Aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 15:43:04 (67)

2000-10-04 15:43:04# 126. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001# þál., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Umræða um byggðamál þarf að vera sívakandi og við getum ekki beðið fram á sumar með að ræða þau. Sífellt þurfa aðgerðir að vera í gangi. Við erum núna með byggðaáætlun sem er í gildi og hvert ráðuneyti er að vinna í sínum málaflokkum einnig að byggðamálum.

Aðalfundur Byggðastofnunar er umræðuvettvangur um byggðamál, eins og segir í lögum um Byggðastofnun, og þar eigum við að taka þessa umræðu. Einnig á að vinna að nýjum byggðaáætlunum í ráðuneyti byggðamála sem eru nú iðn.- og viðskrn. og það er verið að gera.

Sú byggðaáætlun sem nú er í gildi var samþykkt á Alþingi 3. mars 1999, fyrir einu og hálfu ári. Að þeirri byggðaáætlun er verið að vinna núna. Halda menn virkilega að það sé til árangurs fallið að breyta kúrsinum árlega og taka upp umræðu um málin á nýjum og nýjum grundvelli? Er það það sem verið er að leggja til?

Ég vil aðeins minnast á þau mál sem eru nefnd í byggða\-áætluninni. Eins og hún var samþykkt og unnin er hún byggð á rannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og hefur verið kennd við Stefán Ólafsson. Þarna voru mjög vísindaleg vinnubrögð viðhöfð.

[15:45]

Félagsvísindastofnun tók að sér að rannsaka hvað væri þess valdandi að fólk flytti í svo miklum mæli til höfuðborgarsvæðisins. Á þessum grunni var byggðaáætlunin gerð. Hún snýr að atvinnumálum, hún snýr að mennta- og menningarmálum og hún snýr að jöfnun lífskjara.

Í áætluninni kemur fram að vinna eigi markvisst að fjölbreytni í atvinnulífinu á landsbyggðinni. Það skiptir verulega miklu máli að um fjölbreytni sé að ræða og það séu aðilar heima í héraði, þróunarstofurnar, sem vinni að þeim málum. Einnig skiptir máli að unnið verði að samvinnu einstakra stofnana, félaga og þróunarstofa.

Lagt hefur verið fé, 300 millj. kr., á fjárlögum á hverju ári, til að byggja upp eignarhaldsfélög sem eiga að tryggja að nauðsynlegt fé komi inn í nýsköpunarverkefni.

Varðandi atvinnumálin er það nefnt að staðsetja eigi nýja starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins. Að þessu hefur verið unnið.

Fyrst skal telja Byggðastofnun sem verður flutt til Sauðárkróks. Í öðru lagi er hin nýstofnaða Landskrá fasteigna, væntanlega verður hún staðsett á Akureyri. Ný jafnréttisstofa verður og er nú komin til Akureyrar. Svo mætti lengi telja.

Eins og hæstv. ráðherra nefndi er unnið að stóriðjuverkefnum á Austurlandi og það kemur einnig fram í þeirri áætlun sem samþykkt var á Alþingi að nýjum stóriðjuverkefnum verði fundinn staður utan athafnasvæða höfuðborgarinnar. Allt þetta skiptir verulegu máli í sambandi við atvinnumál.

Í þessari áætlun er einnig tekið á menntun og menningarmálum og gert ráð fyrir því að menntun á landsbyggðinni verði stórefld og möguleikar til fjarkennslu verði fullnýttir. Að þessu hefur verið unnið. Menntun á háskólastigi verði tekin upp þar sem kostur er og það er sérstaklega nefnt að á Austurlandi og á Vestfjörðum verði nám á háskólastigi í boði svo fljótt sem verða má. Að þessu öllu er verið að vinna og komið í gang að nokkru leyti. Einnig að fé til menningarstarfsemi verði aukið og það hefur verið gert.

Jöfnun lífskjara er ekki síst sá þáttur sem er mikilvægur og kom fram í könnun Stefáns Ólafssonar að skipti fólk verulega miklu máli. Nú er verið að vinna að því og koma væntanlega fram tillögur í haust um að fasteignagjöld verði lækkuð. Verulegt fé hefur verið lagt til húshitunarkostnaðarins og einnig jöfnunar námskostnaðar. Þetta eru allt atriði sem skipta gífurlega miklu máli. Ég held að það skipti einnig mjög miklu máli að menn taki ekki upp umræðuna eins og ekkert sé verið að gera og ekkert hafi verið gert og það eigi bara að bíða með umræðuna fram á sumar. Það mun ekki skila okkur árangri í byggðamálum. Það sem skiptir máli er að stöðugt sé unnið að þessu og með fullum þunga og á þeim grunni sem er verið að vinna núna sem er byggt á vísindalegri rannsókn Stefáns Ólafssonar.

Eins og kom fram hjá ráðherra er þegar byrjað að vinna að þeirri áætlun sem á að taka við af þeirri sem er nú í gildi og m.a. hefur stjórn Byggðastofnunar verið að viða að sér upplýsingum um hvernig menn gera hlutina í öðrum löndum. Við kynnum okkur enn betur hvernig við getum snúist við þessum vanda. Ef við finnum eitthvað betra en það sem hefur verið gert þá getur það komið fram í þeim áætlunum sem taka við af þessari.