Aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 15:20:27 (60)

2000-10-04 15:20:27# 126. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og mælt er fyrir af hálfu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs af hv. þm. Ögmundi Jónassyni er meginkjarninn að fram kemur fullkomið vantraust á byggðastefnu núverandi stjórnvalda. Það er eðlilegt að vinstri grænir dragi þá ályktun af framkvæmd þeirrar byggðaáætlunar sem hefur nú staðið yfir í u.þ.b. eitt og hálft ár og ég er sammála þeirri niðurstöðu félaga minna í stjórnarandstöðunni að það ber að lýsa vantrausti á þá byggðastefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að málið, einmitt vegna þess gjaldþrots, sé svo knýjandi að það verði að taka til ákaflega harðrar umræðu á hinu háa Alþingi. Þess vegna óttast ég, ef þessi tillaga sem ég veit að er flutt af góðum huga yrði samþykkt, þá yrði það skálkaskjól fyrir ríkisstjórnina til þess að ýta þeirri umræðu frá þessu þingi.

Við horfum fram á þá staðreynd sem ég reyndar rifjaði upp í ræðu minni við eldhúsdagsumræður í gær, að á síðustu tíu árum, og af þeim tíu árum hefur hæstv. forsrh. veitt byggðamálunum forustu í átta ár, hafa rösklega 12 þúsund manns flust af landsbyggðinni hingað suður á þéttbýlissvæðið. Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson gat um í sinni ræðu áðan er þetta ekki bara vandi landsbyggðarinnar. Þetta er líka vandi þéttbýlisins. Ég get þess vegna staðið hér ekki bara sem formaður stjórnmálaflokks heldur kjördæmaþingmaður fyrir Reykjavík og sagt: Fólksflutningarnir hingað í mitt kjördæmi er ekki bara vandamál landabyggðarinnar heldur líka míns kjördæmis. Þess vegna þurfum við að taka á þessu báðum megin frá, frá sjónarhóli þéttbýlisins og landsbyggðarinnar. Ég held hins vegar að það þurfi að ráðast í umræður og aðgerðir strax og af þeim sökum er ég hikandi við að taka undir þessa tillögu. Ég held sem sagt að eins og hæstv. ríkisstjórn hefur hagað sér í málunum þá mundi hún misnota tillögugerðina til þess að skjóta sér undan umræðu.

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni áðan að ekki skorti tillögur. Sennilega hafa ekki sannari orð verið sögð um byggðamálin í þessum sal. Það skortir ekki tillögur. Það sem skortir eru framkvæmdir. Einu aðgerðirnar sem gripið er til eru eins konar björgunaraðgerðir. Það er aldrei gripið til aðgerða fyrr en í óefni er komið.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson lét þess getið í framsöguræðu að oftar en ekki stafaði vandinn hjá einstökum byggðarlögum af því að ekki var gripið til tímabundinna aðgerða þegar tímabundinn vandi steðjaði að. Ég er ekki alveg viss um að það sé rétt hjá hv. þm. Ég held að hér sé í gangi lögmál sem er erfitt að snúa við en þó hægt að snúa við. Ég held ekki að hér sé um það að ræða að það sé einungis tímabundinn vandi í tilteknum byggðarlögum. Ég held að lögmál sé í gangi sem togar fólkið suður, togar fólkið frá heimahéruðum sínum hingað til þéttbýlisins. Það væri auðvitað hægt að fara í lengra máli yfir hvaða lögmál þetta eru en ég nefni eitt, menntunina. Í því samfélagi sem við búum við verður menntunin sífellt þýðingarmeiri. Æskan þarf nú á dögum að fara í framhaldsskóla en hún getur það yfirleitt ekki í hinum dreifðu byggðum. Hún leitar þess vegna suður eða til annarra byggðarlaga þar sem boðið er upp á framhaldsmenntun. Þegar fólkið fer úr stöðunum til framhaldsmenntunar þá er það ungt að árum, 16 ára. Það er það ungt að árum að ábyrgir foreldrar freista þess af öllum mætti að fylgja því eftir. Þess vegna skiptir ákaflega miklu máli t.d. að beisla hina nýju tækni fjarskipta og upplýsingatækni til þess að hægt sé að halda unga fólkinu heima í héraði, hægt að gera því kleift að sinna sínu námi. Þegar það fer að loknum framhaldsskólanum til lengra náms þá er það orðið það fullþroska að foreldrarnir eru ekki nauðbeygðir til þess að flytjast með. Þetta skiptir ákaflega miklu máli.

