Ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:34:10 (49)

2000-10-04 14:34:10# 126. lþ. 3.95 fundur 17#B ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Enginn sem upplifði jarðskjálftana á Suðurlandi í sumar mun gleyma þeirri lífsreynslu. Margir eiga enn um sárt að binda, bæði andlega og fjárhagslega vegna eignatjóns. Ég fullyrði að allir sem að uppbyggingarmálum hafa komið hafi unnið sitt verk af einurð og heilindum. Ríkisvaldið, sveitarstjórnir og matsmenn Viðlagatryggingar. Samstarfshópur sveitarfélaganna á jarðskjálftasvæðinu hefur verið að störfum um aðgerðir eftir jarðskjálftana. Vinnuhópurinn hefur verið málsvari íbúanna og sveitarstjórnanna gagnvart ríkisvaldinu.

Sveitarfélögin komu á fót ráðgjafarþjónustu fyrir íbúana sem urðu fyrir tjóni í jarðskjálftunum. Sú þjónusta hefur gefið góða raun og hafa fjölmargir íbúar leitað til hennar og fengið aðstoð við yfirferð á matsniðurstöðum. Rauði kross Íslands og hjálparsveitir unnu mjög mikilvæg störf strax frá upphafi og ber að þakka það. Ljóst er að margur húseigandinn er í erfiðri stöðu eftir jarðskjálftana.

Þegar hús eyðileggjast vegna náttúruhamfara er brunabótamatið hámark bóta. Afskriftareglur hafa verið reiknaðar eftir vinnureglum Viðlagatryggingar með tilliti til aldurs og ástands eigna. Ósátt hefur verið að hluta til um þessar afskriftir þó svo að flestir hafi skrifað undir.

Brunabótamat margra eigna er gamalt og ekki er vitað um á hvaða grundvelli það var unnið. Það sem gera þarf er í fyrsta lagi að koma á einhvern hátt til móts við þá sem hafa fengið verulega skertar bætur sem eru langt frá því að vera endurstofnverð eða endurtryggingarverð hefur verið afskrifað. Það þarf að gera úttekt og hefja aðgerðir til að útrýma hættulegum byggingum. Það þarf að taka sérstakt tillit til þeirra sem hafa misst atvinnuhúsnæði og hafa orðið af tekjum þess vegna. Það þarf að endurskoða lög um Viðlagatryggingu Íslands og lög um brunatryggingar. Það skipulag sem komið var á eftir jarðskjálftana er til fyrirmyndar og þó að ýmsir hnökrar kunni að hafa verið á einstöku þáttum þá eru þeir ljósir og til þess að læra af. Nú eru fyrstu húsin komin og það ríkir bjartsýni meðal íbúanna.