Kjör aldraðra og öryrkja

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 13:59:32 (36)

2000-10-04 13:59:32# 126. lþ. 3.94 fundur 16#B kjör aldraðra og öryrkja# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[13:59]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Þegar við lítum yfir feril ríkisstjórna síðasta áratuginn blandast engum hugur um að það var með aðild Framsfl. að ríkisstjórn að mörg mál, sem hefðu átt að vera á dagskrá fyrrverandi stjórnar, voru sett á dagskrá. Málefni aldraðra og öryrkja eru eitt þessara mála. Kaupmáttur þessara hópa hefur aukist í seinni tíð langt umfram það sem gerðist á árunum 1991--1995 þegar núverandi flokkur málshefjanda fór með málefni aldraðra og öryrkja í ríkisstjórn. Frítekjumörk hafa verið hækkuð verulega. Bensínstyrkir eru nú í fyrsta sinn í samræmi við óskir fatlaðra og eins og hér hefur komið fram hækkaði neysluverð um tæp 8% meðan kaupmáttur bóta jókst um rúmlega 22%.

[14:00]

Virðulegi forseti. Hv. málshefjandi, sem ekki er lengur í skyttuliði formanns Samfylkingarinnar ef marka má helgarviðtal í dagblaðinu Degi, fer jafnan mikinn í umræðum um félags- og velferðarmál en skautar stundum æðilétt yfir staðreyndir mála. Nú er það svo að hv. þm. hefur ekki átt aðild að ríkisstjórn og því er eðlilegt að spyrja hv. þm., ef til þess kemur einhvern tíma í framtíð, hvort þingmaðurinn muni þá beita sér fyrir afnámi allra tekjutenginga á bætur.

Virðulegi forseti. Við höfum þann vana að spyrða jafnan saman elli- og örorkulífeyrisþega. Það hefur e.t.v. villt okkur nokkuð sýn og komið í veg fyrir að við næðum til þeirra sem raunverulega þyrftu á aðstoð að halda. Ég held að við ættum í umræðunni að aðskilja þessa tvo hópa af því að mig grunar að þörfin fyrir hjálp eða aðstoð kunni að vera ólík milli þessara hópa og ólík innan hópanna eins og hér hefur komið fram í umræðunni.