Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 11:15:30 (81)

2000-10-05 11:15:30# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[11:15]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. fjmrh. til hamingju með fjárlagafrv. alveg eins og ég gerði í fyrra. Ég held að margir fjármálaráðherrar hefðu viljað vera í sporum ráðherra og geta lagt fram frv. sem býður upp á þennan glæsilega tekjuafgang. Vissulega er ákaflega mikilvægt fyrir framvindu efnahagsmálanna að afgangur af ríkissjóði sé mjög mikill. Því ber að fagna. Það fer fjarri því að við höldum því fram, eins og hæstv. fjmrh. sagði raunar, að allur þessi tekjuafgangur stafaði einungis af viðskiptahalla. Það held ég að hafi aldrei komið fram í máli stjórnarandstöðunnar. (Fjmrh.: Og jú.) Hæstv. fjmrh. kastar hér fram í: Og jú. Ég kannast ekki við það, herra forseti, og mun fara yfir það hér á eftir hvað það er sem mér finnst áfátt við þetta fjárlagafrv. og hvað mér finnst gott. Það er auðvitað þannig að hæstv. ráðherra kemur hingað og eðlilegt er að hann máli frv. ákaflega rósrauðum litum. Ég mundi sennilega gera það sjálfur í sporum hans. Samt sem áður eru áberandi ýmsar þverstæður annars vegar í máli hæstv. ráðherra og hins vegar þess sem kemur fram í þeim textum sem liggja til grundvallar. Ég á við til að mynda ýmsar staðhæfingar sem ég hlýddi á í máli hæstv. ráðherra áðan. Þær standast ekki alveg það sem hann segir í grg. með frv. og síðan í þjóðhagsáætlun.

Hæstv. ráðherra sagði t.d. að ljóst væri að verðbólga færi hjaðnandi. Nú er það svo að það kom harkalegt verðbólguskot sem gerði það að verkum að verðbólgan fór upp í 6% fyrr á árinu alveg eins og Samfylkingin hafði spáð en hæstv. ráðherra dró alvarlega í efa á þeim tíma. Vissulega er það svo að síðan hefur verðbólgan hjaðnað nokkuð. Hins vegar er alveg ljóst að það stendur og fellur með stöðugleika gengisins hvernig þróun verðbólgunnar verður í framtíðinni. Það er alveg ljóst að gengið stendur og fellur með viðskiptahallanum. Loksins er það að koma fram hjá hæstv. ráðherra að viðskiptahallinn er vandamál. Það er í fyrsta skipti eftir langvinnar umræður um þann þátt efnahagsstjórnunarinnar sem hæstv. forsrh. viðurkenndi í ræðu sinni að viðskiptahallinn væri áhyggjuefni. Hæstv. fjmrh. tekur undir það þó hann sé að vísu kominn með þá kenningu að viðskiptahallinn sé góðkynja og sé að því leyti til öðruvísi en viðskiptahalli fyrri ára. Guð láti gott á vita.

En hæstv. ráðherra talaði um að þenslan, og ég heyrði ekki betur en t.d. útlánaaukning til einstaklinga, færi minnkandi. Ég verð að vísa til þess, herra forseti, sem dæmi um missagnirnar, að á bls. 29 í þessu litla riti sem heitir Stefna og horfur og fylgir frv. til fjárlaga, segir, með leyfi forseta:

,,Á síðasta ári jukust útlán banka og innlánsstofnana til heimila um rúm 20%. Fyrstu sjö mánuði yfirstandandi árs nam aukningin rúmum 26% þannig að vöxtur útlána er enn mikill.``

Herra forseti. Þetta er nokkuð annað en mátti skilja af ræðu hæstv. forsrh. og þó að þetta skipti kannski ekki úrslitamáli sýnir þetta að ræða hæstv. fjmrh. er skrifuð með það fyrir augum að gefa sem jákvæðasta mynd. Hæstv. fjmrh. sagði líka, eins og ég gat um áðan, að verðbólgan færi minnkandi og vonandi verður það svo. En það er þannig að enn eru ýmsar blikur á lofti og ef hæstv. fjmrh. hefði viljað gefa raunsanna mynd af stöðunni þá hefði hann kannski getið þess sem segir í þjóðhagsáætlun um þetta mál á bls. 39, herra forseti, með góðu leyfi forseta:

