Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 11:37:53 (83)

2000-10-05 11:37:53# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[11:37]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það hryggir mig að hæstv. fjmrh. skuli ekki nota þetta tækifæri til andsvara til að vísa því á bug með rökum sem ég sagði hérna áðan um að hann hefði í fjármálaráðherratíð sinni beitt sér fyrir skattahækkunum á þá sem erfiðast eiga í íslensku samfélagi. Það er það sem ég sagði að stæði upp úr þessu fjárlagafrv. hvað varðaði skattastefnuna. Og það er það sem allir menn hljóta að taka eftir að er svartasti bletturinn á fjárlagafrv.

Hæstv. ráðherra spyr mig síðan um uppskrift gegn viðskiptahallanum. Er það svo að hæstv. ráðherra telji sig ekki hafa nein ráð til að berjast gegn honum? Er þetta til marks um einhvers konar uppgjöf af hálfu hæstv. ráðherra? Er það virkilega þannig að fjmrh., menntaður í hagfræðum með sæg aðstoðarmanna sem sitja hérna og fylla hálft herbergi hér fyrir handan, að hann hafi engin ráð á takteinum? Hvað með ráð númer eitt, að beita ekki skattalækkunum í góðæri eins og hæstv. ráðherra gerði í aðdraganda kosninga? Hvað með ráð númer tvö, að breyta ekki reglum um greiðslumat, þannig að hellt var hér út milljörðum umfram það sem var heimilað í fjárlögum á húsnæðismarkaðinn og verðbólgan stóraukin með því? Hvað með ráð númer þrjú, að ganga ekki fram fyrir þjóðina og telja henni trú um að hér mundi ríkja velsæld um ókomin ár? Hvað með ráð númer fjögur, að halda því ekki fram gagnvart þjóðinni að hún hafi 40--60 milljarða til skiptanna eftir einkavæðingu banka og Landssímans eins og hæstv. ráðherra gerði?

Og hvað með það að hæstv. ráðherra beitir nú stöðu sinni innan ríkisstjórnarinnar, þar sem hann hefur a.m.k. símasamband við viðskrh. sem er yfirmaður bankastjórnar tveggja banka, og beiti sömu ráðum og forsætisráðherrar gerðu hér fyrr á tíð, t.d. Steingrímur Hermannsson sem tók þetta lið sem stýrir bönkunum á teppið og sagði því að draga úr útlánaaukningu. Hæstv. ráðherra kemur hingað og segir að verið sé að draga úr útlánaaukningu til einstaklinga en það kemur allt annað fram í þjóðhagsáætlun eins og ég las upp áðan.