Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 11:43:30 (86)

2000-10-05 11:43:30# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[11:43]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Fjárlög hvers árs setja rammann um opinbera starfsemi og stuðning ríkissjóðs við hin ýmsu málefni. Hér á landi er hlutur ríkisins í þjóðarútgjöldunum hár en í nágrannalöndunum er hlutur sveitarfélaga meiri að vöxtum en hér er. Hér eru útgjöld sveitarfélaganna um 10,3% af landsframleiðslu og hefur farið vaxandi á liðnum árum með yfirtöku verkefna frá ríkinu.

Það er því von að vinna við gerð fjárlaga setji svip sinn á haustþingið. Erindi sem fjárln. berast eru ótrúlega margvísleg en viðamest í starfi nefndarinnar er yfirferð með fjmrn. og fagráðuneytum yfir frv. og þeim stofnunum sem nefndin telur rétt að kalla til í starfi sínu. Sú vinna er þegar hafin í góðu samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu og sú hefð hefur skapast að fyrstu viðtöl fjárln. vegna frv. 2001 byrja í september og var það nú sem áður.

[11:45]

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis hefur verið ákveðið að flýta umfjöllun við fjárlagafrv. og afgreiða það viku fyrr en gert var á síðasta ári en þá stóðumst við starfsáætlun þingsins í þessu efni. Ef þetta tekst þá bætir það stjórnsýsluna og gefur Alþingi og ráðuneytunum tækifæri til að ganga tryggar frá málum fyrir áramót. Til þess að þetta takist verða allir að leggjast á eitt, ríkisstjórn og Alþingi. Gott samkomulag er um það í fjárln. að vinna á þessum nótum og vinna að þessu takmarki.

Ef ég vík svo að fjárlagafrv., sem liggur hér fyrir, er niðurstaða þess, sem mest hefur verið um rædd, að áætlaður tekjuafgangur ríkissjóðs er 30 milljarðar kr. sem er meira en dæmi eru til áður. Umræðurnar hafa snúist um tekjuafganginn og er það að vonum. Eins og ég sagði er það einsdæmi að svo mikill tekjuafgangur sé.

Umræðurnar hníga einkum að því að eingöngu sé um það að ræða að ríkissjóður fitni af þenslunni og viðskiptahallanum í samfélaginu og hér sé áætlað fyrir sölu á ríkiseignum sem er ekki búið að ákveða hvenær verða seldar eða hverjar verða seldar. Ég vík síðar að því máli.

Á hinn bóginn skortir ekki hugmyndir um hvernig á að eyða þessum afgangi. Stjórnarandstaðan á þingi hefur gagnrýnt harðlega útgjöld til ýmissa málaflokka og talið upphæð þeirra of lága og skjóta skökku við þegar hagnaðurinn er svo mikill sem raun ber vitni. Ég tel að þarna sé um nokkurn tvískinnung að ræða í málflutningi og mun víkja að því á eftir.

Vissulega er rangt að allur þessi hagnaður sé til kominn vegna viðskiptahalla. Í OECD-löndunum eru þekktar aðferðir til að meta svokallaðan kerfislægan afgang þar sem hagvöxtur til lengri tíma er reiknaður og áhrif uppsveiflunnar tekin burtu. Mælt á þessa vog er hagnaðurinn 2% af landsframleiðslu en er 4% eins og hann er settur upp í fjárlagafrv.

Ég vil hafa örfá orð um aðstöðu fjárln. til vinnu við frv. Ljóst er á þessu hausti að þrýstingur á aukin útgjöld er mikill. Hef ég orðið greinilega var við hann bæði sem formaður fjárln. og við vinnu það sem af er í nefndinni og nefndarmenn verða áreiðanlega varir við þennan þrýsting líka. Ég vil hins vegar undirstrika sérstaklega að við þessar aðstæður er mikils um vert að nýta hagnað ríkissjóðs af þenslunni til að bæta skuldastöðuna. Ef þessu fjármagni væri varið til að auka rekstur ríkissjóðs við núverandi aðstæður mundi það leiða til mikilla vandræða ef niðursveifla yrði í atvinnulífinu. Þessar staðreyndir verður ætíð að hafa í huga þegar horft er á hinn mikla rekstrarafgang af ríkissjóði.

