Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 03. október 2000, kl. 21:47:02 (22)

2000-10-03 21:47:02# 126. lþ. 2.1 fundur 9#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, JónK
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 126. lþ.

[21:47]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Síðustu fimm ár hafa verið eitt mesta framfaraskeið í þjóðarsögunni. Íslenska þjóðin getur horft til nýrrar aldar með bjartsýni. Hér er full atvinna og gnótt tækifæra fyrir unga og framsækna kynslóð.

Við göngum til framtíðar staðráðin í að bæta enn um betur, bæta okkar hag jafnframt því að jafna aðstöðu fólksins í landinu og mynda öryggisnet um þá sem höllum fæti standa í samfélaginu. Öflug atvinnustarfsemi og framleiðsla í landinu er grundvöllur að slíku. Full atvinna, góð afkoma, atvinnufyrirtækin í landinu og velferð fólksins verða ekki sundur skilin.

Það er löng leið frá þeim sporum sem núverandi stjórnarflokkar stóðu í árið 1995 þegar við ræddum um hvort hætta væri á því að missa fjárhagslegt sjálfstæði vegna viðvarandi hallareksturs og skuldasöfnunar ríkissjóðs til þess nú að greiða niður skuldir í svo miklum mæli að mögulegt er að peningalegar eignir ríkissjóðs nemi hærri fjárhæð en skuldir að fjórum árum liðnum. Það er staðhæft að þessi þróun hafi verið á kostnað þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Þetta er alrangt. Allt þetta tímabil hefur verið varið meiri fjármunum til menntamála, heilbrigðismála og félagsmála með ári hverju.

Í fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir er gert ráð fyrir auknum framlögum til ýmissa þátta menntamála og til velferðarkerfisins. Má þar nefna háskólastigið, framhaldsskóla, Lánasjóð ísl. námsmanna, aukningu til hjúkrunarheimila, aukningu til barnabóta og tryggingabóta sem hækka fram yfir verðlagsforsendur frv. Framlög til málefna fatlaðra hækka og tekið er upp fæðingarorlof samkvæmt nýrri löggjöf sem samþykkt var á síðasta þingi.

Staðreyndin er að sótt er í rétta átt á öllum sviðum velferðarmála þó jafnframt sé verið að greiða niður skuldir. Þetta tekst vegna þess að það er kraftur í efnahagslífinu sem hefur skilað sér í auknum kaupmætti og tekjum. Það er blekking að ríkissjóður nærist eingöngu á viðskiptahalla. Þessi efnahagslegi grunnur skapar allt aðra stöðu til að fást við þau úrlausnarefni sem við blasa.

Það er nauðsynlegt að taka á byggðamálum, skapa sátt um að byggja landið allt. Það er farsælast í lengd og bráð fyrir alla landsmenn. Tilflutningur fólks til höfuðborgarsvæðisins umfram eðlilega fólksfjölgun veldur beinum kostnaði og sóun í samfélaginu og skapar félagsleg vandamál.

Hin unga kynslóð hvar sem hún býr þarfnast þess að víkka sjóndeildarhringinn hér heima og erlendis með námi og störfum og vera ekki bundin á klafa sama starfs eða sama byggðarlags alla ævina. Fjölbreytni atvinnulífs og þjónustu á landsbyggðinni er grundvöllur þess að halda sínu í þeirri samkeppni um fólk sem ríkir í opnu hagkerfi í nútímasamfélagi. Þess vegna ber nauðsyn til þess að skapa skilyrði fyrir atvinnustarfsemi tengda gagnaflutningum og upplýsingahraðbrautinni með sama verði fyrir þjónustuna um land allt. Þess vegna viljum við nýtingu orku og uppbyggingu stóriðju. Þess vegna viljum við auka fjölbreytni menntunar. Þess vegna viljum við styðja nýjar greinar í tengslum við landbúnað, svo sem skógrækt og hestamennsku. Þess vegna viljum við að landsbyggðin fái aukna hlutdeild í opinberum störfum og vöxtur í þeim geira eigi sér stað þar. Þess vegna verður að efla ferðaþjónustu á öllu landinu. Þess vegna viljum við nýja sókn í sjókvíaeldi að hætti Færeyinga og Norðmanna. Að öllum þessum málum er unnið og mörgum fleirum og þess vegna er nauðsyn að sveitarfélögin hafi stöðu til að veita sínu fólki þjónustu á þeim mikilvægu sviðum sem þau hafa með höndum. Afkoma þeirra hefur versnað á síðasta áratug. Það sýna tölulegar staðreyndir sem hafa komið á borð tekjustofnanefndar. Ekki liggur enn fyrir hverjar niðurstöður nefndarinnar verða en forsrh. kom í ræðu sinni inn á tvö mikilvæg atriði sem eru jöfnun milli sveitarfélaga og kerfisbreytingar um álagningu fasteignaskatta. Bæði þessi atriði hafa verið rædd í nefndinni.

Okkur Íslendingum hefur ávallt vegnað best með greiðum samskiptum við erlendar þjóðir. Okkur er þörf á því á nýrri öld að hafa samskipti við þjóðir um víða veröld vegna viðskipta og menningarlegra samskipta. Ný tækni í fjarskiptum hefur sett okkur inn í hringiðu alþjóðlegra samskipta og möguleikarnir eru allt aðrir en áður. Okkur ber skylda til að halda stöðugt uppi vel upplýstri umræðu um utanríkismál. Samskiptin við Evrópusambandið eru einn þátturinn og Framsfl. hefur tekið á þeirri umræðu í sínu flokksstarfi á nýjan hátt sem vakið hefur mikla athygli. Málið er mikið að vöxtum og þróun í samstarfi Evrópuríkja er á fleygiferð. Mörgum hættir til að gera það að aðalatriði í þessari umræðu hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Slíkar ákvarðanir eru ekki á dagskrá um þessar mundir.

Það er hægt að líta með bjartsýni til framtíðar. Tækifærin í okkar góða landi eru fleiri en nokkru sinni. Okkur ber að fara vel með þetta land jafnframt því að nýta gæði þess. Ég vil að lokum taka mér í munn orð skáldsins Hannesar Péturssonar þegar hann segir, með leyfi forseta:

,,Þetta land var sál vorri fengið til fylgdar.`` --- Góðar stundir.