Kjör aldraðra og öryrkja

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 13:51:07 (32)

2000-10-04 13:51:07# 126. lþ. 3.94 fundur 16#B kjör aldraðra og öryrkja# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[13:51]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Bil milli ríkra og fátækra eykst stöðugt hér á landi. Þessi fullyrðing hefur m.a. verið staðfest í bók Stefáns Ólafssonar um tryggingakerfið, Íslensku leiðinni, og í skýrslu sem Rauði krossinn birti í upphafi árs. Í báðum þessum gögnum kom fram að bótaþegar eru einn sá hópur sem býr við hvað bágust kjör. Hópur aldraðra hefur lágar tekjur miðað við aðra þjóðfélagshópa auk þess sem jákvæð áhrif lífeyrissjóða á hag eldri borgara bæta ekki hag þeirra sem eru þegar orðnir eftirlaunamenn og náðu ekki að safna sér umtalsverðum réttindum úr lífeyrissjóðum.

Í kröfugerð sem aldraðir afhentu hæstv. forsrh. krefjast þeir þess að leiðrétt verði það misgengi sem orðið hefur á undanförnum árum á milli almennra launa verkamanna og tryggingagreiðslna samkvæmt mati kjararannsóknarnefndar og að tryggt verði að breytingar á tryggingagreiðslum fylgi framvegis almennri launaþróun. Þá er krafist úrbóta á því vandamáli sem skapast hefur vegna skorts á hjúkrunarrýmum á suðvesturhorni landsins. Þetta eru lágmarkskröfur sem ríkisstjórnin, sem gumar sífellt af góðæri og tekjuafgangi, ætti hæglega að geta orðið við.

Óhætt er að fullyrða að ýmsar stjórnvaldsaðgerðir komi beinlínis í veg fyrir menntun og atvinnuþátttöku öryrkja. Með jaðarsköttum og tekjutengingum og með því að ákvarða öryrkjum jafnlágar bætur og raun ber vitni eru ráðamenn að útiloka þá frá eðlilegri þátttöku í samfélaginu og skerða þar með framtíðarmöguleika þeirra. Það eru ekki einungis öryrkjar sjálfir sem eru einangraðir frá þátttöku í samfélaginu vegna fátæktar heldur bitna slíkar aðstæður iðulega hart á börnum þeirra sem vegna aðstæðna fá ekki notið tómstundastarfs eða annars sem börn hinna betur settu geta nýtt sér. Forsenda góðs aðbúnaðar fjölskyldna á Íslandi er að oft býðst mikil vinna og langur vinnudagur. Öryrkjar geta fæstir unnið langan vinnudag og þaðan af síður yfirvinnu og eiga því minni möguleika en aðrir til þess að eignast húsnæði. Ofan á þetta er þeim gert að sætta sig við niðurlægjandi tengingar við tekjur maka.

Það er mælikvarði á siðferði þjóðar hvort hún sýnir þeim virðingu sem minna mega sín.