Kjör aldraðra og öryrkja

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:04:02 (38)

2000-10-04 14:04:02# 126. lþ. 3.94 fundur 16#B kjör aldraðra og öryrkja# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Tekjur aldraðra og öryrkja hafa ekki hækkað eins og tekjur almennt vegna þess að helmingur, ég endurtek helmingur, tekna þeirra kemur frá lífeyrissjóðunum og sá hluti hækkar eins og verðlag. Þetta vita þeir forustumenn aldraðra mætavel sem í áratugi hafa verið í stjórnum lífeyrissjóða. Það stóð aldrei til að þessi lífeyrir hækkaði eins og laun enda yrðu eignir sjóðanna, t.d. húsbréf, að verðtryggjast eins og laun og er þá hætt við að hrikti í hjá skuldurunum ef húsbréfin hækkuðu eins og laun.

Hins vegar hafa bætur frá ríkinu hækkað umfram verðlag eins og umsamin laun almennt og til viðbótar hafa á síðustu árum komið húsaleigubætur sem hafa bætt stöðu þeirra lífeyrisþega sem verst standa og ekki eiga eigið húsnæði umtalsvert. Ekki er minnst á það í umræðunni.

Kjör aldraðra eru afar misjöfn og reglur um lífeyri og tekjur þeirra afskaplega flóknar. Allir aldraðir og öryrkjar fá lífeyri úr lífeyrissjóði nema þeir örfáu sem aldrei voru á vinnumarkaði, þ.e. fatlaðir. Staða þeirra hefur verið bætt umtalsvert á síðustu árum og er verið að vinna í því. Allir hinir eiga rétt á lífeyri úr lífeyrissjóði og sumir umtalsvert. Það gleymist gersamlega í umræðunni.

Auðvitað eru slæmar fjárhagsástæður hjá öldruðum eins og hjá öðrum hópum þjóðfélagsins. Fólk hefur fjárfest glannalega, tapað í atvinnurekstri, skrifað upp á og svo er auðvitað óreglan sem er allt of víða. Það má ekki gleyma því.

Sú umræða sem á sér stað er slagorðakennd og ekki virðist vera áhugi á því að kafa ofan í málið, taka allar tekjur með í myndina og átta sig á raunverulegri stöðu aldraðra. Það er hins vegar mikilvægt til þess að hægt sé að laga þá hnökra sem gætu verið á velferðarkerfinu og þá ber kannski hæst lyfjakostnað og annað slíkt.

En enginn ræðumanna í dag hefur rætt um það sem ég held að sé meginmálið hjá öldruðum og það er einsemdin, einsemdin sem við búum til á elliheimilunum þar sem gamla fólkið er aðskilið frá ættingjum sínum.