Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 11:09:12 (77)

2000-10-05 11:09:12# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[11:09]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að hvorki í fjárlagafrv. né í ræðu hæstv. fjmrh. er minnst á tekjuflutning frá ríki til sveitarfélaga né heldur að komið sé til móts við fjárhagsvanda sveitarfélaganna. Þetta er eitt stærsta málið sem hefur verið til umræðu á þessu sumri og reyndar áður um vanda sveitarfélaganna. Þau verja nú æ stærri hluta tekna sinna beint í rekstur og mörg þeirra safna skuldum. Það skýtur því skökku við þegar ríkissjóður státar sér af miklum tekjuafgangi, að þá er svo misskipt. Þessir aðilar saman mynda þá þjónustu sem við köllum hina opinberu þjónustu. Fjárlagafrv. sem ekki gerir ráð fyrir tekjum og tekjuauka til sveitarfélaganna er að mínu viti afar marklítið.

Ég spyr því hæstv. fjmrh.: Hvað ætlar hann að gera í sambandi við að mæta aukinni tekjuþörf sveitarfélaganna?