Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 03. október 2000, kl. 21:22:20 (18)

2000-10-03 21:22:20# 126. lþ. 2.1 fundur 9#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 126. lþ.

[21:22]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Góðir landsmenn. Hæstv. forsrh. hefur í stefnuræðu sinni gert í stuttu máli grein fyrir þeim þáttum sem ríkisstjórnin mun leggja áherslu á í vetur. Eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. forsrh. mætti halda að ekki þyrfti að kvíða miklum átökum innan þingsins því að hér á landi blómstraði bæði atvinnulíf og mannlíf undir styrkri ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.

En þar sem hagur þjóðarinnar verður ekki eingöngu mældur í batnandi stöðu ríkissjóðs heldur einnig í styrk samfélagsþjónustunnar, jafnvægi í byggðum landsins, kjarajöfnuði og aðgerðum gegn fátækt í landinu þá er ljóst að tekist verður á um mörg pólitísk grundvallaratriði á komandi vetri.

Það helsta sem finna má að í dag að mati hæstv. forsrh. er að við eyðum um efni fram. Viðskiptahallinn er of mikill og undir það geta víst flestir tekið. En nú er það þjóðin sjálf sem hefur eytt um efni fram. Efnahagsbatinn hefur því skilað sér í stórauknum fjármálaumsvifum og spákaupmennsku, fjárfestingum á höfuðborgarsvæðinu, aukinni einkaneyslu og skuldasöfnun heimilanna en ekki í almennum sparnaði. Og það eru lög frá hv. Alþingi sem hafa stuðlað að þessari þróun.

Herra forseti. Það ber vissulega að þakka gott aðhald og styrka efnahagsstjórn. En fyrir það markmið að skila 26 milljarða kr. tekjuafgangi ríkissjóðs á þessu ári og 30 á því næsta munu mjög margir hópar þjóðfélagsins líða sárlega. Þetta eru aldraðir, öryrkjar, sjúklingar, fátæklingar og enn fleiri sem vegna óeðlilegs aðhalds í ríkisrekstri munu búa áfram við bág kjör og lífsgæði. Það er áfellisdómur fyrir ríkisstjórnina að í öllu góðærinu hafi þótt ástæða til að stofna samtök gegn fátækt.

Lífskjör einstæðra foreldra, bótaþega almannatrygginga og fólks í láglaunastörfum verður að bæta og til þess hefði þurft að ráðstafa hluta af tekjuafgangi ríkissjóðs.

Herra forseti. Heilbrigðisþjónustan á landsbyggðinni er víðast í spennitreyju. Fjármagn vantar til eðlilegs viðhalds og tækjakaupa, mönnunar og sérfræðiþjónustu. Hver stofnun um sig sparar í hvívetna til að vera innan fjárlaga en í raun getur það verið þjóðfélaginu dýrara en þegar hver stofnun nýtir pláss og mannafla til fullnustu. Það sama má segja um margar opinberar stofnanir, þær búa yfir þekkingu og vilja til að sinna margháttuðum og brýnum verkefnum en skortir fé til að koma þeim í framkvæmd.

Herra forseti. Hæstv. forsrh. benti á stórauknar eignir Íslendinga í erlendum hlutabréfum. Afraksturinn skilar sér líklega að einhverju leyti aftur inn í íslenskt efnahagslíf en því má ekki gleyma að þessir fjármunir hefðu skilað okkur meiru ef þeir hefðu haldist innan við landsteinana og styrkt íslenskt atvinnulíf. Það eru háar upphæðir sem hefur verið ráðstafað erlendis og það er ekki sparnaður launamanna heldur söluhagnaður af hlutabréfum, fjárfestingar lífeyrissjóðanna og hagnaður af kvótasölu svo eitthvað sé nefnt.

Hér á hv. Alþingi setjum við leikreglurnar, smíðum rammann um flest það sem máli skiptir í þjóðlífi okkar. Hver lagasetningin á fætur annarri miðar að því að draga úr ríkisumsvifum, til að auka neyslu eða efla markaðinn. Einkavæðing, hagræðing, máttur markaðarins eru lausnarorð þessarar ríkisstjórnar og samfélagsþjónustan fer ekki varhluta af þessum gjörningi.

Herra forseti. Missum við ekki sjónir á heildarhagsmuni þjóðarinnar þegar hver eining á að skila sem mestum hagnaði án tillits til þess hvað það kostar fyrir aðra? Sjávarútvegsfyrirtæki, bændabýli, verslanir og þjónustufyrirtæki eru að stækka á kostnað hinna smáu. En það eru einmitt hinir smáu sem eru örlagavaldarnir þegar kemur að þróun byggðar. Þeir verða að vera til staðar til að eðlileg byggðaþróun geti átt sér stað. Mikil íbúafækkun setur svip á margar byggðir og starfsemi sveitarfélaganna því hvernig eiga smábátaeigendur að keppa við hina stóru um kaup á kvóta, smábændur að lifa á jörðum sínum, fólk í fiskvinnslu að finna vinnu þegar kvótinn hefur verið seldur burt af staðnum og lifa samt sem áður í sinni heimabyggð?

Í kjölfar fólksfækkunar er stöðugt dregið úr margháttaðri grunnþjónustu sem gerir það eitt að rýra lífsgæði þeirra sem eftir búa. Sveitarfélögin verða að fá aukið fé til að standa undir lögboðnum verkefnum og þeirri uppbyggingu sem þau telja að muni skila auðugra samfélagi til lengri tíma.

Herra forseti. Það má ekki dragast lengur og ætti að vera eitt af helstu verkefnum þessa þings að móta heildstæða stefnu í byggðamálum. Vænlegasta leiðin til þess að stöðva þjóðflutningana er að styrkja innviði hvers sveitarfélags eða svæðis og koma í verk einhverjum af þeim ótal verkefnum sem bíða úrlausnar úti um allt land á vegum ríkis, sveitarfélaga og stofnana sem þegar eru starfandi á landsbyggðinni. Til þess þarf að auka tekjur sveitarfélaganna, breyta áherslum og vinna að uppbyggingu í anda sjálfbærrar þróunar. --- Góðar stundir.