Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 03. október 2000, kl. 19:53:17 (10)

2000-10-03 19:53:17# 126. lþ. 2.1 fundur 9#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 126. lþ.

[19:53]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Fræg eru þau ummæli ritsnillingsins að Íslendingar vildu helst ekki deila um neitt nema tittlingaskít. Eftir þessum orðum var tekið og þau lögð á minnið vegna þess að þau voru hnittin og í þeim fólst sannleikskorn. Flest okkar hafa einhvern tíma orðið sek um að láta aukaatriðin byrgja okkur sýn til þess sem meira máli skiptir. Jafnvel á þessum virðulega stað vill það henda fulloft. En það breytir ekki hinu að hvergi annars staðar er á jafnfáum fermetrum í landinu fjallað oftar og af meiri alvöru um málefni, tillögur og álit sem miklu skipta, jafnt fyrir einstaklinga, stóra hópa og jafnvel alla þjóðina. Enn á ný er ,,vertíðin`` að hefjast, orðaskakið, átökin, deilurnar og rifrildið, en líka vel hugsaðar rökræður og lipurlegar skylmingar sem eru til þess fallnar að varpa ljósi á mismunandi leiðir að því markmiði, sem okkur öllum hlýtur að vera mikilvægast, að verða landi og þjóð til gagns. En margt er hér starfið, sem minna ber á, svo sem nefndastarfið, sem unnið er í skugganum, en skiptir svo miklu máli og loks eru það úrslitastundirnar þegar frumvörp verða að lögum og tillögur að ályktunum þingsins.

Meðaltöl eru hættuleg en ég læt undan freistingunni og nefni hér það meðaltal sem segir að Alþingi Íslendinga afgreiði ein lög á hverjum vinnudegi sínum og er spurningin helst sú, hvort það sé ekki of í lagt. Hvað sem þessu líður þá kynnir ríkisstjórnin nú þingheimi lista yfir þau frumvörp sem ráðherrar hugsa sér að flytja og er hann ekki tæmandi. Þjóðhagsáætlun hefur verið lögð fram og fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp sitt til fjárlaga. Ekki er því hægt að saka þingheim um að byrja á ,,tittlingaskítnum`` sem áður var nefndur. Hvað segja þessi miklu plögg okkur um framtíðina? Í hvað stefnir og hvernig hefur stjórnarstefnan gengið fram á fyrsta heila starfsári ríkisstjórnarinnar?

Ríkissjóður verður á næsta ári rekinn með meiri afgangi en nokkru sinni fyrr í sögu þjóðarinnar og hefur ríkissjóðsafgangurinn aukist ár frá ári að undanförnu. Afgangurinn verður nálægt 30 milljörðum kr. eða sem nemur 4% af landsframleiðslunni. Þetta er algjört einsdæmi. En það sem mestu skiptir er að þessi árangur er hluti af þróun. Þriðja árið í röð verður afgangur á ríkissjóði meiri en 20 milljarðar eða samanlagt meiri en 80 milljarðar frá árinu 1999. Í lok næsta árs verða hreinar skuldir ríkisins aðeins um 14% af landsframleiðslunni en stefndi í 60% fyrir fáum árum. Um þetta segir í þjóðhagsáætlun:

,,Þetta er einstæður árangur sem hefur skipað Íslandi í fremstu röð í þessum efnum meðal sambærilegra ríkja.``

Ef svo heldur fram út kjörtímabilið verður ríkissjóður nær skuldlaus við lok þess. Það yrðu mikil tímamót og trygging fyrir vaxandi hagsæld og það sem meira er varanlegri hagsæld í landinu.

