Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 11:07:07 (76)

2000-10-05 11:07:07# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[11:07]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ítreka að ég tel ekki að einhverjir tveir einstaklingar sem koma í sjónvarpið geti kallað sig markaðinn. Viðbrögðin á markaðnum hafa í raun og veru verið mjög góð við fjárlagafrv. eins og menn geta lesið ef þeir skoða greiningarpistla fjármálafyrirtækjanna og það sem þar hefur komið fram. En til þess að öllu sé réttilega til skila haldið, þá er ég með útskrift af þessari frétt frá því í gær og rétt að það komi fram að það voru ekki þessir talsmenn fyrirtækjanna sem töluðu um ógnun við gengi krónunnar heldur var það fréttamaður Stöðvar 2 sem notaði það orðalag. Það kemur hvergi fram af hálfu þessara aðila hér og ég vil að það liggi alveg fyrir til þess að fulltrúar markaðarins svokallaða séu ekki hafðir fyrir rangri sök í því efni.

Ég tek undir það sem þingmaðurinn sagði varðandi mikilvægi þess að styrkja og treysta gjaldeyrisstöðuna. Viðskiptahallinn reynir auðvitað á hana og það þarf að fjármagna hann eins og hv. þm. sagði. En vegna þess að ekki er um að ræða halla af völdum ríkissjóðs, þá er það ekki fyrst og fremst áhyggjuefni og vandamál ríkissjóðs að fjármagna þennan halla. Hann er ekki með ríkisábyrgð eins og ég sagði áðan. Einkaaðilarnir í þjóðfélaginu sem taka lán í útlöndum fjármagna þennan halla.

Það sem er mjög mikilvægt líka er að viðskiptahallinn skilar sér ekki í nettóskuldaaukningu þjóðarbúsins vegna þeirrar miklu eignaaukningar sem átt hefur sér stað, og menn verða líka að hafa það í huga að þess vegna er viðskiptahallinn ekki sú ógn sem hann hefði verið af þessari stærðargráðu fyrir nokkrum árum meðan ástand í þjóðarbúskapnum var allt annað og miklu verra en það er núna.