Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 03. október 2000, kl. 20:14:16 (11)

2000-10-03 20:14:16# 126. lþ. 2.1 fundur 9#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 126. lþ.

[20:14]

Össur Skarphéðinsson:

Góðir Íslendingar. Það er rétt hjá forsrh. að ein athyglisverðustu tíðindi sem lengi hafa rekið á pólitískar fjörur landsmanna eru niðurstaða auðlindanefndar. Sætir pólitískum tíðindum að niðurstaða nefndarinnar var sameiginleg og allir skrifuðu undir hana. Fyrir okkur jafnaðarmenn voru niðurstöðurnar ánægjuefni því að í öllum meginatriðum var þar tekið undir þau viðhorf sem við höfum barist fyrir árum saman.

Í fyrsta lagi er lagt til í niðurstöðum nefndarinnar að sameiginlegar auðlindir, þar á meðal fiskstofnarnir, verði skilgreindar sem þjóðareign. Það er meira að segja lagt til að tekið verði upp sérstakt ákvæði í stjórnarskránni þar sem því er lýst.

[20:15]

Í öðru lagi er lagt til að þeir sem fá tímabundinn afnotarétt af auðlindunum greiði fyrir það sérstakt gjald og þar með virðist í höfn þetta gamla baráttumál okkar íslenskra jafnaðarmanna um veiðileyfagjald sem löngum átti þó erfitt uppdráttar, ekki síst í þessum sal. Það skiptir hins vegar ákaflega miklu máli fyrir alla, fyrir alla þjóðina hvert framhaldið á þessu máli verður.

Við Íslendingar höfum alltaf verið á móti forréttindum og einhvern veginn hefur það verið í eðli okkar að við viljum jafnræði á sem flestum sviðum. Ég tel að til þess að ná jafnræði í sjávarútvegi verði það best tryggt með því að nota svipaðar aðferðir og auðlindanefndin hefur mælt með varðandi útdeilingu á öðrum auðlindum náttúrunnar, þ.e. að kvótinn verði smám saman allur settur til leigu á markaði. Ég tel að það sé sanngjarnasta og réttlátasta leiðin. Með því má segja að við sláum þrjár flugur í einu höggi: Kvótanum er öllum deilt út tímabundið til leigu meðal þjóðarinnar, þjóðin fær þar með leigugjald fyrir eignina sem hún á og jafnræði er tryggt vegna þess að allir hafa sömu möguleika til að verða sér úti um aflaheimildir. Þetta tel ég ákaflega mikilvægt vegna þess að það hleypir nýju blóði inn í greinina.

Merkur maður lýsti því í stefnuræðu úr þessum stóli árið 1996 hversu mikilvægt það væri að ná tökum á viðskiptajöfnuði til þess, eins og hann sagði, með leyfi forseta, ,,að erlendar skuldir okkar geti haldið áfram að lækka og að vaxtagreiðslur til erlendra aðila minnki ár frá ári.``

Þegar þessum áhyggjum var lýst var viðskiptahallinn einungis 8 milljarðar kr. Í dag er hann næstum sjöfalt meiri eða 54 milljarðar og Þjóðhagsstofnun segir að á næsta ári hækki hann að öllum líkindum í 57 milljarða. Þó að ríkisstjórnin, sem þessi merkismaður veitir enn þá forustu, virðist ekki hafa giska miklar áhyggjur af viðskiptahallanum eins og fram kom í ræðunni áðan hjá forsrh. vill svo til að það eru aðrir sem hafa meiri áhyggjur, og meðal þeirra er t.d. sú stofnun sem hefur það hlutverk að veita hæstv. ríkisstjórn ráðgjöf í efnahagsmálum. Það vill svo til að í gær var dreift áætlun frá henni á borð okkar alþingismanna, og hvað sagði í þessari þjóðhagsáætlun um einmitt viðskiptahallann? Þar sagði, með leyfi forseta:

,,Áframhaldandi hár viðskiptahalli mundi því leiða til tiltölulega hratt versnandi erlendrar stöðu.``

Og síðan bætir stofnunin í og segir:

,,Sífelld aukning skulda fæst ekki staðist. Mikill og langvarandi viðskiptahalli þjóða hefur því stundum verið undanfari skarprar gengislækkunar.``

Hvað er Þjóðhagsstofnun að segja? Hún er að segja að tímasprengjan tifar enn þá og að nauðsynlegt sé að aftengja þá tímasprengju til þess að hún valdi ekki usla. Hún er að segja að það sé forgangsverkefni við efnahagsstjórnina. Og hún er að segja eins og Samfylkingin benti á fyrir missirum að mikill og vaxandi viðskiptahalli er hættulegur íslensku krónunni.