Þessi þróun er til marks um að þjóðarbúskapurinn er öflugri en nokkru sinni fyrr í sögu þjóðar. Oft er deilt um ágæti mikils hagvaxtar og ekki er síður tekist á um skiptingu lífsins gæða. Nú hefur hagvöxtur verið nálægt 5% að meðaltali frá miðjum síðasta áratug og þekkjum við ekki hagstæðara tímabil í íslenskri efnahagssögu. Kaupmáttaraukning og hærri laun hafa fylgt þessum hagvexti. Um þann mikla árangur verður ekki deilt. Á sama tíma hafa um 15.000 ný störf orðið til á Íslandi. Verðbólga hefur verið lítil nær allan þennan tíma en því var spáð að hið íslenska hugarfar þyldi ekki svo langt og öflugt hagvaxtarskeið og verðbólgan hlyti að fara algjörlega úr böndunum eins og jafnan hefur gerst áður við slíkar aðstæður. Merkur maður hélt því fram með nokkuð stóryrtum hætti að ríkisstjórnin leitaðist við að fela hið erfiða ástand, sem hann kallaði svo, fram yfir síðustu kosningar. ,,Hin tifandi tímasprengja`` í efnahagsmálum mundi springa strax eftir kosningar með stórbrotnum afleiðingum. Nú er liðið eitt og hálft ár frá kosningum. Verðbólgan fer minnkandi, það dregur úr þenslu, staða krónunnar er sterk, þótt mikil vantrú umheimsins á evrunni hafi reynt á þanþol hennar. Minnkandi þensla mun draga hægt en örugglega úr viðskiptahalla. Atvinnuleysi er ekkert en sveigjanlegri reglur um erlent vinnuafl hafa auðveldað mönnum að koma í veg fyrir að vinnumarkaðurinn færi úr böndunum. Um alla þessa þróun segir svo í þjóðhagsáætlun þeirri sem þingmenn hafa fyrir framan sig:

,,Þessi hagfellda þróun á sér rætur í traustu efnahagsumhverfi og stöðugleika sem hefur glætt vöxt í mörgum greinum atvinnulífsins. Markaðsumbætur, aukin samkeppni og skýrari leikreglur hafa leitt af sér aukna framleiðni og verðmætasköpun á breiðum grunni. Í þessu umhverfi hafa nýjar atvinnugreinar blómstrað; hátæknifyrirtæki í lífefnaiðnaði og hugbúnaðargerð hafa náð ótrúlegum árangri á fáum árum. Nýja hagkerfið hefur því sett svip sinn á efnahagsþróunina og virðast Íslendingar standa framarlega á því sviði eins og tölur sýna um vöxt slíkra fyrirtækja og aðgang að netinu. Einnig hefur verið mikill vöxtur í ýmsum ,,hefðbundnum`` greinum á undanförnum árum, m.a. hefur framleiðsla áls stóraukist og ferðaþjónusta hefur eflst. Þá hafa Íslendingar verið að hasla sér völl erlendis í ríkari mæli en áður, ekki síst á sviði hátækniiðnaðar, sjávarútvegs og fjármála.

[20:00]

Kennileitin í íslensku efnahags- og atvinnulífi hafa því breyst mikið á tiltölulega skömmum tíma. Þjóðarbúskapurinn hefur nú á sér alþjóðlegan blæ þar sem í aðalatriðum gilda sömu leikreglur og meðal þeirra þjóða sem hafa náð lengst. Þetta er án efa besta leiðin til að tryggja efnahag landsmanna í framtíðinni. Ríkisstjórnin mun því byggja áfram á þeim grunni sem hér hefur verið lagður á undanförnum árum þar sem hornsteinarnir eru opinn markaðsbúskapur, stöðugleiki, skýrar leikreglur og öflugir innviðir til að búa í haginn fyrir framfarir í atvinnulífinu.

Hagvaxtarskeiðið hefur leitt til þess að kjör heimila hafa stórbatnað. Til marks um það stefnir í að kaupmáttur ráðstöfunartekna verði um 23% meiri á þessu ári en hann var 1995. Á sama tíma hefur einkaneysla aukist um 36%, eða um 110 milljarða króna sem samsvarar um 1,5 millj. króna á hverja fögurra manna fjölskyldu. Við þetta má bæta að mörg heimili og einstaklingar hafa fært sér í nyt ný tækifæri til sparnaðar og fjárfestinga sem leitt hafa af opnun hagkerfisins, sölu ríkisfyrirtækja og eflingu innlends hlutabréfamarkaðar.``

