Kjör aldraðra og öryrkja

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:01:51 (37)

2000-10-04 14:01:51# 126. lþ. 3.94 fundur 16#B kjör aldraðra og öryrkja# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Á jólaföstu á sl. ári var lögð fram skýrsla sem Félagsvísindastofnun hafði unnið fyrir Tryggingastofnun ríkisins. Þetta var einmitt um svipað leyti sem fjárlög ríkisins fyrir árið 2000 voru samþykkt með miklum fögnuði í þessum sal. Þar var gert ráð fyrir tekjuafgangi sem var meiri en áður hafði sést. Allar tillögur um einhverjar úrbætur fyrir þá sem verst voru staddir, sem minni hlutinn á Alþingi hafði lagt fram, höfðu verið felldar af meiri hlutanum sem hugðist eina ferðina enn spara á þeim sem síst skyldi, þ.e. þeim sem stóðu höllum fæti vegna öldrunar, örorku eða lifðu af sjúkradagpeningum. Mér fannst sem skýrslan um ,,íslensku leiðina`` mundi færa þessum hópi vopn í hendur sem mundi duga í baráttunni fyrir bættum kjörum. Hún sýndi með óyggjandi hætti fram á að þeir öryrkjar sem lítið eða ekkert hafa við að styðjast annað en bætur frá því opinbera búa við meiri og illvígari fátækt en þekkist í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. En því miður hefur ríkisstjórnin enn þumbast við og gefur ekkert eftir. Enn á ný hefur þjóðinni verið birt fjárlagafrv. þar sem ekki er gert ráð fyrir að öryggisnetið sé styrkt þannig að tryggt sé að enginn lifi hér við fátækt og örbirgð í góðærinu.

Það verður að herða sóknina á öllum vígstöðvum. Öryrkjar og aldraðir hafa gefið gott fordæmi með mótmælum við þingsetningu. Það er brýnt að við sem sitjum á Alþingi höldum vöku okkar. Vonandi lætur íslenska þjóðin það ekki viðgangast að nú í peningaflóðinu miðju sé hér til í meira mæli en nokkru sinni á undanförnum árum fátækt fólk, aldraðir, öryrkjar og þeir sem lifa á sjúkradagpeningum, fólk sem ekki á fyrir nauðþurftum.