Voru varnaðarorð Samfylkingarinnar kannski út í loftið í fyrra? Hvað gerðist í sumar? Viðskiptahallinn veikti krónuna nægilega til þess að spákaupmenn veittust að henni ekki einu sinni heldur tvívegis og Seðlabankinn þurfti að verja næstum því 10 milljörðum kr. til þess að verja hana þeim atlögum. Það tókst samt ekki betur en svo að í dag er gengi krónunnar u.þ.b. 6% lægra en í maí. Og svo kemur forsrh. í þennan stól og segir að gengi krónunnar sé traust.

Staðreyndin er auðvitað sú að ríkisstjórninni urðu á mistök í aðdraganda síðustu kosninga. Vegna þeirra mistaka eru vextir í dag miklu hærri en þeir hefðu ella orðið. Vegna þeirra mistaka reið húsbréfakreppan yfir á sl. sumri og vegna þeirra mistaka varð verðbólgan miklu hærri, náði upp í 6%, en nokkurn óraði fyrir og stjórnarandstaðan spáði nokkru sinni. Viðskiptahallinn sem stjórnvöld þrástagast á að sé að minnka er alltaf að aukast og samt eru þeir búnir að finna upp nýjar aðferðir til að reikna hann út.

Ég óska hæstv. forsrh. til hamingju með þann mikla afgang sem er á ríkissjóði. Það er að sjálfsögðu ákaflega jákvætt. En það er hins vegar miklu verra að þessi mikli afgangur stafar fyrst og fremst af viðskiptahallanum og síðan földum skattahækkunum sem bitna harðast á þeim sem hafa lágar tekjur.

Allir vita að viðskiptahallanum fylgir mikil skuldasöfnun erlendis og árið sem núv. ríkisstjórn tók við voru hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins rúm 50% af landsframleiðslu. Merkur maður lýsti því þá yfir úr þessum stóli að hann stefndi í að þær lækkuðu í 34% af landsframleiðslu í lok ársins 2000. Hæstv. forsrh., hverjar eru þær í dag?

Á þessi ári segir Þjóðhagsstofnun, sem gefur ríkisstjórninni ráð í efnahagsmálum, að hrein erlend staða þjóðarbúsins verði neikvæð um 55% og í lok næsta árs verði hún að öllum líkindum öllu meiri. Þannig fór það nú, þannig fór sú spá.

Góðir Íslendingar. Það er skylda allra stjórnmálamanna að vara við hættunum sem eru fram undan. Í dag er ekki síður aðkallandi að ná tökum á viðskiptahallanum en forsrh. fannst árið 1996 þegar hann var sjöfalt minni. Lögmál hagfræðinnar hafa ekki breyst neitt síðan þá.

Góðir landsmenn. Í góðærinu sem stjórnvöld lýsa sem hinu mesta í sögu þjóðarinnar er það sannkölluð þjóðarskömm að á meðal okkar er stór hópur, allt of stór, sem býr við kjör sem duga varla fyrir nauðþurftum eða brýnustu framfærslu. Við sáum hluta þessa hóps fyrir utan Alþingishúsið í gær, aldraða og öryrkja sem eru sannarlega búnir að fá sig fullsadda af þessu góðæri ríkisstjórnarinnar. Það er góðæri sem þetta fólk finnur ekki. Öflugt markaðskerfi, eins og við styðjum flest í þessum sal, kallar nefnilega á styrkar stoðir velferðarkerfisins, ella eykst misskiptingin í samfélaginu. Bilið milli þeirra sem hafa nóg að bíta og brenna eins og flest okkar í þessum sal og hinna heldur áfram að gliðna og það er því miður það sem er að gerast í samfélaginu í dag, og það er það sem við í Samfylkingunni viljum berjast gegn. Það á enginn að þurfa að una fátækt og óvissu um framtíð sína.