Víðs vegar á landinu eru núna í gangi merkilegar tilraunir í þessa veru. Ein er t.d. á Höfn í Hornafirði, í kjördæmi hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur sem talar hér á eftir, þar sem menn eru með lítinn framhaldsskóla að nota fjarskiptatæknina til þess að miðla kennsluefni yfir allt Austurland. Maður veltir því fyrir sér hvers vegna ekki yfir allt landið. Ég er með öðrum orðum að velta því upp, herra forseti, að ef framsýn menntastefna væri í landinu þá væri hægt t.d. að höggva að rótum þessa vanda. Þá dugar það hins vegar ekki að feta þá slóð sem Sjálfstfl. er byrjaður að feta. Árátta hæstv. menntmrh. til þess að leggja skólagjöld á alla sem stökkva inn fyrir skóla birtist m.a. í því að hann er að eyðileggja merkilega tilraun sem nú er í gangi á Grundarfirði þar sem hann leyfir sér það að ungt fólk á framhaldsskólastigi þarf að greiða í skólagjöld vegna fjarmenntunar sinnar sömu upphæð og fullorðið fólk á Reykjavíkursvæðinu þarf að greiða fyrir fullt háskólanám við fyrsta flokks einkarekinn háskóla á viðskiptasviði.

Þetta er náttúrlega byggðastefna, ef svo má kalla, sem er best fallin til þess að rústa landsbyggðinni og það er Sjálfstfl. sem ber ábyrgð á því með þessum hætti að kyrkja þennan vaxtarsprota. Þetta finnst mér auðvitað ákaflega dapurlegt, herra forseti.

Hæstv. iðnrh. lét þau orð falla að ekki vantaði tillögurnar. Þess vegna langar mig að inna hæstv. ráðherra eftir framkvæmd einnar tillögu sem hún hefur komið að. Úr þessum stóli 28. febrúar sl. lofaði hæstv. forsrh. að flytja ákveðin störf á sviði fjarvinnslu til Ólafsfjarðar. Og hæstv. forsrh. lýsti því í nokkuð glöggu máli hvers eðlis þau störf væru sem þar væri hægt að flytja. Svo vill til að röskri viku síðar, 6. mars, var á Ólafsfirði haldinn opinn fundur þar sem hæstv. byggðamálaráðherra var stödd og þá sagði ráðherrann þegar hún var spurð eftir því hvað liði flutningi þessara starfa: ,,Ég vænti þess að fregna verði að vænta innan loka mánaðarins.``

Nú er það svo að tímatalið innan Framsfl. kann að vera talsvert öðruvísi en gengur í öðrum flokkum. Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. iðnrh.: Er mars liðinn? Ef svarið er jákvætt, hvaða fregnir hefur hún þá að færa okkur af flutningi fjarvinnslustarfa til Ólafsfjarðar?

Herra forseti. Ég fagna því líka að hæstv. ráðherra boðaði á aðalfundi Eyþings að hér í þessum sölum yrði haldin umræða um skýrslu um framkvæmd byggðaáætlunar sem á að ná til loka ársins 2001. Það vantaði ekki að sú áætlun væri rismikil og metnaðarfull. En það er hins vegar eftirfylgnin sem við spyrjum um. Ég fagna því að hæstv. ráðherra lofaði þar að hér mundu menn ræða framkvæmd þeirrar áætlunar og það er m.a. þess vegna sem ég tel að ekki sé ráðlegt að fresta þeirri umræðu fram á sumarið.

Byggðaáætlun tók m.a. á nýtingu nýrrar tækni í þágu jákvæðrar byggðastefnu. Þar var talað um að ráðherrarnir ættu að skilgreina hvaða verkefni væri hægt að flytja til fjarvinnslu á landsbyggðinni. Það var beinlínis sagt að gera ætti átak til þess að sinna þeim flutningum. Hvenær er ráðlegt að hrinda slíku í framkvæmd, herra forseti, ef ekki á tímum eins og núna þegar þensla er ákaflega mikil á suðvesturhorninu?

Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður því að ráðherrar ríkisstjórnarinnar vinni þetta verkefni? Eða er þetta, eins og hæstv. ráðherra sagði áðan, bara enn ein tillagan?

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur ekki verið lengi í núverandi starfi sínu og henni er því vorkunn. En við hljótum auðvitað að bíða þess að hún fari að taka til höndum og láti verkin tala.