Ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:43:33 (53)

2000-10-04 14:43:33# 126. lþ. 3.95 fundur 17#B ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:43]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil undirstrika það sem kemur fram í máli flestra þingmanna hér að þó að við séum að nefna til sögunnar ýmsa þætti sem hefðu mátt betur fara, þá erum við ekki að finna að þeim sem hafa haft með málefnin að gera, hvorki frá hendi sveitarfélaga, Viðlagatryggingar Íslands eða annarra aðila, heldur miklu fremur þeim lagaramma sem þessir aðilar búa við og þá umgjörð sem þeir verða að starfa eftir.

Við getum líka fagnað því út af fyrir sig að í meginatriðum, þó að við séum að finna að vissum þáttum, virkar kerfið og kerfið er ekki gamalt. Kerfið er bara til frá því eftir Vestmannaeyjagos. Áður fyrr stóðum við nánast algjörlega berskjölduð gagnvart stóratburðum af þessu tagi.

Í annan stað tala menn um forvarnir og það má ekki gleyma því að við erum í raun að gera mjög umfangsmiklar forvarnir gagnvart slíkri vá alla daga. Ef við skoðum það tjón sem þarna varð þó það sé kannski ekki algerlega algilt, þá er það nokkurn veginn algilt að elstu húsin og þau sem voru lakast byggð fóru verst út úr þessum skjálftum. Forvarnirnar hafa ekki falist minnst í því gagnvart slíkri vá að byggingareftirlit hefur verið hert, byggingarstaðlar gera miklu ríkari kröfur til húsa, miklu ríkari en til að mynda gerist í flestum okkar nágrannalanda. Enda erum við oft undrandi á því hve húseignir þar eru ódýrari en hér, en það er m.a. vegna þess að við gerum miklu, miklu meiri kröfur til styrkleika okkar bygginga heldur en annars staðar er gert. Í því felst mikil forvörn og kannski ekki sú minnsta. En jafnframt þurfum við auðvitað að huga að því með hvaða hætti við sem skilvirkast bregðumst við. Ég ítreka að við þurfum að fara ofan í þá löggjöf sem hér er á ferðinni þannig að meiri sanngirni sé hægt að gæta heldur en hægt hefur verið í öllum tilfellum núna að mínu mati.