Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 03. október 2000, kl. 21:02:35 (15)

2000-10-03 21:02:35# 126. lþ. 2.1 fundur 9#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, KF
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 126. lþ.

[21:02]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Góðir landsmenn. Við setningu Alþingis ár hvert er reynt að rýna fram á veginn, spá fyrir um verkefni komandi starfsárs og veita almenningi í landinu innsýn í það hvernig stjórnvöldum gengur að uppfylla stefnumið í stjórnarsáttmálanum.

Þegar Sjálfstfl. settist í ríkisstjórn 1991 var ástand í þjóðfélaginu annað, atvinnuleysi, óstöðugleiki og skuldir. En á þeim tæpa áratug sem síðan er liðinn hefur margt breyst. Samanlagður afgangur á ríkissjóði árin 1999, 2000, 2001 verður um 80 milljarðar. Hreinar skuldir ríkisins hafa á nokkrum árum lækkað úr 60% í 14% af landsframleiðslu og vonast er til að ríkissjóður verði nærri skuldlaus í lok kjörtímabilsins.

Þjóðin hefur risið úr þunglyndi og bölsýni þar sem lítt var horft til framtíðar og við aldamót gerst bjartsýn, tilbúin að mæta framtíð þar sem samskipti við önnur lönd setja í vaxandi mæli mark sitt. Við höfum sjálf margt fram að færa, getum búið í fyrirmyndarþjóðfélagi og höfum nú þegar umfram aðra ferskt loft, ferskt vatn, jarðhita, stórbrotna náttúru og ósnortin víðerni sem aðrir kunna að meta.

Fyrirhuguð stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er fagnaðarefni og skref í átt að því að hægt verði að skila landinu til afkomenda okkar í samræmi við stefnu um sjálfbæra þróun. Svo þurfum við að huga að nýjum leiðum til að framleiða orku svo sem að beisla vind, sólskin eða sjávarföll.

Alþjóðavæðing og almenningsálit í öðrum löndum hafa nú áhrif hér á landi sem aldrei fyrr og eru tilskipanir Evrópusambandsins, sem Íslendingar hafa skuldbundið sig samkvæmt EES-samkomulaginu til að taka upp, gott dæmi um það. Er skemmst að minnast umræðna um mat á umhverfisáhrifum frá síðasta þingi en lög um mat á umhverfisáhrifum, bæði þau fyrstu frá 1993 og nýju lögin frá sl. vori, byggjast einmitt á slíkum tilskipunum. Það er komið að því að við Íslendingar hegðum okkur á heimsins hátt.

Markaðshyggja breiðist út óðfluga í veröldinni. Andóf í öðrum löndum gegn alheimsmarkaðsvæðingunni setur mark sitt á umræðuna. Skemmst er að minnast mótmælaaðgerða í Seattle á síðasta ári og í liðinni viku í Prag þar sem vakin var athygli á fátækt og hungursneyð þjóða þriðja heimsins og þær settar í samhengi við skuldir þeirra.

Það gleymist gjarnan að í lýðræðisþjóðfélagi eins og okkar eru stjórnvöld, hið svokallaða opinbera, kosin af almenningi og stofnanir undir opinberri stjórn geta gengið prýðisvel. Stöðugleiki til langs tíma getur einkennt starfsemi sem ríkið ber ábyrgð á. Og á tímum þegar hlutabréf ganga kaupum og sölum getur dregið verulega úr starfsöryggi fólks. Einkafyrirtæki nútímans eru ýmist seld, sameinuð eða stokkuð upp en ekki er öllum starfsmönnum sama fyrir hvern er unnið. Hófleg einkavæðing og agaður ríkisrekstur þurfa að einkenna velferðarþjóðfélag okkar og í þá átt stefnir óðfluga.

Tímabært er þó að einkavæða fleiri þætti í þjóðlífinu t.d. í heilbrigðisþjónustunni og vil ég nefna heilsugæslu og rekstur hjúkrunarheimila sérstaklega. Umræða um heilbrigðisþjónustu í þjóðfélagi okkar hefur gjarnan verið helst til neikvæð. Sem dæmi má nefna að það eina sem heyrist í fjölmiðlum um rekstur sjúkrahúsa er árviss fjárlagahalli þeirra og svokölluð ofeyðsla. Það gleymist gjarnan að í heilbrigðisþjónustu okkar er unnið merkilegt starf bæði á sjúkrahúsum og í heilsugæslu sem hefur haft gríðarleg áhrif á heilbrigði landsmanna og átt þátt í að koma okkur í fremstu röð í heiminum.

Sameining stóru sjúkrahúsanna í Landspítala -- háskólasjúkrahús gefur fyrirheit um að alvöruakademía rísi í vísindum hér á landi en slíkri akademíu þarf að veita svigrúm til að hafa faglegt frumkvæði og geta axlað ábyrgð á verkum sínum, t.d. í samstarfi og samningum við einkaaðila.

Herra forseti. Á nýrri öld þarf að velta fyrir sér hvað sé mikilvægast að hafa með í nesti fram á veginn. Ég er ekki í nokkrum vafa um að í velferðarþjóðfélagi sé góð heilbrigðisþjónusta og öflug menntun öllum til handa mest virði. En byggja þarf á frelsi einstaklingsins, efnahagslegum stöðugleika og stétt með stétt. Þetta hafa verið baráttumál Sjálfstfl. Til viðbótar má nefna að til þess að íslensk þjóð geti staðist samkeppni við önnur lönd þarf öfluga höfuðborg. Það styrkir innviði alls þjóðfélagsins og er mikilvægt fyrir byggðir landsins að Reykjavík hafi upp á sem mest að bjóða því að aðeins þannig getum við haldið í ungt fólk sem nú á fjöldann allan af tækifærum til náms og starfs annars staðar í heiminum.

Enn er þó verk að vinna og rétt að minnast á uppvöxt og aðbúnað barna sérstaklega, en ríkisstjórnin er með fjárlagafrv. næsta árs að styðja myndarlega við bakið á ungum fjölskyldum með því að auka barnabætur og fæðingarorlof. Það er viðkvæmur tími í ævi flestra þegar börnin eru að vaxa úr grasi og því mikilvægt að stjórnvöld skapi ungu fólki sem bestan ramma.

Annar viðkvæmur tími eru efri árin og er mikilvægt að aldraðir geti orðið sáttir við sinn hlut í íslensku þjóðfélagi. Hið sama gildir um öryrkja.

Ég vil að lokum hvetja ykkur, áheyrendur góðir, til að hafa náið samstarf við okkur alþingismenn sem störfum hér í ykkar umboði. --- Góðar stundir.