Aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 15:41:21 (64)

2000-10-04 15:41:21# 126. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[15:41]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þau eru mörg málin sem við ræðum hér á Alþingi og sýnist mönnum sum vera mjög mikilvæg, t.d. byggðamál, sjávarútvegsmál, velferðarkerfið, aðild að Evrópusambandinu, erlendar skuldir þjóðarinnar svo lítið eitt sé nefnt. Ég spyr hv. þm. hvort hún vilji halda sumarþing um öll þessi mál hvert í sínu lagi og hvað vinnist með því að hafa sérþing um hvert mál. Hvort við getum bara ekki tekið einn dag eða eina umræðu um hvert mál og rætt það þá í hörgul, hvort það sé ekki nóg.

Ég held að þessi tillaga um að halda aukaþing sé ekkert annað en það að menn eru að reyna að gefa þessu máli enn meira vægi og ég spyr: Er ekki jafnmikilvægt að gefa hinum málunum vægi?