Ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:11:10 (41)

2000-10-04 14:11:10# 126. lþ. 3.95 fundur 17#B ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:11]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Sennilega hefur enginn einn atburður á nýliðnu sumri haft eins mikil áhrif á líf eins margra og jarðskjálftarnir sem skóku Suðurland um miðjan júní. Við getum verið þakklát fyrir að ekkert manntjón varð í skjálftunum en hver er staðan þegar litið er til tjóns á eignum manna? Tæplega 2.000 eignatjón munu hafa verið tilkynnt í kjölfar jarðskjálftanna á Suðurlandi í sumar og samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér mun lokið mati á um helmingi þeirra.

Hins vegar hefur ekki verið auðvelt að nálgast fullnægjandi upplýsingar. Eitt af því sem fram kemur hjá þeim sem hlut eiga að máli er að svo virðist sem íbúar svæðisins, þeir sem urðu fyrir tjóni á eignum sínum, íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði og útihúsum til sveita, hafi í mörgum tilvikum ekki enn fengið fullnægjandi upplýsingar um stöðu sína, bætur á eignum sínum, úrræði og viðbrögð hins opinbera.

Réttum mánuði eftir náttúruhamfarirnar á Suðurlandi, nánar tiltekið 19. júlí sl., skrifaði þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs bréf til ríkisstjórnar Íslands og óskaði upplýsinga um framvindu mats á tjónum sem varð á mannvirkjum og eigum fólks. Jafnframt var spurt um hvenær ætla mætti að bótagreiðslum lyki. Svar við bréfi þessu hefur enn ekki borist þingflokknum. Í ljósi þessa er ekki óeðlilegt að ætla að einstaklingar sem eru að reka mál sín gegn jafnsvifaseinu kerfi eigi erfitt með að sækja fullnægjandi svör við spurningum sínum. Það er einmitt ekki síst þessi seinagangur sem gagnrýndur hefur verið í viðbrögðum ríkisstjórnarinnar.

Með því að vekja máls á þessu á Alþingi vill Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggja sitt af mörkum til þess að íbúar á Suðurlandi fái svör við spurningum sínum og geti horfst í augu við komandi vetur með sæmilegri hugarró. Enn eru margir íbúar á Suðurlandi sem búa í bráðabirgðahúsnæði, misgóðu, og í fjölmiðlum hefur m.a. komið fram að til eru þær fjölskyldur sem í allt sumar hafa búið við hörmulegar aðstæður, jafnvel í gámum sem ætlaðir eru til vöruflutninga. Þannig getum við Íslendingar ekki komið fram við samborgara okkar.

Sú samkennd sem vaknar þegar vandi steðjar að er dýrmætt tákn þeirrar nálægðar sem einkennir fámenna þjóð. En þegar frá líður erum við því miður oft fljót að gleyma náunganum í dagsins önn. Bent hefur verið á að í þetta sinn vorum við svo lánsöm að afdrifaríkar og alvarlegar náttúruhamfarir urðu að sumarlagi og meira að segja á einu mildasta sumri síðari ára. Eitt af því sem í þessu sambandi hefur komið til umræðu er mikilvægi þess að til verði viðlagahúsnæði sem hægt væri að koma upp fljótt og örugglega hvar sem er á landinu þegar náttúruhamfarir verða og hvernig sem viðrar þannig að það dugi í öllum veðrum.

Annað atriði sem vakið hefur spurningar er hvort e.t.v. væri rétt að gera breytingar á reglum Ofanflóðasjóðs þannig að til yrði sérstakur sameiginlegur sjóður landsmanna til að bæta sértækt tjón sem verður af náttúruhamförum á Íslandi. Ljóst er að í kjölfar jarðskjálftanna á Suðurlandi í sumar bíða mörg verkefni úrlausnar. Eitt þeirra er að ljúka nú þegar mati á öllum tjónum og bótagreiðslum til þess fólks sem varð fyrir tjóni. Annað verkefni er svo að læra af reynslunni og leitast við að undirbúa samfélagið betur en verið hefur undir viðbrögð við náttúruhamförum. Þess vegna er einnig mikilvægt að átta sig á hvort jarðskjálftarnir á Suðurlandi hafi leitt í ljós að gera þurfi breytingar á öryggisþáttum eða skipulagi almannavarna. Í ljósi þessa er eftirfarandi spurningum beint til hæstv. forsrh.:

[14:15]

1. Hvað líður mati á tjóni sem varð á mannvirkjum og eigum fólks í jarðskjálftunum á Suðurlandi í sumar?

2. Hvenær er þess að vænta að bótagreiðslum ljúki?

3. Kom eitthvað það fram við náttúruhamfarirnar í sumar sem kallar á endurskoðun á reglum um viðlagatryggingar?

4. Hefur eitthvað það komið í ljós sem kallar á breytingar á öryggisþáttum eða skipulagi almannavarna og ef svo er um hvaða þætti er þar að ræða?