Aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 15:49:50 (68)

2000-10-04 15:49:50# 126. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[15:49]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þetta er orðin nokkuð löng umræða um tillögu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um sérstakt sumarþing sem tengt yrði málefninu byggðamál.

Mig langar aðeins í lok umræðunnar að fara yfir hugmyndina og það hvers konar tæki slíkt þing gæti orðið í leit okkar að lausn byggðamálanna. Allir vita og það þarf ekki að tíunda það úr þessum stóli, herra forseti, að við erum í vanda. Þó unnið sé eftir byggðaáætlun, virðist hún ekki færa okkur það sem við höfum verið að vona. Allir hafa vonað að okkur tækist að leysa þessi mál en okkur hefur ekki tekist það. Jafnvel þó við höfum yfirgripsmikla byggðaáætlun að vinna eftir þá finna bæði hæstv. ráðherrar og aðrir þingmenn og allir sem að þessum málum koma hversu þung sporin eru og hversu erfitt er að finna lausnir sem virka.

Herra forseti. Hluti af þeim erfiðleikum er fólginn í því hvernig við þurfum að vinna á hv. Alþingi. Við þurfum að vinna af miklum hraða, miklum ákafa og við höfum sjaldnast olnbogarými eða svigrúm til að kafa djúpt ofan í mál og finna að það kann að vera pólitískur samhljómur þrátt fyrir allt í ákveðnum málaflokkum. Við teljum það í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að okkur eigi að takast að vinna okkur niður í ró og næði að sameiginlegum lausnum -- eins og við værum að grafa eftir fjársjóði. Þetta tæki sem svona þing gæti orðið er þekkt í mörgum fræðigreinum, mörgum starfsgreinum, atvinnulífið notar þetta iðulega, að setja starfsfólk sitt saman í vinnubúðir í svo og svo langan tíma til að grafa eftir gulli, til þess að finna lausnir sem gætu verið betri en þær lausnir sem fólk hefur komið auga á hingað til.

Það er kannski þessi ósk okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, sem kemur fram í tillögunni. Við lýsum yfir vilja til þess að ná samstarfi á öðrum nótum, í öðrum jarðvegi, með öðruvísi svigrúm en okkur hefur boðist og getur boðist í þessu daglega amstri okkar í þinginu.

Herra forseti. Það vita það allir hér inni að við erum með í höndunum mjög merkilegar skýrslur frá Stefáni Ólafssyni og Byggðastofnun. Við erum með eina sem heitir Byggðir á Íslandi: aðgerðir í byggðamálum. Við erum með þessa fínu bók um búsetu á Íslandi. Í þessari bók, herra forseti, er getið ýmissa rannsókna sem mér er til efs að stjórnmálamenn og þeir sem hér sitja í þessum sal hafi kafað nægilega mikið niður í vegna þess að tímapressan og málafjöldinn sem kemur til kasta okkar gerir okkur erfitt fyrir með að kafa ofan í þetta eins og við værum fræðimenn. Stjórnmálamenn eru ekki fræðimenn en stjórnmálamenn gætu komið upp með lausnir og hugmyndir ef þeir kafa ofan í fræðin á sínum nótum og sínum forsendum. Ekki bara láta fræðimennina segja okkur hvernig við eigum að skilja allar þær rannsóknir sem eru hér að baki heldur við í sameiningu, í félagi, af því við erum í sama bekk, að reyna að ná utan um þetta í þannig andrúmslofti að hægt væri að skoða hlutina á nýjan leik.

Herra forseti. Ég verð að segja að það veldur mér svolitlum vonbrigðum að hæstv. iðnrh. skuli ekki taka þessari hugmynd meira fegins hendi en raun ber vitni. Satt að segja kom mér það dálítið á óvart að hún skyldi strax við fyrri umr. þessa máls lýsa yfir andstöðu sinni við hugmyndina og rangtúlka hana á þann hátt að hér væri verið að leggja til að fresta byggðamálaumræðu fram á sumar. Auðvitað er ekki verið að fara fram á slíkt. Einungis er verið að leita eftir nýjum vinnubrögðum sem gætu fært okkur nýtt sjónarhorn á vandamálið og þar með hjálpað okkur að koma með nýjar lausnir.

Herra forseti. Það er staðreynd að stjórnvöld hafa verið í nauðvörn í byggðamálum. Ef stjórnvöld hafa ekki þörf fyrir að fá þingheim til að setjast yfir byggðamálin með sér í því augnamiði að ná sáttum, þá finnst mér stjórnvöld, herra forseti, sýna af sér hroka. Það er okkur öllum hjartans mál að hægt verði að bjarga byggð í landinu. Ég fullyrði að það er enginn hér inni sem vill að byggð á Íslandi endi eftir örfá ár á suðvesturhorninu og punktur basta. Það er enginn hér inni sem óskar þorpum á Íslandi sömu örlaga og sum þorp í Finnlandi hafa hlotið þar sem þau standa mannlaus, auð, tóm, yfirgefin. Þetta er þvílíkt vandamál, herra forseti, að við þurfum sameiginlegt átak til að finna nýju sjónarhornin og nýju lausnirnar og byggðaþing eins og hér er um rætt gæti verið tæki í því augnamiði.

Ég nefni bara eina hugmynd. Hafa hv. alþm. velt fyrir sér þeirri hugmynd að gera Vinnumálastofnun að fræðistofnun? Eða rannsóknarstofnun? Hverju mundi það t.d. breyta í byggðaumræðunni ef við hefðum vinnumálastofnun sem væri hreinlega rannsóknarstofnun þar sem færu fram rannsóknir á t.d. áhrifum sjálfstæðra félagasamtaka eða frjálsra félagasamtaka í byggðunum? Eða að Vinnumálastofnun færi út í það að rannsaka og gefa okkur lausnir um áhrif þess að hafa áhugaleikfélag á smærri stöðum starfandi, halda blómlegu lífi í kvennahreyfingum eða hverju sem það væri annað?

Ég hef á tilfinningunni, herra forseti, að verið sé að slá á hugmynd sem er í eðli sínu skapandi og gjöful. Máli mínu til stuðnings nefni ég ráðstefnu sem haldin var á Akureyri 7.--10. september þar sem fræðimenn komu saman og ræddu um byggðaröskun á norðurslóðum. Þar var verið að ræða um byggðaröskun á Íslandi, í Finnlandi, Noregi, Danmörku og Skotlandi. Fyrir mig sem stjórnmálamann, herra forseti, var afar gefandi að fá tækifæri til að sitja ráðstefnu af þessu tagi. En herra forseti, hún var líka allt of stutt. Þarna hafði ég ekki þau samskipti sem mér þætti svo vænt um að geta haft við þá félaga mína sem sitja í stólum alþingismanna.

Herra forseti. Ég endurtek í niðurlagi máls míns: Ég held að hér sé hæstv. iðnrh. að slá hendinni á móti hugmynd sem gæti verið öflugt tæki til að finna eitthvað nýtt í því stóra vandamáli sem byggðamálin eru í samfélagi okkar.