Herra forseti. Á þeim tíu árum sem Sjálfstfl. fór með forustu í byggðamálum hafa 12 þúsund manns flust af landsbyggðinni hingað suður. Það jafngildir sex fjögurra manna fjölskyldum í hverri einustu viku í tíu ár. Hvað endurspeglar fullkomið skipbrot byggðastefnu þessarar ríkisstjórnar betur en þessar tölur?

Ég er hræddur um að við þurfum nýja sýn á byggðamálin og sú sýn kemur ekki í gegnum Byggðastofnun og þau vinnubrögð sem þar hafa verið ástunduð og eru best til þess fallin að koma óorði á byggðastefnuna í landinu.

Í hverju felst hin nýja sýn? Í hverju felast draumar unga fólksins? Þeir felast ekki í fiski og ekki í kvóta. Þeir felast í tækifærunum sem liggja í nýja hagkerfinu, upplýsingatækninni, fjarskiptunum, netinu. Byggðastefna sem á að vera annað en orðin tóm verður að taka mið af því. Byggðastefna Samfylkingarinnar tekur mið af því. Við viljum t.d. beita tímabundnum skattaívilnunum til þess að örva einkafyrirtæki til að flytja störf á hátæknisviði út á landsbyggðina og við bendum á sérlega góða reynslu þeirra fyrirtækja sem það hafa gert hingað til. Við viljum nota netið til þess að efla fjarkennslu og gera sem flestum kleift að stunda sitt framhaldsnám í heimahéraði þannig að þegar ungarnir eru loksins orðnir fleygir og skríða úr hreiðrinu þurfi foreldrarnir ekki að fljúga með þeim burt úr heimabyggðinni. Þetta tel ég að skipti miklu máli og það skiptir miklu máli að þeirri stefnu sem hæstv. menntmrh. hefur komið á varðandi fjarnám á landsbyggðinni, sem eru sérstök skólagjöld á landsbyggðina, verði hrundið. Og það mun stjórnarandstaðan sameiginlega gera.

Landsbyggðin verður hins vegar sjálkrafa dæmd úr leik ef hún getur ekki notað sér möguleika netsins og fjarskiptanna á svipuðu verði og þéttbýlið getur. Ljósleiðarinn á þess vegna að vera eins og vegakerfið, hann á að vera sameign þjóðarinnar, það eiga allir að geta notað hann án tillits til búsetu. Og þess vegna er það forsenda framsýnnar byggðastefnu að ljósleiðarinn verði ekki einkavæddur fremur en vegakerfið og hafnirnar.

Góðir Íslendingar. Ef við ætlum að spjara okkur í framtíðinni í samkeppni við aðrar þjóðir, ef við ætlum að skara fram úr þá þurfum við að byggja menntakerfi sem er ekki bara jafngott og menntakerfi annarra þjóða heldur betra. En hver er staða íslenska menntakerfisins í dag í samanburði við aðrar þjóðir? Eru framlög til íslenskra menntamála svipuð og í nágrannalöndunum? Nei. Eru launakjör kennara svipuð og í nágrannalöndunum? Nei. Leggjum við sömu áherslur á rannsóknir og þróun og nágrannalöndin? Nei. Stöndum við öðrum þjóðum langt að baki varðandi háskólamenntun? Já.

Auðlind framtíðarinnar er ekki fiskur heldur maðurinn sjálfur. Og það er ekki nóg að fjárfesta í sjávarútvegi, við þurfum að fjárfesta í mannauðnum. Endurbætur á menntakerfinu verður því forgangsverkefni Samfylkingarinnar þegar hún gengur til þátttöku í ríkisstjórn.

Góðir landsmenn. Með réttum aðgerðum á sviði skattamála, menntunar og fjarskipta er hægt að gjörbreyta áherslum í atvinnulífinu og skipa Íslandi í fremstu röð í hinu nýja hagkerfi framtíðarinnar. Á því veltur framtíð okkar sem þjóðar í samkeppni við aðrar þjóðir en til þess að það sé hægt þarf markvissa stefnu. Þá stefnu er ekki að finna hjá þessari ríkisstjórn en þá stefnu mun Samfylkingin kynna fyrir ykkur í störfum sínum hér í vetur. --- Góðar stundir.