Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 03. október 2000, kl. 21:40:37 (21)

2000-10-03 21:40:37# 126. lþ. 2.1 fundur 9#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, EMS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 126. lþ.

[21:40]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Góðir landsmenn. Hæstv. forsrh. kom víða við í ræðu sinni en lét margs ógetið. Athyglisvert er að hvergi minntist hæstv. ráðherra á þann mikla þjóðarvanda sem búferlaflutningar innan lands eru. Það er athyglisvert en skiljanlegt því á fáum sviðum hafa ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar skilað jafnlitlum árangri. Þrátt fyrir margsamþykktar ályktanir um breytingar hefur ekkert áunnist. Nýjustu tölur staðfesta óbreytta þróun. Í raun hefur aðeins eitt gerst: Höfuðborgarsvæðið hefur stækkað.

Þessir miklu þjóðflutningar hafa kostað tugi milljarða og auðvitað er 30 milljarða afgangur á nýframlögðu fjárlagafrv. ágætur sem slíkur en hvergi er minnst á þann kostnað þjóðflutninganna sem lendir að mestu á sveitarfélögum og á örugglega sinn þátt í erfiðri fjárhagsstöðu þeirra þó margs konar aðgerðir stjórnvalda komi þar einnig við sögu. Ekki lofar hæstv. forsrh. miklu varðandi breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga enda líklega ekki mikill áhugi á þeim bænum til breytinga ef marka má ýmis ummæli hæstv. ráðherra.

Ég minntist á margsamþykktar ályktanir um aðgerðir í byggðamálum. Má margt gott um þær segja en vandinn hefur ætíð verið sá að meira hefur verið um orð en aðgerðir. Í nýjustu samþykktinni um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001 eru margar góðar tillögur. Mismikið hefur borið á þeim en ein hefur farið hvað hæst að undanförnu sérstaklega vegna slælegrar frammistöðu stjórnvalda. Hér á ég við umræðuna og framkvæmdaleysið í fjarvinnslumálum. Á tímabili töluðu ýmsir hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar og hv. þingmenn stjórnarliðsins eins og fjarvinnsla væri töfralausn landsbyggðarinnar. Með leyfi forseta vil ég vitna til nokkurra ummæla, fyrst til orða hæstv. forsrh. í þessum stól þann 23. febr. sl. varðandi flutning tiltekinna verkefna til Ólafsfjarðar. Hæstv. ráðherra sagði, með leyfi forseta:

,,Ég tel að þessi vinna sem einkum hinir fjórir ráðuneytisstjórar hafa komið að sé í góðum farvegi. Þó að ég vilji ekki tímasetja á þessu augnabliki nákvæmlega hvenær starfsemin geti hafist, þá er vinnan komin vel af stað og ákvörðun af því tagi hefur því verið tekin.``

Skömmu síðar, þann 6. mars sl., var haldinn fundur á Ólafsfirði um sama mál og sagði hv. þm. Halldór Blöndal í viðtali eftir fundinn m.a., með leyfi forseta:

,,Það hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um það að flytja fjarvinnsluverkefnin hingað til Ólafsfjarðar og það verður staðið þannig að þeim að það verði traustur grunnur og hann standi til frambúðar.``

Eftir sama fund sagði hæstv. iðnrh. m.a. í viðtali, með leyfi forseta:

,,Í lok þessa mánaðar eða fyrir lok þessa mánaðar þá trúi ég því að þær verði komnar, að það verði eitthvað að frétta.``

Herra forseti. Góðir landsmenn. Ekkert hefur frést af þessu máli enn, þrátt fyrir samþykktir og falleg orð og þrátt fyrir að margoft við ýmis tækifæri hafi stjórnvöld verið minnt á málið. Á fundi samráðshóps 18 sveitarfélaga þann 20. ágúst sl. var samþykkt yfirlýsing. Í henni segir m.a, með leyfi forseta:

,,Samráðshópur sveitarfélaga um fjarvinnslu á landsbyggðinni átelur harðlega tregðu stjórnvalda hvað varðar virka þátttöku í þróun upplýsingaiðnaðar utan höfuðborgarsvæðisins.

Þrátt fyrir skýr fyrirheit og hartnær heilu ári eftir útkomu skýrslu Iðntæknistofnunar um möguleika til fjarvinnslu á landsbyggðinni halda ráðamenn að sér höndum og láta stefnumörkun í þessum mikilvæga málaflokki embættismönnum eftir, í stað þess að taka það frumkvæði sem þeim ber. Með yfirlýsingum sínum hafa stjórnvöld skapað miklar væntingar, en óútskýrt aðgerðaleysi og skilningsleysi reyna nú mjög á þolinmæði almennings um allt land. ... Að óbreyttu er hætt við að sinnuleysi stjórnvalda verði til þess að grafa undan framtíðarmöguleikum landsbyggðarinnar á þessu sviði.

Fundurinn hvetur stjórnvöld því til að vakna af dvala sínum og sinna skyldu sinni, í samræmi við fyrri yfirlýsingar og ályktanir.``

[21:45]

Góðir landsmenn. Enn hafa stjórnvöld ekki vaknað af dvala sínum.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt lýðræðinu að stjórnmálamenn standi við orð sín. Menntakerfið er eitt mikilvægasta verkfærið í byggðastefnu framtíðarinnar. Fjölbreytt fjarnám jafnt í símenntun sem hefðbundnu skólastarfi, tenging skóla milli dreifbýlis og þéttbýlis, tengsl skóla og atvinnulífs eru meðal forsendna þess að möguleikar til menntunar verði sambærilegir um land allt. Aðgangur að menntun verður að vera óháður búsetu og efnahag. Breytt menntakerfi þarf að verða almannatryggingakerfi framtíðarinnar. Þess vegna þarf m.a. að tryggja að upplýsingatæknin verði nýtt til fullnustu í þágu menntakerfisins en slíkt gerist ekki nema allir hafi jafnan aðgang að fjarskiptakerfinu.

Einkavæðing ljósleiðarakerfisins gæti skert möguleika landsbyggðarinnar til eðlilegrar þátttöku í upplýsingaþjóðfélaginu. Því ber að tryggja að ljósleiðarinn verði sameign þjóðarinnar og allir geti nýtt hann á svipuðu verði hvar sem er á landinu.

Herra forseti. Fram undan eru kjarasamningar stórra hópa opinberra starfsmanna, m.a. framhaldsskólakennara. Til þess að hægt verði að ná árangri í menntakerfinu þarf vel menntaða kennara sem eru ánægðir með starfsskilyrði sín, laun og aðstöðu. Því er mikilvægt að sem fyrst takist að ná samningum við framhaldsskólakennara svo ekki þurfi að koma til verkfallsátaka sem skaða mundu alla uppbyggingu skólakerfisins til framtíðar. Ríkisvaldið hefur gert fjölda kjarasamninga við ýmsar svokallaðar viðmiðunarstéttir framhaldsskólakennara. Þessir samningar hafa skilað þeim stéttum mun hærri grunnlaunum, m.a. vegna svokallaðra aðlögunarsamninga. En framhaldsskólakennarar fóru aðra leið við gerð síðasta kjarasamnings. Þessi mismunandi þróun grunnlauna mun án efa auka erfiðleika við gerð nýrra kjarasamninga en gera verður þá kröfu til ríkisvaldsins að það tryggi öllum sínum viðsemjendum svipaða launaþróun. --- Góðar stundir.