnæði fyrir þær við Austurstræti.

Reynslan hefur sýnt að það var tímabær ákvörðun og rétt ákvörðun að leggja niður deildir Alþingis til þess að nýta tíma þingmanna betur og gera þeim kleift að einbeita sér að sérstökum málaflokkum. Sú verkaskipting hefur síðan kallað á betri vinnuaðstöðu í nefndum enda óhjákvæmilegt svo ör sem þjóðfélagsþróunin hefur orðið og svo miklar breytingar sem orðið hafa í mannlegum samskiptum á sumum sviðum. Síðasta áratuginn hefur Alþingi orðið sjálfstæðara í störfum sínum en áður var. Ég álít að ekki sé fótur fyrir því að það hafi fjarlægst þjóðina og sé ekki lengur spegilmynd hennar. Ef farið er yfir þingmálin og umræður sjáum við hið gagnstæða. En hitt er rétt að umræður um dýrtíðarmál og brýnar efnahagsráðstafanir heyra sögunni til og að þingið hefur í vissum greinum fært vald sitt út til þjóðarinnar og er það vel.

Þau sjónarmið heyra fortíðinni til að ætla að hið skapandi afl í þjóðfélaginu eigi að eiga upptök sín í sölum Alþingis. Það getur aldrei orðið. Hið skapandi afl býr í hinu iðandi mannlífi, markaðstorgi þess þar sem einstaklingarnir hafa olnbogarými til þess að njóta sín og koma hugmyndum sínum fram. Alþingi setur leikreglurnar og hefur eftirlit með að framkvæmdarvaldið sjái um að þær séu í heiðri hafðar.

Það kom af sjálfu sér þegar Danakonungur afsalaði sér einveldinu að Íslendingar kröfðust endurreisnar Alþingis.

  • Ríða skulu rekkar,
  • ráðum land byggja,
  • fólkdjarfir fyrðar
  • til fundar sækja,
  • snarorðir snillingar
  • að stefnu sitja,
  • þjóðkjörin prúðmenni
  • þingsteinum á.
  • Svo skal hinu unga
  • alþingi skipað
  • sem að sjálfir þeir
  • sér munu kjósa.
  • Þingræðið er runnið Íslendingum í merg og blóð. Lýðræði án þingræðis er hugmynd í lausu lofti á meðan lýðræði sem byggir á þingræði er besta þjóðfélagsform sem við þekkjum. Það er ekki gamall rammi utan um dautt málverk heldur lifandi þáttur í þjóðfélagsmyndinni sem endurnýjar sig í sífellu. Þingræðið getur aldrei verið í fárra höndum af því að þjóðin velur þá sem með það fara og endurnýjar umboð sitt ef henni svo sýnist eða felur öðrum að taka við ef hún kýs það heldur. Það er einmitt styrkur þingræðisins að stjórnmálamenn verða að leggja verk sín undir dóm kjósenda og þar með þjóðarinnar á fjögurra ára fresti og kynna stefnumál sín næsta kjörtímabil. Þá reynir á trúverðugleik þeirra og manndóm. Enginn er sjálfkjörinn. Þetta þekkjum við úr sögunni, sögu þingsins og sögu stjórnmálaflokkanna.

    Ég hef orðið þess var að sú hugsun hefur komið fram að Alþingi sé að verða úrelt þing af því að upplýsingatækninni hafi fleygt svo mjög fram og af því að auðvelt sé að koma skilaboðum frá einum stað til annars með því að ýta á takka. Hugmyndin virðist vera sú að einstaklingarnir, hvar sem þeir eru staddir, eigi að koma sínum skilaboðum á framfæri. Við hvern er óljóst, nema tæknin eigi að vinna úr þeim.

    En tæknin hefur engan miðpunkt og enga framkvæmd af sjálfri sér. Það er þess vegna ekki hægt að reiða sig á hana. Maðurinn verður að koma til skjalanna og vinna úr upplýsingunum. Við stöndum þess vegna í sömu sporum og áður nema það hefur bæst við að of mikil tækni, of mikið upplýsingaflæði getur orðið manninum ofviða nema farið sé með gát. Og horfum ekki fram hjá því að það er ekki í samræmi við lýðræðislega hugsun að greiða atkvæði gegnum netið eða með samsvarandi hætti af því að hin persónulega leynd hvers einstaklings er ekki tryggð. Reynslan sýnir að það er ekki einu sinni hægt að byggja skoðanakannanir á slíkum upplýsingum.

    Þegar við Íslendingar fengum ráðherra 1. febrúar 1904 þótti sjálfsagt að hann hefði stuðning meiri hluta Alþingis á bak við sig og hefur svo verið jafnan síðan að ríkisstjórnir hafa stuðst við meiri hluta Alþingis og þar með haft stuðning meiri hluta þjóðarinnar. Ekki er fyrir það að synja að þeirri hugmynd hefur verið hreyft af og til að ráðherrar skuli ekki vera úr hópi alþingismanna og að ríkisstjórn geti jafnvel setið óháð Alþingi en slíkar hugmyndir hafa verið andvana fæddar, enda samræmast þær ekki lýðræðishefð Íslendinga og eru í bága við réttlætiskennd þeirra.

    [16:15]

    Hannes Hafstein var leiðtogi Alþingis og þess vegna var það í samræmi við inntak þingræðisins að hann tæki við embætti ráðherra og þannig hefur það verið. Leiðtogar þjóðarinnar á Alþingi hafa leitt ríkisstjórnir og skipað þær og borið á þeim pólitíska ábyrgð. Við getum því ekki sagt að íslenska þingið sé veikt. Þvert á móti hefur það mikinn styrk sem það sækir til þjóðarinnar sjálfrar. Þingmenn bera ábyrgð á verkum sínum gagnvart sjálfum sér og þjóðinni og hafa þess vegna sérstöðu.

    Vegna þessarar sérstöðu sinnar hafa þingmenn lagt sig fram um að eiga náið persónulegt samband við sem flesta heim í sitt kjördæmi. Auðvitað eru vinnubrögð þeirra jafnmisjöfn og þingmennirnir eru margir en það er til marks um þá áherslu sem einstakir þingmenn leggja á þessi tengsl að þingmaður sem nú er horfinn af þingi hélt á hverju einasta ári, og þau voru 20, á milli 30 og 40 reglulega fundi í ýmsum byggðarlögum kjördæmisins. Þessu til viðbótar voru svo þeir fundir og samkomur sem til féllu svo að það var ekki lítið á sig lagt. Þó að þessi þingmaður væri duglegur var hann ekki einstakur að þessu leyti. Ég held þess vegna að það sé ógætilegt að gera lítið úr þeim persónulegu tengslum út í þjóðfélagið sem þingmenn hafa ef þeir leggja saman.

    Ég endurtek þakkir mínar til hv. þingmanna fyrir að endurkjósa mig forseta Alþingis um leið og ég læt í ljós þá von að mér auðnist að eiga við þá gott samstarf.