Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 11:05:45 (75)

2000-10-05 11:05:45# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[11:05]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Yfirlýsing hæstv. fjmrh. sem kom fram síðast í svari hans er ákaflega mikilvæg. Það er ákaflega mikilvægt að fyrir liggi yfirlýsing frá ríkisstjórninni um að gjaldeyrisstöðunni verði ekki íþyngt af hálfu ríkissjóðs með þeim hætti sem mátti skilja af framsetningunni í töflunni á bls. 495 í fjárlagafrv.

Ég er hins vegar sammála hæstv. fjmrh. að mér fannst heldur of í lagt af hálfu fulltrúa markaðarins sem töluðu í gær í fjölmiðlum og lýstu því beinlínis yfir að fjárlagafrv. eins og það er framsett ógni gengi íslensku krónunnar. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni, en ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að viðskiptahallinn sé miklu meira áhyggjuefni en fjmrn. og hæstv. ríkisstjórn vill vera láta, eins og margsinnis hefur komið fram af minni hálfu. Ég held að staða íslensku krónunnar sé af þeim sökum ekki eins traust og hún hefði getað verið. Ég tel að það sé forgangsverkefni af hálfu ríkisstjórnarinnar að berjast gegn viðskiptahallanum, að halda gengi krónunnar traustu og þess vegna er það ákveðinn ábyrgðarhluti af hálfu ríkisstjórnarinnar að setja mál sín fram á þann hátt að auðvelt sé að misskilja það alveg eins og markaðurinn gerði í gær með þessum harkalegu viðbrögðum.