Ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:15:47 (42)

2000-10-04 14:15:47# 126. lþ. 3.95 fundur 17#B ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp í þinginu. Eins og menn vita og málshefjandi nefndi er það viðlagasjóðstryggingin sem er hin almenna hjálparstofnun sem á að bregðast við í slíkum tilvikum en eins og vitað er greip ríkisstjórnin jafnframt strax til aðgerða og setti til hliðar fjármuni til þess að bæta um betur eftir því sem hægt væri og bæta úr brýnustu þörf. Eftir jarðskjálftana á Suðurlandi voru af hálfu stjórnvalda undirbúnar ráðstafanir til að aðstoða íbúa á svæðinu til að mæta afleiðingum hamfaranna og voru þær ráðstafnir gerðar í nánu samráði við vinnuhóp sveitarfélaganna á jarðskjálftasvæðunum.

Í viðræðum við forsvarsmenn sveitarfélaganna á jarðskjálftasvæðunum á Suðurlandi kom strax fram að eitt brýnasta viðfangsefnið í kjölfar jarðskjálftanna væri að veita þeim sem misst höfðu húsnæði sitt úrlausn sem fyrst. Af hálfu ríkisins var lögð áhersla á að koma upp varanlegu húsnæði yfir veturinn þar sem þá mundi sparast fé vegna útvegunar húsnæðis. En niðurstaða sveitarstjórnarmannanna var samt sem áður sú að veruleg þörf væri fyrir bráðabirgðahúsnæði.

Í bréfi vinnuhóps sveitarfélaganna frá 18. júlí kemur fram að þörf sé á 26 heilsárshúsum og tveimur til þremur stærri íbúðum. Framkvæmdasýsla ríkisins annaðist útboð á 30 heilsárshúsum og er nú verið að koma þeim upp og á því að vera lokið fyrir 1. nóv. Auk þess voru keyptar tvær íbúðir á Hellu fyrir bráðabirgðahúsnæði.

Að því er varðar eignarhald á húsunum kemur tvennt til greina, að ríkið eigi húsin eða sveitarfélögum verði gert kleift að eignast húsin. Síðari kosturinn er betri að því leyti til að sveitarfélögin hafa þá hag af því að húsin verði seld þegar ekki er lengur þörf á þeim sem bráðabirgðahúsnæði vegna afleiðinga jarðskjálftanna. Að öðrum kosti er hætt við að ríkið sitji uppi með húsin. Því hefur verið rætt við sveitarfélögin um eignarhald, t.d. þannig að ríkið afskrifi strax líkleg afföll af kostnaðarverði miðað við tveggja ára eignarhald. Verður sveitarfélögunum þá væntanlega boðið að kaupa húsin miðað við 50% afföll af kostnaðarverði og kaupverð lánað vaxtalaust til tveggja ára. Það ætti ekki að íþyngja sveitarfélögunum fjárhagslega.

Heildarkostnaður vegna þessara húsa og íbúða er 275 millj. kr. en samkvæmt upplýsingum sveitarstjórnarmanna er líklegt að bæta þurfi nokkrum húsum við því að enn þá hafa verið að koma fram skemmdir sem menn áttuðu sig ekki á að væru jafnalvarlegar og raun ber vitni. Því er líklegt að heildarkostnaðurinn hækki úr 275 í 300 millj. kr.

Jarðskjálftarnir ollu röskun á starfsemi fyrirtækja og bændur urðu fyrir verulegu tjóni. Sumt af því tjóni er bætt af tryggingum en annað, einkum tjón vegna rekstrarstöðvunar, er ekki bætt af viðlagatryggingum. Upplýsingar um þessi tjón eru enn að berast. Verður reynt að meta sanngjarnar bætur vegna þeirra sem næst því sem verið hefði ef unnt hefði verið að tryggja gegn slíkum tjónum.

Við uppgjör á tjónabótum Viðlagatryggingar í kjölfar jarðskjálftanna hefur komið fram óánægja hjá nokkrum íbúum við mat á eignum þeirra. Bætur viðlagatryggingar geta að hámarki verið jafnar brunabótamati eigna en í nokkrum tilvikum munu bætur lægri en brunabótamat. Einnig virðist vera nokkuð misræmi í brunabótamati eftir sveitarfélögum. Hér er nauðsynlegt að fara rækilega ofan í bæði bótareglur Viðlagatryggingar og matsreglur og er sú vinna hafin. Niðurstöður úr þeirri vinnu geta hins vegar ekki endilega leyst úr þeim vanda sem er nú við að eiga en reynt verður að koma tilmóts við þá sem lent hafa í erfiðleikum við að koma sér upp nýju húsnæði. Hér er þó um afar viðkvæmt mál og vandmeðfarið að ræða því að jafnræðis þarf að gæta.

Í jarðskjálftunum urðu miklar skemmdir á veitukerfum á Sólheimum í Grímsnesi. Viðlagatrygging bætir ekki þær skemmdir þar sem Sólheimar eru ekki sveitarfélag og Viðlagatrygging tryggir ekki veitukerfi einkaaðila. Viðgerðir á veitukerfinu hófust strax eftir jarðskjálftann en ríkisstjórnin ákvað að veita Sólheimum 6 millj. kr. styrk vegna þessara framkvæmda.

Jarðskjálftarnir á Suðurlandi hafa haft í för með sér margvíslegan kostnað hjá ýmsum aðilum öðrum en þeim sem urðu fyrir beinu tjóni. Sveitarfélögin á svæðinu hafa orðið fyrir viðbótarkostnaði og rannsóknarstofnanir hafa þurft að auka starfsemi sína vegna vöktunar. Ríkið mun að einhverju leyti reyna að mæta kostnaði þessara aðila.

Á næstu mánuðum og missirum þarf að auka vöktun og rannsóknir á jarðskjálftasvæðunum sem munu þýða aukin útgjöld. Áður þarf hins vegar að tryggja sem best skipulag vöktunar og rannsókna og gott samstarf milli allra viðkomandi stofnana. Í fjáraukalögum á þessu ári verður gert ráð fyrir 200 millj. kr. framlagi vegna aðgerða ríkisins á jarðskjálftasvæðunum. Margt er þó enn óljóst í þessum málum og því er viðbúið að útgjöld ríkisins verði talsvert meiri þegar allt verður gert upp og upp verður staðið. Ég tel fyrir mitt leyti að nauðsynlegt sé í framhaldi af öllum þessum málum að fara vel yfir og athuga á nýjan leik skipulag viðlagatrygginga, m.a. til þess bæði að flýta viðbrögðum trygginganna og jafnframt til þess að reyna að tryggja að menn fái þær bætur sem hægt er að gera ráð fyrir að menn hafi vænst. Það er afskapalega bagalegt þegar menn hafa greitt brunabótaiðgjald sitt um háa herrans tíð. Það hefur aldrei verið afskrifað á þeim tíma sem innheimt er, en síðan kemur á daginn að eignin er afskrifuð um tugi prósenta. Það hlýtur að verða til þess að mönnum bregður í brún. Sem íbúðareigandi hér í borg hef ég jafnan talið að mitt hús væri brunatryggt samkvæmt þeim iðgjöldum og þeim upphæðum sem ég hef verið að greiða þannig að þetta mundi hafa komið mér á óvart ef ég hefði búið á þessu svæði.

Yfir þetta þurfa menn að fara. Ég tel það algjörlega nauðsynlegt.