Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 03. október 2000, kl. 21:15:14 (17)

2000-10-03 21:15:14# 126. lþ. 2.1 fundur 9#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 126. lþ.

[21:15]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ágætu áheyrendur. Á fallegum sólskinsdegi í sumar átti ég leið í Alþingishúsið til þess að sýna heiðurshjónum húsið og segja þeim nokkuð af stjórnmálum landsins. Þetta voru roskin hjón frá Suður-Englandi og þegar við vorum komin alllangt í ferð okkar um húsið þá stönsuðu þau og konan segir við mig: ,,Við höfum komið fimm sinnum til Íslands og við höfum tekið eftir þeim miklu framförum sem hafa orðið hér á Íslandi. Þið eruð lítil þjóð sem búið í harðbýlu landi. Segðu mér, hvernig stendur á því, geturðu gefið mér einfalda skýringu á því hvers vegna ykkur Íslendingum gengur svona vel?``

Ég verð að viðurkenna að mér vafðist tunga um tönn og fann enga einhlíta skýringu á velgengni Íslendinga sem hún svo kallaði. Reyndar var þetta líka svolítið óheppilegt, við vorum stödd í þingflokksherbergi vinstri grænna en þar hefur bjartsýnin ekki alltaf verið hæst í orðum manna. En hvort sem þeir sem heyra mál mitt hér geta fremur en ég svarað því hvers vegna okkur Íslendingum hefur gengið vel þá hljótum við framsóknarmenn sem ábyrgir aðilar í ríkisstjórn að spyrja sjálfa okkur: Hvernig hefur verið árangur af störfum okkar?

Árangur okkar hljótum við að mæla miðað við þau markmið og þær væntingar sem við gáfum kjósendum og miðað við þann árangur sem við getum sætt okkur við sjálf.

Markmið okkar framsóknarmanna hafa fyrst og fremst verið þrjú. Það fyrsta er að eyða atvinnuleysi, skapa atvinnuöryggi og fjölbreytta vinnu meðal allra landsmanna. Annað markmið okkar er að styrkja velferðarkerfið, auka félagslegan jöfnuð og réttlæti. Og þriðja markmið okkar er að styrkja grunn atvinnulífsins, skapa fyrirtækjunum lífvænlegar og heilbrigðar aðstæður til reksturs. Lítum þá á árangur okkar á þessum þremur meginsviðum.

Atvinnuleysi og óvissa um atvinnuhorfur voru vágestir sem stóðu við dyr margra íslenskra heimila. Þessum vágesti hefur verið bægt frá dyrunum og nú er svo komið að víðast er úr nægum störfum að velja og reyndar er skortur á vinnandi höndum sums staðar kallaður mesti vandi fyrirtækja og stofnana.

Lítum þá til þróunar atvinnulífsins og reksturs fyrirtækjanna á þeim rúmum fimm árum sem Framsfl. hefur setið í ríkisstjórn. Vöxtur og uppgangur atvinnulífsins hefur aldrei verið meiri. Jafnhliða þessum vexti hafa komið heilbrigðari lífshættir og rekstrarhættir hjá fyrirtækjunum og það vill svo til að það má einmitt m.a. þakka lagasetningum sem hafa komið fram undir forsvari Framsfl. og ráðherra hans.

Þegar við horfum til þriðja þáttarins, eflingar velferðarkerfisins og aukins félagslegs jöfnuðar, verður því ekki á móti mælt að framlög til velferðarmála á öllum sviðum hafa aukist undir stjórn framsóknarmanna. Hver sem vill kynna sér þetta af sanngirni getur af eigin raun sannfærst um þetta. Við höfum hins vegar verið sökuð um niðurskurð.

Þetta er einfaldlega rangt. Við viðurkennum að á sumum sviðum hefðum við viljað ganga lengra en fjármunir okkar eru takmarkaðir og þess vegna viljum við fyrst og fremst bæta hag þeirra sem verst eru settir.

En Framsfl. hefur ekki aðeins haft kjark til þess að axla ábyrgð í velferðarmálum, félagsmálum og heilbrigðismálum heldur einnig í byggðamálum. Landsbyggðina þarf að efla þannig að þar sé atvinnulíf arðbært og fólk sækist eftir að búa þar. Framsfl. vinnur ötullega að þessu.

Hin hlið byggðamálanna snýr að Reykjavík og nágrannabyggðum Reykjavíkur. Hin gífurlega fólksfjölgun hér kallar á brýnar aðgerðir í byggðamálum á höfuðborgarsvæðinu, aðgerðir sem m.a. felast í vegamálum, húsnæðismálum, löggæslu, fíkniefnamálum og margvíslegum stuðningi við aldraða, sjúka, fatlaða og fátæka. Í Reykjavík er líka að finna fólk, þar á meðal einstæða foreldra, sem hafa svokallaðar lægri millitekjur. Þetta fólk hefur svo sem flest það sem þarf til hnífs og skeiðar og brýnustu nauðsynjar en það getur sig varla hreyft vegna hinna lágu launa. Lausn slíkra verkefna, sem ég hef hér nefnt, í Reykjavík eins og annars staðar á landinu bíður okkar.

Ekki verður svo skilið við þessa umræðu að ekki séu nefndir tveir málaflokkar sem skipta miklu máli en það eru menntamálin og umhverfismálin. Það er ekki ofsagt að menntun sé fjöregg þjóðarinnar. Á næstu árum krefjast menntamálin enn aukins fjármagns og framfara þó að vel hafi verið gert að undanförnu. Við þurfum að auka rannsóknir og efla háskólastarf, ekki síst þarf Háskóli Íslands á stuðningi okkar að halda. Gæta þarf að kjörum stúdenta og vitnar stuðningur okkar við Lánasjóð ísl. námsmanna um það. Nú hafa framlög til stúdenta í lánasjóðinn verið aukin um 200 millj. vegna aukins framfærslukostnaðar stúdenta.

En eitt brýnasta úrlausnarverkefnið í menntamálum er að tryggja að góðir kennarar fáist til skólanna á hvaða stigi sem þeir eru og að góðar starfsaðstæður kennara séu tryggðar. Án góðra og áhugasamra kennara verða skólar okkar heldur ekki góðir. Foreldrar mega heldur ekki sýna skólunum og menntun ungmennanna tómlæti hvað þá lítilsvirðingu. Þvert á móti verðum við að virða skólastarfið og um leið gera miklar kröfur til árangurs þess.

Umhverfismálin hafa verið í höndum framsóknarmanna á undanförnum árum og hefur þar gustað. Hefur það þá byrgt mönnum sýn að Framsfl. hefur staðið fyrir mestum framförum í lagasetningu á þessu ári ásamt samstarfsflokki sínum, Sjálfstfl. Núna er verið að vinna að stærsta þjóðgarði í Evrópu, Vatnajökli, ásamt væntanlega nágrannasvæðum ef fram fer sem horfir. Ég vil sérstaklega minnast á hinar ánægjulegu fréttir um að nú eigi að hreinsa upp olíuna úr El Grillo. Þessar fréttir bárust okkur í dag og ég tel að ekkert vitni skýrar um metnað framsóknarmanna og ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.