Mikill viðskiptahalli hefur verið eina neikvæða táknið í íslenskum efnahagsmálum upp á síðkastið og hann er áhyggjuefni. Við Íslendingar höfum þó á hinn bóginn löngum búið við viðskiptahalla. En áður stafaði hann ekki síst af ógætilegum tökum á ríkisfjármálunum. Viðskiptahallinn nú er allt annars eðlis. Ríkið greiðir hratt niður skuldir sínar og er að verða nær skuldlaust. Aðrir aðilar hafa traust á stöðugleika íslenska efnahagslífsins og trúa á möguleika sína til endurgreiðslu þeirra skulda sem þeir hafa stofnað til. Hafi þessir aðilar reiknað sín dæmi rétt, sem engin sérstök ástæða er til að efast um, og takist okkur að halda óbreyttri efnahagsstefnu, sem ríkisstjórnin mun leggja allt kapp á, er viðskiptahallinn því minni ógn en menn vilja vera láta, auk þess sem nú er væntanlega komið yfir kúfinn í þeim efnum. Þá er rétt að benda á enn eina mikilvæga staðreynd. Árið 1995 áttu Íslendingar nánast engar eignir í erlendum hlutabréfum. Á miðju þessu ári voru þessar eignir komnar í 155 milljarða króna og hafa sjálfsagt vaxið enn frá þeim tíma. Afrakstur af þessum miklu eignum okkar erlendis munu koma hingað heim og aukast ár frá ári á næstu árum og stuðla þar með að stöðugleika í gengi og jafnframt eru þær til þess fallnar að styrkja stoðirnar undir langtímasparnaði landsmanna.

Kjarasamningar sem launþegahreyfingin og samtök atvinnulífsins hafa þegar gert eiga að tryggja tvennt. Í fyrsta lagi að hin mikla kaupmáttaraukning sem orðið hefur undanfarin ár varðveitist og reyndar vaxi. En almennur kaupmáttur hefur vaxið um tæp 30% frá árinu 1993. Eru varla dæmi um jafnmikla kaupmáttaraukningu í hefðbundnum samanburðarlöndum okkar. Í öðru lagi var forsenda kjarasamninga sú að treysta stöðugleika og lága verðbólgu. Enn sem komið er bendir flest til að bæði þessi markmið náist. Hið síðarnefnda markmið þjónar auðvitað öllum á vinnumarkaðinum, ekki síður þeim hluta hans sem ekki hefur enn gengið frá sínum samningum. Því hlýtur öllum að vera fullljóst að við þá samningagerð sem eftir er hlýtur meginmarkmiðið báðum megin við borðið að vera að kollvarpa ekki þeim forsendum sem stöðugleiki efnahagslífsins er að þessu leyti byggður á.

Þess hefur verið gætt að kaupmáttaraukningin nái einnig til þeirra sem ekki semja um kjör sín, svo sem aldraðra og öryrkja og hafa öll þau skref sem ríkisstjórnin hefur stigið undirstrikað þann vilja hennar að varðveita og efla kaupmátt þessara hópa á kjörtímabilinu.

Fjárhagur sveitarfélaganna í landinu er æðimisjafn. Flest hinna stærri sveitarfélaga njóta þess mjög að stórhækkað fasteignamat og aukin raunhækkun launa er að skila þeim verulegum tekjum að óbreyttum tekjustofnum. Reyndar hafa sum sveitarfélög verið að hækka álögur sínar á almenning um leið og ríkið hefur verið að skera sínar niður. Mörg sveitarfélög hafa á hinn bóginn liðið vegna fólksfækkunar og annarra erfiðleika og er ljóst að ríkisstjórnin vill koma til móts við þessi sveitarfélög með því að styrkja Jöfnunarsjóð sveitarfélaga með fólksfækkunar- og þjónustuframlögum. Jafnframt er að því stefnt að leiðrétta þá skipan að fólk úti á landi greiði fasteignaskatta sem eru ekki í neinu samræmi við mat á verði fasteigna þeirra.

Fyrir meira en áratug var gengið mjög ógætilega og fyrirhyggjulaust fram í uppbyggingu svokallaðs félagslegs húsnæðis í sumum sveitarfélögum. Má þar um kenna skammtíma sjónarmiðum forráðamanna þeirra sveitarfélaga og gáleysi þess hluta ríkisvaldsins sem í hlut átti. Nú er komið að skuldadögum og engin augljós lausn í augsýn. Ríkisstjórnin mun fyrir sitt leyti leita að lausn í samstarfi við sveitarfélögin, en í þeim efnum verður að gæta jafnræðis og eins hins að svipta viðkomandi sveitarfélög ekki allri ábyrgð af gerðum sínum.

