Ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:39:00 (51)

2000-10-04 14:39:00# 126. lþ. 3.95 fundur 17#B ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:39]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp og forsrh. fyrir hans svör.

Ég vildi aðeins nálgast þetta mál frá öðru sjónarhorni en hér hefur verið rætt. Hæstv. landbrh. talaði um að óboðinn gest hefði borið að garði og hann hafði líka orð á því að nú væri sá óboðni gestur farinn en hins vegar segja jarðfræðingar okkur að jarðskjálftahrinu á Suðurlandi sé ekki lokið. Þann 22. nóvember sl. bar ég fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra um hvernig staðið væri að þessum málum varðandi forvarnir. Þá kom það svar frá hæstv. umhvrh. að skipuð hefði verið nefnd af þáv. umhvrh. Guðmundi Bjarnasyni og hún væri að skila af sér. Það væru ákveðnir þættir sem hefðu komið fram í því nefndarstarfi sem núverandi ríkisstjórn hefði óskað eftir enn frekari umræðum um. Og í svari ráðherra sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ríkisstjórnin ákvað, að tillögu umhvefisráðherra, að skipa nýja nefnd til að leggja mat á tillögurnar og móta tillögur til ríkisstjórnarinnar um framhald málsins.`` --- Síðan segir: --- ,,Nefndin hefur enn ekki lokið störfum en formaður hennar hefur nýlega gert ráðuneytinu grein fyrir stöðu verksins. Er reiknað með að nefndin ljúki störfum og skili ráðuneytinu tillögum sínum á næstu vikum.``

Þetta var í nóvember 1999. Þess vegna vildi ég beina því til hæstv. ríkisstjórnar hvort nefndin hafi skilað tillögum sínum í þessu alvarlega máli --- því við eigum enn eftir að upplifa jarðskjálfta hér á Suðurlandi og þeir nálgast nú höfuðborgarsvæðið --- hvernig hefur og hvernig mun verða staðið að öryggismálum út frá öryggislegu sjónarmiði því það yrði mikil vá ef upptök slíks jarðskjálfta sem varð á Suðurlandi í sumar væru mjög nálægt höfuðborginni.