Kjör aldraðra og öryrkja

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:06:26 (39)

2000-10-04 14:06:26# 126. lþ. 3.94 fundur 16#B kjör aldraðra og öryrkja# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim sem tóku þátt í þessari umræðu í dag og það er alveg ljóst að þó að henni ljúki í þingsal núna, þá er henni ekki lokið. Ég verð að segja að ég er undrandi á þekkingarleysi og hversu illa þeir tveir hæstv. ráðherrar sem tóku þátt í umræðunni og fulltrúi Framsfl. eru að sér í tryggingamálum og tryggingaumræðunni. Tekjutengingar við tekjur maka viðgangast hvergi nema á Íslandi ef við miðum við Norðurlöndin, og það er einfalt að vitna til skýrslu hæstv. forsrh. sjálfs um kjör öryrkja og í bókina Íslensku leiðina, um íslenska tryggingakerfið, eftir Stefán Ólafsson. Þar kemur það ljóslega fram. Og að halda því fram að einhver sé að krefjast þess hér að allar tekjutengingar verði afnumdar, það hefur enginn farið fram á það hér. Það er aðeins landsfundur Sjálfstfl. sem hefur ályktað í þá veru að afnema allar tekjutengingar. Við erum að krefjast þess að afnumdar verði tekjutengingar við tekjur annarra en lífeyrisþegans sjálfs þar sem eru tekjutengingarnar við tekjur maka og þær á auðvitað að afnema. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætla þeir ekki að ganga þá leið til enda og afnema þessa ósanngjörnu og óþolandi reglu sem viðgengst? Ég spyr hæstv. ráðherra sem hefur verið hér í ýmissi talnaleikfimi: Treystir hann sér til að lifa á undir 50 þús. kr. á mánuði eða treystir hann sér til að búa einn og lifa á 70 þús. kr. eins og kjör lífeyrisþega eru í dag, á sama tíma og leiga fyrir litla tveggja herbergja íbúð er 60 þús. kr. á mánuði?

Við verðum bara að horfa á staðreyndir. Kjör þessa fólks eru allt of léleg og það getur vel verið að margir eigi sök á því. En við verðum að leiðrétta þetta, það er löngu orðið tímabært. Ég spyr þingheim, herra forseti, og hæstv. ráðherra: Getum við ekki sameinast um að leiðrétta kjör þessa fólks? Þau hafa dregist aftur úr og það er orðið löngu tímabært að þau verði leiðrétt.