Herra forseti. Í apríl sl. lagði utanrrh. fram á Alþingi skýrslu um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi. Í skýrslunni er umfangsmikil lýsing á EES-samningnum og rekstri hans. Til samanburðar er annars vegar hugað að þeim kosti hvar Íslendingar stæðu án EES-samningsins, hins vegar hvaða afleiðingar aðild Íslands að Evrópusambandinu gæti haft. Fram kemur að EES-samningurinn virki eins og honum var ætlað og afraksturinn hafi reynst góður og rekstur samningsins gengið vel.

EES-samningurinn tryggir vissulega ekki beinan aðgang að pólitískri ákvörðunartöku í ESB. Það stóð aldrei til. Það var vitað þegar samningurinn var gerður og hefur því legið fyrir frá upphafi eins og segir í skýrslunni. Á móti þurfti ekki að gangast undir nein þau atriði í ESB sem við vildum ekki. Bent er á að kostir EES-samningsins felist einkum í því að hann veiti aðgang að þeim þáttum Evrópusamstarfsins sem áhugaverðastir eru meðan aðrir þættir sem ekki höfða til íslenskra hagsmuna eða hreinlega ganga gegn íslenskum hagsmunum standi utan samningsins. Og hvaða þættir eru það? Jú þeir felast í þeim stóru ókostum sem áður hefur oft verið bent á og hin ágæta skýrsla utanrrh. staðfestir að eru áfram til staðar.

Þannig eru þær hættur sem fylgdu aðild að sjávarútvegsstefnu ESB fyrir íslenska hagsmuni taldar fram í skýrslunni. Ekkert bendir til að sjávarútvegsstefna ESB sé líkleg til að haggast í neinum aðalatriðum. Samanborið við Ísland eru allar aðstæður innan Evrópusambandsins í þessum efnum gjörólíkar, eins og réttilega segir í skýrslunni, því í ESB er litið á sjávarútveg sem hluta af byggðastefnu fremur en sem sjálfstæðan og sjálfbæran atvinnuveg. Sérstaklega er tekið fram varðandi sjávarútveginn það sem alltaf hefur verið vitað, að meginreglan í aðildarviðræðum sé sú að varanlegar undanþágur frá stefnu sambandsins fáist ekki.

Sumar greinar íslensks landbúnaðar gætu haft eftir einhverjum styrkjum að slægjast með aðild, styrkjum sem allar líkur væru þó á að færu lækkandi með stækkun ESB. Unnar búvörur mundu eiga undir högg að sækja í samkeppni við stóra framleiðendur á meginlandinu og íslenskir bændur gætu lent í vandræðum við að afsetja afurðir sínar, eins og segir í skýrslunni. Þá kemur fram að byggðastyrkir yrðu Íslendingum torsóttir í aðildarviðræðum og með stækkun ESB mundu byggðastyrkir til Íslands og annarra efnaðra ríkja í ESB minnka. Ókostir fyrir hagkerfi eins og okkar af aðild að Efnahags- og myntbandalaginu og af því að verða að taka upp evruna, eru þeir sem áður eru þekktir og lúta einkum að því að skerða enn frekar möguleika íslenskra stjórnvalda til að bregðast við óvæntum sveiflum í þjóðarbúskapnum. Í skýrslunni er á hinn bóginn bent á að aðild að evrunni gæti verið áhugaverð fyrir þá sök að hún mundi stuðla að lægri vöxtum.

Í skýrslu utanrrh. er reynt að áætla hvað aðild Íslands að ESB mundi kosta í beinhörðum peningum. Þannig er talið líklegt að framlag Íslands gæti orðið rúmlega 8 milljarðar króna á ári sem var varlega áætlað og bent á að óvíst sé hve mikið kæmi til baka. Þó mætti búast við að helmingur eða meira kæmi til baka úr sameiginlegum sjóðum ESB fyrsta kastið, eins og það er orðað, og þá vegna landbúnaðar, byggðastefnu og vegna styrkja til sjávarútvegs. Hvað varðar styrki til sjávarútvegs er hins vegar bent á, og rétt að leggja áherslu á það, að óvíst væri hvort Íslendingar mundu sækjast eftir slíku fé. Það gengi gegn öllum meginreglum í rekstri íslensks sjávarútvegs og í skýrslunni er tekið fram að styrkir til sjávarútvegs í ESB hafi reynst honum skaðlegir.