Það er líka þannig, af því að hv. þingmönnum hættir oft til að setja þennan mikla tekjuafgang í bein tengsl við meinta fjárvöntun til ýmissa málaflokka, að niðurgreiðsla skulda lækkar hinn mikla vaxtakostnað ríkissjóðs en hann hefur nú lækkað um 3 milljarða á þremur árum. Þessi upphæð kemur varanlega inn í rekstur ríkissjóðs og er réttlætanlegt að verja slíkum upphæðum í rekstur sem koma varanlega inn til ráðstöfunar. Þessi þróun þarf að halda áfram.

Þeir ræðumenn sem hafa talað hér á undan, hæstv. fjmrh. og hv. 7. þm. Reykv., hafa rætt um aðstöðuna til þess að greiða niður erlendar skuldir. Vissulega er það rétt sem komið hefur fram í umræðunni, þó að fréttaflutningurinn í gær hafi verið rakinn og hrakinn, að vandkvæði geta verið á því að greiða niður erlendar skuldir í svo miklum mæli sem áætlað er miðað við þann viðskiptahalla sem nú er. Þessi mál hafa verið rakin hér á undan. Vissulega er hægt að fara fleiri leiðir, t.d. að styrkja Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna með inngreiðslum eða frysta fjármagn um stundarsakir í Seðlabankanum. Vissulega ber að hafa mið af því að snögg niðurgreiðsla erlendra skulda þrýsti ekki um of á gengi krónunnar niður á við. Hins vegar eru þetta viðfangsefni af jákvæðum toga og þau eru af allt öðrum toga en að eiga við áratuga hallarekstur ríkissjóðs og það eru ekki nema þrjú ár síðan við stóðum í þeim sporum að ríkissjóður hafi verið rekinn með halla síðan árið 1983. Ég er þess fullviss að þetta gleymist furðu fljótt. Það er eins og þegar nýr vegur er lagður gleymist gamli vegurinn furðu fljótt. Þetta er eigi að síður staðreynd. Þetta vandamál, hvernig á að haga niðurgreiðslu erlendra skulda, er ólíkt jákvæðara vandamál en að eiga við áratuga hallarekstur.

Það er vissulega svo að einn af neikvæðu þáttunum í íslensku efnahagslífi er að þjóðhagslegur sparnaður er minni hér en í nágrannalöndunum og helstu viðskiptalöndum. Fordæmi ríkisvaldsins er mikilvægt í þessu efni en nú er hægt að rekja helming þessa þjóðhagslega sparnaðar vegna afkomu ríkissjóðs. Því er ljóst að í fjárlagafrv. eins og það er nú lagt fram eru jákvæð skilaboð um að halda stöðugleika í efnahagslífinu og halda niðri verðbólgu.

Talsmenn stjórnarandstöðunnar og m.a. hv. 7. þm. Reykv. hafa haft stór orð um viðskiptahallann og talið hann stofna stöðugleikanum í voða. Ég dreg ekkert úr því að mikill viðskiptahalli er varhugaverður og deili þeim skoðunum með hv. þm. Hins vegar bendir margt til þess að innlend eftirspurn fari hægt minnkandi.

Vitnað var til Þjóðhagsáætlunar fyrir árið 2001 og hv. þm. greip hér niður á bls. 39 í áætluninni. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þegar litið er til ýmissa kennileita í efnahagslífinu til að fá vísbendingar um líklega verðbólguþróun á næstu mánuðum er ekki einsýnt hvert stefnir.``

Síðan las hann örlítið meira. En hv. þm. las ekki bls. 40 þar sem stendur:

,,Aðrar vísbendingar gefa tilefni til meiri bjartsýni. Almennar verðlagshækkanir undanfarið hafa verið nokkuð minni en reiknað hafði verið með. Í kjölfarið hefur dregið nokkuð úr verðbólguvæntingum sé tekið mið af muni verðtryggðra og óverðtryggðra vaxta.``

Hér segir neðst í sama dálki:

,,Að öllu samanlögðu er það mat Þjóðhagsstofnunar að fyrrgreindar vísbendingar gefi fyrirheit um heldur hjaðnandi verðbólgu.``

Þetta sýnist mér nú að vera snjallt að kunna að stoppa á réttum stöðum í upplestri sínum. Vildi ég láta þetta koma fram svo öllu sé til skila haldið. Auðvitað ber að varast að stýra málum þannig að verðbólgan fari upp á ný, það er alveg ljóst og ekki ætla ég að draga úr því, en það verður þó að draga upp myndina eins og hún er.