,,Þegar litið er til ýmissa kennileita í efnahagslífinu til að fá vísbendingar um líklega verðbólguþróun á næstu mánuðum er ekki einsýnt hvert stefnir.``

Herra forseti. Í máli hæstv. fjmrh. var næsta einsýnt hvert stefndi. Samkvæmt því sem fjmrh. hæstv. segir er alveg ljóst að verðbólgan mun fara minnkandi, öll dæmi voru um það í máli hans. En Þjóðhagsstofnun nefnir t.d. tvennt, í fyrsta lagi að vöxtur peningamagns í umferð bendi til þess að það kunni að vera tvísýnt um það, en vöxtur peningamagns jókst um 13% frá júlí í fyrra til jafnlengdar í ár. Sömuleiðis segir í þjóðhagsáætlun að það sem einkum gefi tilefni til svartsýni er áframhaldandi mikil eftirspurn eftir vinnuafli. Það er ekkert sem bendir til, herra forseti, að draga muni úr eftirspurn eftir vinnuafli á næstunni á markaði. Auðvitað er margt sem bendir til þess að sú rósrauða mynd sem hæstv. fjmrh. dró upp áðan sé ekki að öllu leyti í samræmi við veruleikann.

Það verður hins vegar að segjast hæstv. fjmrh. til hróss að hann dregur líka úr á ýmsum sviðum þar sem mætti gæta aukinnar bjartsýni. Ég vil t.d. að það komi fram að ég er þeirrar skoðunar að þær vaxtarhorfur sem gefnar eru upp varðandi sjávarútveginn séu miklu neikvæðari en tilefni eru til. Ég er þeirrar skoðunar ef maður skoðar t.d. seiðamælingar Hafrannsóknastofnunar síðustu ár, það er kannski ekki alveg öruggt, en þá kunni svo að vera að fram undan sé að við horfum fram á einhvern stærsta árgang sem hefur komið fram ákaflega lengi. Það er líka mögulegt að af þeim árgangi verði svo miklar leifar að eitthvað af því fari til Grænlands og komi aftur sem fullvaxta Grænlandsgöngur sem voru á síðustu áratugum jafnan undirstaða hinna stóru, sterku ára í sjávarútvegi. Þannig að ég tel líka að fjmrn. dragi of mikið úr þeim möguleikum sem eru fram undan á sviði sjávarútvegsins en mér finnst það hins vegar bara gott hjá þeim. Ég er ekkert að deila á það. Mér finnst gott að leggja þetta mál fram með þessum hætti.

Að lokum vil ég líka hrósa hæstv. fjmrh. fyrir þá áherslu sem hann leggur á nýja hagkerfið. Ég er algjörlega þeirrar skoðunar að það sem sker úr um framhald og þróun íslensks samfélags og sker úr um það hvort við stöndum okkur í samkeppninni við erlendar þjóðir er hvernig tekst til með gróðursetningu nýja hagkerfisins á Íslandi. Þar er hins vegar ekki bara verið að tala um hagvaxtartölur eins og sakir standa heldur um framleiðni. Hefur nýja hagkerfið leitt til þess að framleiðni hefur aukist? Erum við að fá meira út úr atvinnugreinunum, meira út úr framleiðsluþáttunum en áður? Það ætti hæstv. fjmrh. að beita sér fyrir að yrði skoðað vegna þess að ég er ekki alveg viss að því marki sé náð enn þá. En það sem skiptir máli, ef hæstv. fjmrh. leggur svona mikla áherslu á nýja hagkerfið, er að þá þurfum við að fá skýra stefnu af hálfu ríkisstjórnarinnar um hvernig við eigum að gróðursetja það í samfélagi okkar. Sú stefna er ekki til í dag, herra forseti.

Það er jákvætt og það er lofsvert að það er mikill afgangur á ríkissjóði. Þannig á það alltaf að vera, ekki síst í einmuna góðæri eins og núna. Afgangur á ríkissjóði hefur oft verið áður, ég minni t.d. á fjármálaráðherratíð Ragnars Arnalds sem ég held að hafi bara skilað frumvörpum með afgangi.