Víst er að framlag Íslands á mann til sjóða ESB yrði hátt og með því hæsta sem gerist innan ESB vegna hlutfallslega mjög hárra þjóðartekna hér. Jafnvíst væri að Íslendingar mundu greiða mun meira til sjóða sambandsins en þeir fengju til baka. Þá er öruggt að eftir stækkun ESB mundi framlag Íslands stórhækka og endurgreiðslur lækka vegna mun hærri þjóðartekna á mann á Íslandi en í nýjum aðildarríkjum.

Ákvörðun dönsku þjóðarinnar um að hafna því að kasta sjálfstæðum gjaldmiðli sínum í þágu sameiginlegrar myntar liggur fyrir. Sætir niðurstaðan miklum tíðindum. Ríkisstjórnarflokkarnir í Danmörku ásamt stærstu stjórnarandstöðuflokkunum, fjölmiðlum og forustumönnum alls atvinnulífs urðu undir í því máli. Hér skal enginn dómur lagður á það hvort sú niðurstaða var góð eða slæm fyrir Danmörku. En af þjóðaratkvæðagreiðslunni og hinni afgerandi niðurstöðu hennar getum við öll dregið heilmikinn lærdóm. Eftir sem áður þurfa íslensk stjórnvöld að fylgjast sjálfstætt og grannt með þróun Evrópumála. Skýrsla nefndar forsrh. um evruna og fyrrgreind skýrsla utanrrh. eru liður í því.

Herra forseti. Þótt nauðsynlegt sé að draga úr umsvifum í þjóðarbúskapnum um sinn til að ná betra jafnvægi eigum við marga góða möguleika þegar litið er til framtíðar. Nýjustu seiðamælingar ýta undir vonir um að fiskstofnar styrkist þegar fram í sækir og viðræður standa yfir um verulega aukningu á nýtingu auðlinda til stóriðju. Á undanförnum áratug og árum hefur verið lögð áhersla á mikilvægi þekkingar og rannsókna og framlög mjög verið aukin til slíkra þátta. Þetta er nú að skila sér í fjölda nýrra fyrirtækja sem fyrst og fremst byggja starfsemi sína á rannsóknum og þróun og nýtingu nýrrar tækni. Hér má benda á starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar sem miklar vonir eru bundnar við. Skipulagsbreytingar í hagkerfinu hafa örvað starfsemi í nýjum greinum og þeim verður haldið áfram. Þannig er nú verið að undirbúa næsta áfanga einkavæðingaráforma ríkisstjórnarinnar. Ekki eru þó efni til þess hér að nefna einstakar tímasetningar en Landssíminn, bankar og Íslenskir aðalverktakar eru þar ofarlega á blaði. Allt eru þetta umfangsmikil verkefni og þarf því ekki að undra að nokkurn tíma taki að undirbúa þau.

Auðlindanefnd, sem svo er kölluð, skilaði mér álitsgerð sinni fyrir fáeinum dögum. Nefndin skilar sameiginlegu áliti um þetta mikilvæga og snúna viðfangsefni sitt og er það eitt töluverð tíðindi. Hljótum við öll að binda við það vonir að þar með sé stigið fyrsta skref í átt að sæmilegri sátt meðal þjóðarinnar um meginefni fiskveiðistjórnarkerfisins, þótt rétt sé að viðurkenna að margt er enn óunnið. Ég tel fyrir mitt leyti að skýrsla auðlindanefndar færi alla nær sáttargjörð í málinu.

Herra forseti. Það er einkenni stuttrar stefnuræðu að hverju sinni er aðeins tóm til að nefna örfáa þætti úr stefnumálum ríkisstjórnarinnar. Upptalning á hinum fjölmörgu málefnum hefur lítið gildi. Áherslur ríkisstjórnarinnar á þeim sviðum munu koma fram við fjárlagaumræðuna og þegar þingmál ráðherranna munu berast þinginu á næstu vikum.

Ég lýk máli mínu með því að óska eftir góðu samstarfi við forustu þingsins og stjórnarandstöðuna um framgang mála og árna íslenskri þjóð allra heilla í bráð og lengd.