Aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 15:11:58 (59)

2000-10-04 15:11:58# 126. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Til umræðu er till. til þál. um aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001. Um fá mál hefur verið meira rætt á Alþingi en einstakar aðgerðir í byggðamálum. Sú tillaga sem hér er flutt er ekki flutt til þess að slá á umræður eða aðgerðir í þeim efnum, síður en svo.

Það er mesti misskilningur hjá hæstv. iðn.- og viðskrh. að þessi tillaga ætti að leiða til frestunar á afgreiðslu annarra brýnna mála sem tengjast byggðamálum. Fjarri er nú það. Það er fjarri að neitt það hafi gerst á Alþingi sem dragi úr því að menn ættu að geta gripið í sjálfa sig til aðgerða. Það liggja fyrir markaðar tillögur, viljayfirlýsingar og samþykktir frá Alþingi um aðgerðir. En eins og hv. 1. flm. þessarar tillögu sagði áðan, Ögmundur Jónasson, hafa þau markmið sem þar hafa verið sett ekki náðst nema í örfáum tilvikum.

Ég vík fyrst að þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherrans um að þingflokkur okkar væri andvígur því að flytja stofnanir út á land, þá er það mikil einföldun og rangt. Ég veit ekki betur en einmitt formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafi tekið mikilvægt skref á sínum tíma þegar Skógrækt ríkisins var flutt og gefið þar visst fordæmi.

Hitt er svo annað mál að það er engin almenn lausn eða almenn leið í byggðamálum að taka eina og eina stofnun og flytja hana sem slíka út á land. Það eitt er aðgerð í sjálfu sér sem þarf að fara svo sem mjúkum höndum um og getur verið góð. En það verður að gera það af fullri tillitssemi, bæði við þá sem þar starfa og einnig líka við verkefnin sem henni er ætlað að sinna. Ef ég man rétt heyrðist einmitt frá þingi eða ársfundi Byggðastofnunar á Akureyri í tengslum við það og umræður um flutning á Byggðastofnun til Sauðárkróks vera vitnað í yfirlýsingu hæstv. iðn.- og viðskrh. um að það kæm til greina að takmarka verksvið Byggðastofnunar frá því sem það væri þannig að það gilti aðeins um Norðurland eða einhvern bara hluta af landinu. Sú umræða kom einmitt upp þegar var verið að huga að því að flytja stofnunina.

[15:15]

Það má vel vera að breyta megi verksviði Byggðastofnunar og skoða það. En hinu vísa ég algjörlega á bug því það að efla og styrkja opinbera starfsemi úti á landi er fyllilega á stefnuskrá okkar. En ég vil draga enn þá sterkar fram í dagsljósið þann vilja að styrkja þær stofnanir sem fyrir eru og þá starfsemi sem fyrir er og þar finnst mér vera mjög illa að verki staðið. Það er miklu vænlegra að njóta styrks og njóta þekkingar og njóta þess afls sem margar stofnanir og fyrirtæki hafa þar til þess að víkka og auka verksvið sitt en að vera að skera við nögl, en vera síðan að keppast við að flytja annað sem ekki alltaf er skýr tilgangur með. Þetta vildi ég láta koma hér fram vegna ummæla hæstv. ráðherra.

Ég vil líka taka það fram að ég sé ekkert að því að Alþingi verji mánuði til þess að ræða sérstaklega og samræma tillögur og álit í byggðamálum. Mér finnst að Alþingi gæti þess vegna starfað lengri tíma á árinu, ekki bara vegna þess máls sem hér er flutt heldur ætti Alþingi almennt séð að starfa lengri tíma ársins og vera virkt í umfjöllun og afgreiðslu mála árið allt en ekki aðeins nokkra mánuði og leyfa síðan framkvæmdarvaldinu að valsa lausu utan þess.

Herra forseti. Það eru alvarleg mál sem snúa að landsbyggðinni og ekki hafa náðst fram í tillöguflutningi hér. Ég nefni menntamálin, t.d. það að nú á haustdögum fer fjöldi ungs fólks úr sinni heimabyggð til þess að sækja nám. Ungt fólk sem er innan sjálfræðisaldurs, 16--18 ára aldurs, er enn að fara langan veg til að sækja nám til mikils kostnaðar bæði fyrir sig og fyrir fjölskyldu sína og einnig truflar það og skapar óeðlilegt fjölskyldulíf og mannlíf heima í viðkomandi héraði.

Má ég leyfa mér líka að nefna skattamálin? Það hefur verið talað mikið um skattamál í dreifbýlinu. Það hefur verið talað um að í gegnum skattana væri hægt að jafna kjörin. En það koma engar tillögur fram í þeim efnum. Það nýjasta er að því er lofað að það skuli skoða að jafna fasteignaskatta og miða þar við raunvirði. En það hefur verið talað um aðrar skattalegar aðgerðir sem engar hafa náð fram að ganga eða komið til framkvæmda.

Má ég líka nefna lánamál? Settir hafa verið á laggirnir ýmsir sjóðir sem eiga að hafa það hlutverk að lána bæði til nýsköpunar og fyrirtækja á landsbyggðinni. En vandinn við þessa sjóði hefur verið sá að þeir hafa annaðhvort krafist svo hárra vaxta eða arðsemi að þeir liggja að stórum hluta ónotaðir. Þær aðgerðir eru því í litlum takti við þá þörf sem þar er til staðar.

Herra forseti. Að sjálfsögðu tökum við á þinginu í vetur af krafti á því sem snertir byggðamál og þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs mun þar flytja mál sem gætu horft til heilla og betri vegar. Engu að síður, herra forseti, er þetta það stórt mál og búið að velkjast á Alþingi í svo mörg ár að fyllilega er ástæða til þess að um það sé haldið sérstakt þing og til þess erum við reiðubúin að verja tíma okkar.