Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 11:41:46 (85)

2000-10-05 11:41:46# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[11:41]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tók þátt í því, ef ég man rétt, með hæstv. fjmrh. að setja á hátekjuskatt. Ég leggst síður en svo gegn hátekjuskatti, alls ekki. Ég fagna því að í þessu góðæri skuli fleiri borga hátekjuskatt.

Það er rétt að eftir því sem tekjur manna aukast þá borga þeir meiri skatt og það eru fleiri sem borga skatta m.a. vegna þess að þeir fara upp úr þeim skerðingarmörkum sem núna eru varðandi barnabætur og vaxtabætur af því að tekjur þeirra aukast. Það breytir ekki hinu að ef við höldum persónuafslættinum lágum og ef við höldum skattleysismörkunum niðri þá þýðir það auðvitað að þeir sem eru bara á strípuðum bótum, þeir sem eru á lágu laununum silast upp fyrir mörkin og fara allt í einu að borga skatt. Þetta eru ekki háir skattar á mælikvarða okkar sem hér erum með hundruð þúsunda á hverjum mánuði í tekjur. En þetta fólk munar um að borga nokkra tugi þúsunda í skatta á ári sem það hefur ekki þurft að gera áður.

Hjá þessu fólki skiptir hver þúsundkall máli. Þetta er annar heimur, herra forseti, þetta er önnur veröld. Þetta er það sem ég átti við í ræðu minni í gær, að við höfum því miður á Alþingi orðið uppvís að því að láta það gerast að einhvers konar ómeðvituð aðskilnaðarstefna er í gangi. Það er að verða til annað þjóðfélag sem við þekkjum ekki, þjóðfélag fólks sem hefur úr miklu minna að spila en við og þar sem lífsgæðin eru allt önnur en okkar. Og ef það er ekki það sem við eigum að reyna að breyta, herra forseti, ja hvað er það þá?