Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 11:03:30 (74)

2000-10-05 11:03:30# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[11:03]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn vegna þess að hér er hreyft mjög mikilvægu málefni sem er reyndar ekki tilefni til að fjalla um í fjölmiðlum eins og gert var í gær þar sem svokallaðir talsmenn markaðarins hafa tjáð sig með afar óábyrgum hætti að mínum dómi og á þann hátt að forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem þar eiga hlut að máli hljóta að kanna þau mál innan dyra hjá sér hvernig þetta unga fólk, sem talar í nafni þessara fyrirtækja, kemur fyrir sig orði.

En spurningin er þessi: Er verið að ógna genginu með fyrirætlunum um að borga upp erlend lán á næsta ári? Svarið við því er nei. Það sem um er að ræða er að það falla á gjalddaga á næsta ári 15 milljarðar kr. í erlendum lánum sem að sjálfsögðu verður að borga. Þar fyrir utan er um að ræða 8 milljarða kr. lán sem gert er ráð fyrir að Flugstöð Leifs Eiríkssonar fjármagni, að ríkið borgi upp sitt lán að því leyti til en Flugstöðin greiði ríkinu þá peninga og fjármagni það væntanlega með nýju erlendu láni sem hún tekur í eigin nafni. Það hefur að sjálfsögðu engin áhrif á gjaldeyrisstöðuna þegar Flugstöðin greiðir upp erlent lán við ríkið og ríkið borgar með sama hætti það lán sem þar liggur á bak við.

Það er ekkert sem segir í þessu að ríkissjóður geti ekki og muni ekki taka erlent lán sjálfur á næsta ári. Það gerðum við á þessu ári vegna þess að það var talið nauðsynlegt með tilliti til gjaldeyrisstöðunnar þegar kom að því að greiða upp erlend lán og það er ekkert sem útilokar það að ríkissjóður kunni að þurfa að taka erlend lán eins og hann hefur jafnan gert. Ríkissjóður mun ekki íþyngja gjaldeyrisstöðunni. Ef hún þolir ekki lánauppgreiðslu af hálfu ríkisins, þá mun ríkissjóður frekar endurfjármagna sín lán í útlöndum og beina uppgreiðslu sinni inn á innlendan markað. Það er mjög mikilvægt að þetta liggi skýrt fyrir.