Kjör aldraðra og öryrkja

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 13:40:28 (29)

2000-10-04 13:40:28# 126. lþ. 3.94 fundur 16#B kjör aldraðra og öryrkja# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[13:40]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Í umræðum um kjör lífeyrisþega er oft vísað til þess að kjör þeirra hafi versnað á undanförnum árum og í þessari talnaleikfimi sem var nú ekki mjög burðug hjá síðasta ræðumanni var verið að reyna að ýta undir það. En staðreyndin er hins vegar sú og um það er ekki hægt að deila að kaupmáttur lífeyristekna hefur vaxið mjög á undanförnum árum.

Frá því að þeir stjórnarflokkar sem nú starfa saman tóku höndum saman hefur kaupmáttur þessara hópa vaxið um 20%. Og þegar við erum að tala um kaupmátt, þá erum við ekki að tala um talnabreytingar því að þær koma fram báðum megin, kostnaðarlega og útgjaldalega og teknalega. Við erum að tala um það sem eftir stendur þegar útgjöldin hafa verið dregin frá samkvæmt þeim almennu reglum sem um það gilda. Það er 20% kaupmáttaraukning. Almennar launabreytingar um 20%, með launaskriði um 23%. Í lögunum er talað um almennar launabreytingar og samkvæmt þeim hefur kaupmáttur hækkað um 20% á þessu tímabili og hefur það aldrei gerst áður á jafnskömmum tíma.

Hins vegar er í umræðu um þessi kjör nokkuð reynt, og var gert af hálfu málshefjanda áðan, að taka inn í myndina hversu mjög lágmarkslaun hafa hækkað eða lágmarkstaxtar umfram lífeyrisgreiðslur. Þessu hefur oft verið svarað og oft verið farið yfir þetta. Þetta hefur verið rætt á Alþingi og Alþingi hefur samið lög og sett lög um það að fylgja skyldi almennum launabreytingum. Málið er nefnilega þannig að launataxtanir segja svo litla sögu um launabreytingar og kaupmáttaraukningu.

Þegar taxtar voru hækkaðir, í prósentum talið mjög mikið á lægstu taxta, í samningum síðast, þá hafði það afar litla útgjaldahækkun í för með sér fyrir atvinnulífið vegna þess að þeim töxtum hafði ekkert verið fylgt. Á þessu ári er gert ráð fyrir að vegin meðaltalshækkun dagvinnulauna verði 5,2%. Hækkanir tryggingagreiðslna fyrir sama tíma nema sama prósentustigi. Verðbólga frá upphafi til loka ársins verður rétt innan við 4% þannig að kaupmáttur almennra launa samkvæmt launahækkunum og kaupmáttur bóta á þessu ári mun vaxa. Það er ekki aðeins það sem ég nefndi í gær í ræðu minni að við reyndum að varðveita kaupmáttinn heldur mun hann vaxa samkvæmt þessum tölum. Það er afar þýðingarmikið að menn fari rétt með þessar tölur svo hægt sé að ræða málið með sæmilega skaplegum hætti.

Til þess að tryggja síðan kaupmátt lífeyrisþega ákvað ríkisstjórnin að lífeyrisbætur skyldu fylgja forsendum um almenna hækkun launa og ef verðlagsbreytingar yrðu umfram þær forsendur, þá skyldu þær bætur fylgja verðlaginu. Bæturnar eru þannig í raun verðtryggðar sem er til þess fallið að tryggja það markmið sem ég nefndi og er í samstarfssamningi ríkisstjórnarinnar.

Þegar hér var síðast vinstri stjórn, eins og menn muna, þá hrundi kaupmáttur almenns launafólks. En það var ekki nóg að kaupmáttur almenns launafólks hryndi um 15--20%. Kaupmáttur örorkubótaþega og ellilífeyrisþega hrundi um það sama. Nú hefur verið sett undir þann leka að jafnvel þó að það kæmi afturkippur í þjóðfélaginu og jafnvel þó að það kæmi vinstri stjórn og almennar launabreytingar mundu falla niður um 15% eins og síðast þegar þeir voru hér, mundi þetta tryggja að bæturnar héldu sér. Þetta er afar mikilvægt öryggisnet sem þarna er á ferðinni.

Varðandi spurninguna um framhaldið þá hefur ríkisstjórnin eins og vitað er skipað sérstakan starfshóp um málefni aldraðra sem hefur það hlutverk að fara yfir stöðu mála er varða eldri borgara og gera tillögur um ráðstafanir sem eru til þess fallnar að bæta stöðu þeirra sem þess þurfa sérstaklega við.

Varðandi spurningu málshefjanda um afnám tekjutengingar er rétt að upplýsa að tekjur maka hafa alls staðar á Norðurlöndum áhrif á lífeyri. Þessar tekjutengingar voru ákveðnar fyrir mörgum áratugum. Núverandi ríkisstjórn er fyrsta ríkisstjórnin --- það hafa setið margar vinstri stjórnir --- sem hefur verið að draga úr þessum tekjutengingum. Það er rétt að menn hugsi það. Skrefin sem stigin voru af þessari ríkisstjórn voru fyrstu skrefin sem stigin höfðu verið í áratugi til að draga úr þessum tekjutengingum. Með þeim skrefum sem við höfum þegar stigið og hæstv. heilbrrh. hefur tilkynnt hefur frítekjumark vegna tekna þrefaldast og það segir sína sögu.