Þegar maður skoðar frv. kemur í ljós að myndin er ekki alveg eins rósrauð og fram kemur í máli hæstv. ráðherra. Þessi mikli tekjuafgangur, 30 milljarðar, er ekki eingöngu fjármagnaður af sjúkdómseinkennum óhóflegrar þenslu. Hins vegar er alveg ljóst að hann stafar að verulegu leyti af miklum viðvarandi og vaxandi viðskiptahalla og hann stafar af ofspennu á vinnumarkaði.

Auk þess finnst mér ákaflega dapurlegt í landi sem hefur kennt sig við stéttleysi, í landi sem vill auka jöfnuð, og ég tala auðvitað sem fulltrúi jafnaðarmanna, að það gætir ákveðinnar þróunar í skattastefnu ríkisins sem hefur leitt til þess að verið er að leggja óhóflega þungar byrðar á þá sem standa höllustum fæti.

Ég bendi á það, herra forseti, að skattleysismörk hafa ekki þróast í takt við launaþróun á síðustu árum. Við í Samfylkingunni höfum reynt að láta meta þetta fyrir okkur og samkvæmt því kemur fram að ef persónuafsláttur hefði fylgt meðalhækkun launavísitölu á síðasta ári hefði það leitt til þess að skattbyrðin hefði minnkað um 3,5 milljarða. Þetta þýðir, herra forseti, að ákaflega margt fólk í landinu hefur á undangengnum árum notið þeirrar verndar sem jöfnunarstefna skattkerfisins hefur boðið upp á. Þetta er fólkið sem hefur lifað fyrst og fremst á bótum, á lágum tekjum, og það hefur ekki þurft að greiða skatta. Í auknum mæli er þetta fólk núna komið upp yfir skattleysismörkin og farið að greiða skatta.

Þetta er ekki hægt að vefengja, herra forseti, því ef við skoðum þær upplýsingar sem eru nú komnar á upplýsingavef ríkisskattstjóra sjáum við t.d. að greiðendum almenns tekjuskatts fjölgar um 6,8% samanborið við að framteljendum fjölgar um 1,8%. Herra forseti. Hvar liggur sá hópur sem er skyndilega farinn að greiða skatt og er ekki í hópi nýliðunar í skattgreiðendum?

Þetta er fólkið sem okkur er umhugaðast um að verja. Þetta er fátæka fólkið, þetta eru öreigarnir, þetta eru hinir öldruðu sem eru allt í einu farnir að greiða skatta, fólk sem getur lifað af bótum sem ná stundum upp í 65--70 þús. kr. er komið yfir skattleysismörkin. Með öðrum orðum, herra forseti, að þeir sem eiga verst eru allt í einu farnir að greiða tugi þúsunda í skatta á ári. Gegn þessu hljótum við að leggjast og í þessu kristallast sá miklu munur sem er á Samfylkingunni, sem er á stjórnarandstöðunni annars vegar og Sjálfstfl. hins vegar. Ég leyfi mér að vona að a.m.k. í hjarta sínu sé Framsfl. ekki þessarar skoðunar en þeir bera hins vegar ábyrgð á þessu. Það sem þarna er að gerast er falin skattlagning sem lendir fyrst og fremst á þeim sem áttu erfiðast fyrir og hún virðist nema milljörðum kr., herra forseti.

Ef við skoðum árið í ár kemur í ljós að persónuafsláttur hefur á þessu ári hækkað úr tveimur þrepum, úr 279.948 í 292.326. Mér telst til að þetta sé aukning upp á 4,4%. En vísitala neysluverðs hækkar um 5,5% og ráðstöfunartekjurnar vaxa um 6,5%. Ég fæ heldur ekki betur séð en að miðað við fjárlagafrv. fyrir næsta ár sé enn gert ráð fyrir að þarna gliðni á milli. Við horfum einfaldlega fram á að mesta ranglætið, sem birtist í þessu fjárlagafrv. og fyrri fjárlagafrv., felst í því að þar er meðvitað verið að skattleggja fátækt fólk. Því getum við að sjálfsögðu ekki unað, herra forseti.

