Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 11:39:55 (84)

2000-10-05 11:39:55# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[11:39]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að hv. þm. sá ekki ástæðu til að svara fyrri spurningu minni. En staðreyndin er einmitt sú að útgjöld ríkissjóðs hafa sem hlutfall af þjóðarframleiðslu verið að lækka á undanförnum árum og halda áfram að gera það á næsta ári, jafnvel þó að við séum að leyfa okkur þann munað að veita meira fé t.d. til vegaframkvæmda, í hinn nýstofnaða Fæðingarorlofssjóð, til barnabóta, til þróunaraðstoðar, til rannsókna og þróunar o.s.frv. Það er dálítið undarlegt að vekja máls á þessu en svara síðan ekki fyrir það þegar hann er um það spurður.

Ég þakka svo fyrir leiðbeiningarnar varðandi viðskiptahallann. Þetta eru allt saman mjög trúverðug ráð, kalla bara bankastjórana fyrir sig og skipa þeim að minnka útlánin. Ég hygg að einn hv. fyrrv. bankastjóri hér þekki þau úrræði betur en flestir aðrir í salnum.

En varðandi skattbyrðina þá er það rétt að þeim sem greiða skatta hefur verið að fjölga og að mörgu leyti er það jákvæð þróun. Þeim hefur fjölgað um milli 6 og 7%. En þeim sem greiða hátekjuskatt hefur fjölgað um 28% á milli ára 1999 og 2000. Og hvað segir það okkur? Það segir okkur auðvitað það að tekjurnar hjá fólkinu í landinu eru að hækka. Og eru menn á móti því? Gera menn sér ekki grein fyrir því að tekjuskattskerfið okkar er þannig að skattbyrðin eykst þegar tekjur manna aukast? Það er einmitt eitt það góða við skattkerfið okkar að það er innbyggð sveiflujöfnun af því tagi inn í kerfið. Ég trúi því ekki að þingmaðurinn sé á móti því líka.