Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 11:13:22 (80)

2000-10-05 11:13:22# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[11:13]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að svara svona vitleysu. Ég held að hv. þm. ætti að taka það upp við fulltrúa síns þingflokks í forsn. að þingsetningunni hefði bara verið frestað þangað til nefnd Jóns Kristjánssonar hefði lokið störfum. Það er skylt samkvæmt þingsköpum að leggja fram fjárlagafrv. í upphafi þings á 1. fundi. (JB: Á ekki bara að breyta því?) Ég tek undir undirtektir fundarmanna við þessu frammíkalli. En þetta mál er ekki til að hafa í flimtingum (JB: Enda er ég ekkert að því.) og það er ekki heldur hægt að ætlast til þess að í fjárlagafrv. sé niðurstaða um mál af þessu tagi þegar hún er alls ekki komin. Og þannig er um ýmis fleiri mál sem niðurstaða liggur ekki fyrir í. Ég býst við að einhverjir hér hafi t.d. áhuga á því hvernig kjarasamningum opinberra starfsmanna lyktar við ríkisvaldið. Á það var minnst í umræðunni um stefnuræðu forsrh. að huga þyrfti að þeim málum. Vissulega. En við höfum ekki forsendur til þess að setja inn í fjárlagafrv. neitt um það efni annað en það sem er almenns eðlis. Vegna hvers? Vegna þess að það er ekki búið að semja. Liggur þetta ekki alveg ljóst fyrir? Þarf að útskýra þetta fyrir einhverju fólki? Ef það verður komin niðurstaða áður en fjárlagafrv. er afgreitt í desember hvort sem varðar sveitarfélögin eða niðurstöður kjarasamninga, þá mun fjárlagafrv. að sjálfsögðu þurfa að taka tillit til slíkra niðurstaðna. En á meðan ekkert liggur fyrir í þeim efnum er ekki hægt að vera með einhverjar getspár í frv. um slík málefni. Þetta hélt ég að þyrfti ekki að segja fólki sem hefur setið hér á Alþingi um nokkurt skeið.