Þarna er líka enn ein uppspretta tekjuafgangs ríkissjóðs. Nú er það svo að ég hef ekki greind til þess að skilja nákvæmlega hvað liggur að baki því þegar menn eru að tala um að kerfislæg breyting sé ákaflega jákvæð. Ég skil þó að skattahækkunin á þá sem erfiðast eiga fellur undir kerfislæga breytingu. Er það hrósvert af hæstv. fjmrh. að koma hingað og hrósa sér af því að hann sé búinn að breyta skattkerfinu varanlega, breyta ríkiskerfinu varanlega þannig að komin sé kerfislægur ávinningur ef hann stafar að verulegu leyti af því að við erum að skattleggja fátækt fólk, fólk sem við erum með hinni hendinni að hjálpa til að draga fram lífið með því að greiða út bætur úr almannatryggingakerfinu? Það finnst mér ekki, herra forseti, og þetta er ekki hrósvert.

Ég held líka, herra forseti, að það sé alvöruefni þegar hæstv. ríkisstjórn kemur hingað og lýsir því yfir að hluta af afganginum ætli hún að fá með því að selja ríkiseignir. Nú er það svo að ég er ekki á móti því að selja tilteknar ríkiseigur, það hefur margsinnis komið fram. En til þess að menn geti lagt svona fram af nokkurri alvöru verða að vera alvarlegar ákvarðanir á bak við. Hvernig stendur á því, herra forseti, að hvergi kemur fram í ræðu hæstv. fjmrh., í grg. með fjárlagafrv., í ræðum ráðherranna hvað það er sem á að selja?

Á að selja bankana? Ekki get ég svarað því, herra forseti. Það er ágreiningur á stjórnarheimilinu um það hvort halda eigi áfram að selja bankana sitt í hvoru lagi eða hvort það eigi að skella þeim saman og selja sem einn stóran banka. Framsfl. og Sjálfstfl. hafa ekki enn getað komið sér saman um það.

Á að selja Landssímann? Hæstv. forsrh. hefur sent trúnaðarmann sinn í einkavæðingu, Hrein Loftsson, og látið hann tala til samstarfsflokksins í gegnum erlent stórblað. Hreinn Loftsson var látinn tilkynna Framsfl. það að í mars á næsta ári eigi að einkavæða Landssímann. Ég spyr formann fjárln., sem hér talar á eftir, hv. þm. Jón Kristjánsson: Er hann sammála því að Landssíminn verði seldur í mars? Nei. Ég get svarað fyrir hann, hann er ekki sammála því að Landssíminn verði seldur í mars vegna þess að Framsfl. er andvígur þeirri fyrirætlan sem Sjálfstfl. hefur lagt fram um sölu Landssímans. Það sama gildir um okkur í Samfylkingunni. Við viljum ekki að tiltekinn hluti Landssímans verði seldur, við viljum ekki að dreifikerfið verði selt og það stafar af því að við teljum að forsenda virkrar framsýnnar byggðastefnu sé að allir Íslendingar sitji við sama borð við að gróðursetja nýja hagkerfið sem hæstv. fjmrh. segir að sé undirstaða framtíðarfarsældar á Íslandi.

[11:30]

Við erum sammála hæstv. fjmrh. um það en við teljum að hann sé að grafa undan sinni eigin stefnu með því að ætla að selja dreifikerfi Landssímans. Framsfl. er sammála okkur í Samfylkingunni um þetta, það hefur margsinnis komið fram, þó að það eigi eftir að koma fram hvort Framsfl. verði kúgaður í þessu máli.

Ef samkomulag tekst um þetta þýðir það annað tveggja, að Framsfl. verði beygður í enn eitt skiptið eða þá að þeir selja ekki Landssímann með þeim hætti sem þeir ætla sér. Þetta er því, herra forseti, fugl í skógi, þeir 7,5 milljarðar sem þarna eru.

Hæstv. fjmrh. talar um kerfislægar breytingar og ég sagði það áðan að fyrir utan aukna skattbyrði þeirra sem minnst mega sín finn ég ákaflega lítið af kerfislægum breytingum. Ég tek eftir því að þegar ég skoða þróun útgjalda íslenska ríkisins frá því að þessi hæstv. fjmrh. og undanfari hans, Friðrik Sophusson, sátu við stjórnvöl um margra ára skeið að frá árinu 1994--1998 jukust útgjöld íslenska ríkisins á föstu verðlagi síðarnefnda ársins um 55 milljarða. Mér sýnist í fljótu bragði, miðað við þetta fjárlagafrv., að aukningin síðan þá séu rífir 20 milljarðar.

