Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 03. október 2000, kl. 21:28:27 (19)

2000-10-03 21:28:27# 126. lþ. 2.1 fundur 9#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, GAK
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 126. lþ.

[21:28]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Í nýrri skýrslu auðlindanefndar eru tillögur um samræmda stefnu og stjórn á nýtingu náttúruauðlinda og að einstaklingar og lögaðilar fái heimild til afnota þeirra, tímabundið, gegn gjaldi. Með hæfilegum fyrirvara megi breyta afnotarétti. Í stjórnarskrá Íslands verði sett ný ákvæði um þjóðareign.

Við þessar tillögur nefndarmanna er það að athuga að tryggja þarf að einstaklingar og lögaðilar sem nýta vilja auðlindirnar, séu jafnt settir að úthlutun eða aðgengi í upphafi og jafnan síðar eftir að meginreglan er sett í stjórnarskrá.

Ákvæðin um fiskstofna eru ekki ný. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar og úthlutun veiðiheimilda myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Það eina nýja er að gjaldtaka fyrir aðgang til ríkis og sveitarfélaga yrði sett í stjórnarskrá Íslands.

Herra forseti. Gjafakvótinn, aflamarkið, gerði útgerðarmenn nýríka. Aðgangur að nýtingar- og veiðirétti varð erfðagóss þeirra sem fæðast með gullskeið kvótagróðans í munni. Leiguliðunum, sjómönnum til áratuga, er innkoma í útgerð lokuð nema þeir greiði kvótaleigu. Vilji ungir menn hefja útgerð reka þeir sig hastarlega á lokaða atvinnugrein. Aðeins er fjárhagslega mögulegt að komast inn í krókakerfið, fiskveiðikerfi smábáta. Sá möguleiki er opinn eingöngu vegna þess að hingað til hefur aðeins þurft að borga smágreifunum fyrir þorskinn, aðrar fisktegundir hafa verið mönnum frjálsar í krókaveiðum smábátaflotans.

[21:30]

Hvað segir skýrslan um þessa leið fyrir nýliða í útgerðarrekstri? Jú, henni skal lokað. Í auðlindaskýrslunni segir, með leyfi forseta: ,,Það er því lagt til að allir krókabátar verði settir á aflamarkskerfi og að aflahlutdeildir verði framseljanlegar innan þess, en framsal milli kerfanna verði óheimilt.``

Sem sagt, meira kvótabrask.

Enn skal vegið að sjávarbyggðum og því fólki sem þar vill búa. Einn alvarlegasti galli skýrslunnar er hrópandi þögn um afleiðingar kvótabraskskerfisins með hinu svokallaða frjálsa framsali á byggðir landsins og undirstöðu tilvistar þeirra.

Í sérkafla eftir Svein Agnarsson er vikið að þessum þætti en ávallt gert lítið úr áhrifum kvótabrasksins á búsetuskilyrði fólks. Skýrsluna kallaði forustumaður ríkisstjórnarinnar ,,stórviðburð í íslenskri samtímasögu``.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra, Árni M. Mathiesen, segir að hér sé um að ræða ágætan grunn til að byggja á frekari sátt í sjávarútvegsmálum. Hefur verið einhver sátt um kvótabraskið eða er það LÍÚ-sáttin sem kynnt var á föstudaginn sem er nú vitnað til?

Í Dagblaðinu fyrir viku var haft eftir ráðherranum að kvótinn væri ekki orsök byggðaröskunar og spilaði þar ekki stóra rullu. Orðrétt sagði ráðherra, með leyfi forseta: ,,Fólk velur sjálft hvar það býr og krafan sem hægt er að gera til stjórnvalda er fyrst og fremst sú að þau geri ekkert sem ýti undir búseturöskun.``

Þetta eru makalaus orð um byggðaröskun og að kvótabraskið og frjálsa framsalið frá 1990 spili ekki stóra rullu í leikþætti fólksflóttans af landsbyggðinni. Þetta er í rauninni ábyrgðarlaust fleipur. Á síðustu árum hefur togurum og stærri bátum á norðanverðum Vestfjörðum fækkað úr 16 í fimm og kvótinn minnkað úr 39.000 þorskígildistonnum í rúmlega 12.000 þorskígildistonn. Þá er ótalinn kvóti tveggja togara frá Tálknafirði og Bíldudal sem voru áður seldir.

Telur hæstv. sjávarútvegsráðherra að brotthvarf meira en 30.000 þorskígildistonna frá Vestfjörðum ásamt skipunum í stóra kvótabraskskerfinu, aflamarkinu, hafi ekki haft nein veruleg áhrif á atvinnumöguleika fólks?

Tekjur fólks og sveitarfélaga eru stórskertar af þessum sökum og flestar félagslegar íbúðir tómar, sem var þó full þörf fyrir þegar þær voru byggðar. Með kvótabraskinu hefur ríkisstjórnin valdið byggðaröskun. Svo talar hæstv. forsætisráðherra um að sveitarstjórnarmenn séu á fjárfestingafylleríi og kunni ekki fótum sínum forráð. Mér er nær að halda að það séu einhverjir aðrir sem búi við eftirköst sólríks sumars og skilji ekki vandann.

Herra forseti. Fólk sem neyðst hefur til brottflutnings velur sér búsetu annars staðar vegna þess að tekjumöguleikar þess í kvótalitlum sjávarbyggðum eru litlir. Kvótinn fór og fólkið á eftir og nú skal búa til verslunarkvóta í öllum fisktegundum, á krókabátana líka. Þá hefst tími kvótabrasks hjá smágreifunum í krókakerfinu. Byggðin mun ekki lifa af nýja holskeflu kvótabrasksins.

Er þetta kallað að við rekum markvissa byggðastefnu? Væri ekki rétt að ráðherrar stjórnarflokkanna segðu satt um að hér sé framfylgt eyðibyggðastefnu? En nýrrar byggðastefnu er nú leitað víða um lönd. Kvótabraskskerfið hefur verið að eyða byggðinni og að óbreyttu mun það gera það áfram.