Aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 15:57:13 (69)

2000-10-04 15:57:13# 126. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001# þál., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[15:57]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir viðbrögðin við þeirri þáltill. sem hér hefur verið talað fyrir af hálfu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, en neita því ekki að ég hefði kosið að undirtektir hefðu orðið jákvæðari en raun ber vitni. Ég á mjög erfitt með að skilja það sem mér virtist vera umræðufælni af hálfu þess hæstv. ráðherra sem fer með þennan málaflokk og á sannast sagna erfitt með að skilja hvernig á því stendur að byggðamálaráðherrann hæstv. skuli andvígur því að málaflokkur hans fái ítarlegri og markvissari umfjöllun en önnur málefni fá og er þá vísað til byggðamálanna. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði að sér byði í grun að markmiðið með þessari tillögu væri að gefa byggðamálunum aukið vægi. Það er mergurinn málsins. Við viljum gefa þessum málaflokki aukið vægi frá því sem nú er.

Hæstv. ráðherra kveðst hafa af því áhyggjur að aukaþing um byggðamál yrði til að drepa á dreif umræðu sem tengist byggðamálum ef í vændum væri aukaþing sem fjallaði sérstaklega um byggðamálin. Þá yrði það til að drepa öðrum málum á dreif. Ekki deili ég þessum áhyggjum hæstv. ráðherra, einfaldlega vegna þess að mörg veigamestu viðfangsefni þingsins hafa á einn eða annan hátt áhrif á lífskjörin og þar með geta þau óbeint haft áhrif á byggðamynstur í landinu.

Engin hætta er á því að við frestum umræðu um sjávarútveg og breytingar á meingölluðu kvótakerfi vegna þess að í vændum væri aukaþing sem fjallaði um byggðamál.

Engin hætta er á því að við frestum umræðu um samgöngumál vegna þess að í vændum væri aukaþing um byggðamál.

Engin hætta er á því að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hætti að beita sér í menntamálum og efla menntun á landsbyggðinni vegna þess að í vændum væri aukaþing um byggðamál.

Engin hætta er á því að við hættum að ræða um skattamál þótt þau hafi að sjálfsögðu áhrif á lífskjör allra landsmanna. Eða einkavæðingu, sem hefur sannanlega orðið til þess að veikja byggðirnar, grafa undan félagslegri þjónustu og draga úr fjölbreytni í atvinnulífi. Þar höfum við talandi dæmi.

[16:00]

Forstjóri símans lýsti því yfir á síðasta aðalfundi Landssímans að nú væru það arðsemissjónarmiðin sem réðu för og hann talaði um hin háleitu markmið, 15,5% arðsemi. Þar eru það þjónustuhugsunin og þjónustumarkmiðin sem eru látin víkja. Þetta hefur orðið þess valdandi að starfsemi þessarar stofnunar hefur lagst af í fámennum byggðarlögum. Stofnunum og útibúum hefur verið lokað. Þetta á því miður einnig við um póstinn. Og halda menn að við ætlum að hætta að ræða þessi mál þó að við boðum til aukaþings um byggðamál? Að við séum að leggja það til að það verði lokið allri umræðu hér um einkavæðingu og grundvallarskipulagsbreytingar á samfélaginu vegna þess að í vændum sé aukaþing sem fjalli sérstaklega um byggðamál? Það er ekkert fjær okkur. Og trúa menn að það sé skoðun okkar að með aukaþingi um byggðamál verði lokið öllum deilumálum sem snerta landsbyggðina? Eða skyldi hæstv. iðnrh. trúa því að það muni nást sátt um það sjónarmið sem hæstv. ráðherra lýsti hér áður sem stærsta byggðamálinu, að reisa risamálmbræðslu á Austurlandi? Halda menn virkilega að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs muni fallast á slík sjónarmið á aukaþingi? Við teljum þvert á móti þetta vera einhverja byggðafjandsamlegustu ráðstöfun sem hugsanlega væri hægt að grípa til. (ArnbS: Hvað má þá ræða á aukaþingi?) Hvað má þá ræða á aukaþingi? spyr hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir. Það er mergurinn málsins. Á aukaþingi mundum við taka sérstaklega og á markvissan hátt málaflokka á borð við skattamálin. Þetta hafa menn gert í Svíþjóð, þetta hafa menn gert í Noregi og rætt með hvaða hætti sé unnt að styðja byggðirnar sérstaklega með skattkerfisbreytingum. Það má taka það til umfjöllunar og aðra málaflokka sem snerta byggðirnar.

En ég er ekki að bjóða hér upp á forskriftina, síður en svo. Við erum að leggja til að jafnhliða aukaþingi sem fjalli um byggðamál verði boðað til byggðaráðstefnu sérstaklega þar sem fulltrúar sveitarfélaga, stofnana innan sveitarfélaganna sem hafa sérstaklega með byggðamálin að gera, og félagasamtaka, kæmu saman til að ráða ráðum sínum og leggja fram hugmyndir. Staðreyndin er sú að allir hafa áhyggjur af byggðaþróuninni. Tvö þúsund manns á ári hverju á undanförnum árum hafa streymt af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Það hafa allir áhyggjur af þessu og það eru allir að leita leiða hvernig snúa megi þessari þróun við og beina henni inn í annan farveg.

Ég ætla ekki að efna til langrar orðræðu um þetta hér og alls ekki karps, síður en svo. Þessi hugmynd er sett fram með það í huga að finna vettvang eða skapa vettvang þar sem við gætum reynt að finna hvaða efni, hvaða atriði við gætum sameinast um. Það er hugsunin að baki þessu.

En þótt undirtektir undir málið hafi verið heldur dræmari en ég átti von á þá er ekki öll nótt úti. Nú verður þessi tillaga væntanlega send til umsagnar úti í þjóðfélaginu, til sveitarfélaga, til félagasamtaka, til þeirra aðila sem þessi mál varða sérstaklega eða hafa á þeim áhuga og þeir spurðir álits, hvort þeir telji það góða hugmynd og vænlega til árangurs að boða til aukaþings þar sem þessum brýna málaflokki verði gefið aukið vægi.