Herra forseti. Hvað gerist nú þegar og ef hagsveiflan skyndilega fer niður, eins og mér virðist á máli flestra sem tala af hönd ríkisstjórnarinnar að muni gerast. Hvað gerist þá? Hvernig ætlum við þá að afla tekna til að standa við þessi varanlegu útgjöld sem hæstv. fjmrh. hefur átt þátt í að festa?

Þegar við skoðum síðan þetta fjárlagafrv., herra forseti, kemur í ljós að þrátt fyrir ákaflega mikið tal um nauðsyn þess að sýna aðhald í rekstri ríkisins þá gerir fjárlagafrv. ráð fyrir því að útgjöld ríkisins á næsta ári aukist enn þá meira en verðbólga. Þetta er hagsýni hæstv. fjmrh. Herra forseti. Er þetta kannski það sem felur í sér hina kerfislægu breytingu?

Herra forseti. Óhjákvæmilegt er að ég ræði örlítið þróun viðskiptahallans. Ég vænti þess svo sannarlega að það sé rétt sem hæstv. fjmrh. segir að viðskiptahallinn sé af betra kyni en sá sem við höfum glímt við á síðustu árum. En ég er ekki sannfærður um það. Það er alla vega alveg ljóst, herra forseti, að einhvern veginn þarf að fjármagna þennan halla. Við þurfum peninga til þess að standa undir honum. Og ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort það geti gengið til lengdar að afla þessa fjár erlendis.

Einhvers staðar í þessum ágætu plöggum hæstv. ráðherra, mig minnir að það sé í þjóðhagsáætlun á bls. 26, þá velta menn fyrir sér hvort þessi mikla fjárþörf sem stendur undir viðskiptahallanum leiði til þess að erfiðara verði fyrir okkur að afla fjármagns. Þar stendur, ef ég man rétt, af hálfu Þjóðhagsstofnunar, að hugsanlegt sé að hækkun raunvaxta hér á landi það sem af er þessu ári sé til merkis um að það sé orðið erfitt að fjármagna viðskiptahallann.

Herra forseti. Við getum auðvitað velt því fyrir okkur hvaða áhrif það hefði á krónuna, hvaða áhrif það hefði á gengið, hvaða áhrif það hefði á verðbólguna ef við stæðum skyndilega frammi fyrir einhvers konar erfiðleikum í þessum efnum. Ég held þess vegna, herra forseti, að það sem skipti meginmáli sé að grípa til aðgerða sem duga til þess að ráðast gegn viðskiptahallanum. En mér sýnist að hér sé grundvallarmunur á afstöðu minni og hæstv. fjmrh. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að gera flest það sem hægt er til að draga úr viðskiptahallanum. En mér finnst að hæstv. fjmrh. sé að lýsa því yfir að núverandi viðskiptahalli sé svo góðkynja að í reynd þurfi ekki að ráðast gegn honum. En ég óttast, herra forseti, að þetta leiði til vaxandi erlendra skulda þjóðarbúsins eins og við höfum séð undanfarið. Það sem ég óttast mest er að ég sé ekki, eins og hæstv. fjmrh., að það sé að draga úr viðskiptahallanum. Við skulum ekki gleyma því að við höfum deilt um þetta áður. Hæstv. fjmrh. sagði á vorþinginu eftir kosningar og sagði það aftur við 1. umr. um fjárlög á síðasta ári að það mundi draga úr viðskiptahallanum. Hann hefur þvert á móti aukist. Í hvert einasta skipti sem Þjóðhagsstofnun hefur sent frá sér mat á þessu ári hefur hann aukist. Samt fundu þeir upp nýja aðferð og reyndar réttari aðferð til þess að meta hallann, en miðað við það að hallinn væri nú í dag metinn með sömu aðferðum og hann var í upphafi árs þá væri viðskiptahallinn ekki 54,7 milljarðar heldur 60 milljarðar. Ég tel að þessi aðferð sér réttari, herra forseti, en það sem ég óttast er að ekki sé nægilegur skilningur af hálfu ríkisstjórnarinnar um að þetta er forgangsverkefnið í efnahagsstjórninni.