Kallað hefur verið eftir tillögum frá stjórnarandstöðunni til þess að eiga við viðskiptahallann og ég ætla ekki að bæta inn í þá umræðu. En grundvöllurinn í afkomu ríkissjóðs eru auknar tekjur af tekjuskatti einstaklinga vegna aukinna tekna og einnig hafa aukist tekjur af sköttum fyrirtækja vegna betri afkomu þeirra á síðasta ári. Ljóst er að ekki er ráðlegt að gera ráð fyrir áframhaldandi þróun að þessu leyti á næsta ári vegna lakari afkomu fyrirtækja á yfirstandandi ári en á því síðasta. Það má að hluta til rekja til verri viðskiptakjara en voru og mikilla verðhækkana m.a. á olíuvörum og þarf ekki að rekja það. Það er kunnugt.

Hins vegar vil ég undirstrika nauðsyn þess að við getum aldrei slitið sundur atvinnulífið og velferðarkerfið. Mikil nauðsyn er að viðhalda öflugu atvinnulífi ef takast á að halda útgjöldum ríkissjóðs í því horfi sem nú er og því þjónustustigi sem er nú þegar, hvað þá að auka þjónustustigið. Hér hefur verið rakin sú jákvæða þróun að nýjar atvinnugreinar, m.a. í tækni og fjarskiptum, hafa vaxið mjög hratt og það gæti létt undir með þessu verkefni.

Í frv. er nokkur útgjaldaauki til ýmissa aðkallandi verkefna. Það er m.a. að þrátt fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um tryggingabætur, þá aukast þær umfram verðlagsforsendur. Tekið er upp fæðingarorlof samkvæmt nýjum lögum, það eru aukin framlög til barnabóta, það eru aukin framlög til menntamála bæði á háskólastiginu og framhaldsskóla, til lánasjóðsins, málefna fatlaðra, til hjúkrunarheimila, til búvörusamningsins og hér eru aðeins nokkur dæmi nefnd.

Oft er talað um niðurskurð í ríkisútgjöldum en mér finnst þetta tal um niðurskurð vera ónákvæm orðnotkun. Menn sem fara með ríkisstofnanir og forustumenn ýmissa samtaka, sem vinna að hinum þörfustu málum, setja sér eðlilega metnaðarfull markmið. Það er eðlilegt og sjálfsagt. En það er oft talað um niðurskurð ef fjárframlög í fjárlagafrv. ná ekki þeim markmiðum. En sannleikurinn er sá að fjármagn hefur ekki verið skorið niður til velferðarkerfisins á undanförnum árum. Auðvitað er hægt að sanna það tölulega og það liggur fyrir.

Hitt er svo aftur annað mál að ekki hafa allar óskir verið uppfylltar eins og ég var að segja og markmiðin eru fyrir hendi um aukin útgjöld og aukna starfsemi. Hins vegar verður að metast hverju sinni hve langt á að ganga.

Ég vil víkja aðeins að því hvað fjárln. þyrfti að skoða sérstaklega í vinnu sinni. Þar vil ég fyrst nefna að eins og komið hefur fram í frv. eru ýmsar brtt. nefndarinnar frá síðasta ári felldar út á þessu ári úr frv. Þetta er vinnuregla við undirbúning frv. og flestar brtt. fjárln. eru merktar sem eins skiptis útgjöld.

[12:00]

Ég tel að nefndin þurfi að skoða þetta betur og kannski vanda sig betur á þessum merkingum því að sumt er vissulega eins skiptis útgjöld. Það er aðalreglan í brtt. en eigi að síður er sumt af brtt. sem fjárln. gerði þess eðlis að það þarf að skoða með framhald á þeim útgjöldum.

Fjárln. hefur verið að skoða undanfarið útboðsmál og rammasamninga ríkissjóðs. Ég talaði um að við mundum gera það áfram. Í frv. eru heimildir fyrir fjölmörgum nýjum stöðum eins og ætíð er. Ég tel að við þurfum að fara yfir það mál og líta á það líka hvar þessar nýju stöður eru. Umræðan um vöxt opinberrar starfsemi hefur verið mikil undanfarin ár og Alþingi hefur með tillögu um byggðamál sett sér það mark að sá vöxtur eigi sér einnig stað úti á landsbyggðinni. Ég tel að við þurfum að líta á þetta og einnig að lesa frv. saman við þál. um byggðamál, hvernig frv. rímar við hana. Að sjálfsögðu þurfum við svo að tala við ýmsar stofnanir og láta reyna á það hvernig frv. rímar við þá starfsemi sem þar er rekin og hvernig stofnunum hefur gengið að halda sig innan ramma fjárlaga. Ég tel nauðsynlegt að ríkisstofnanir geri það. Það er sá rammi sem á að starfa eftir og er áríðandi að hann sé réttur og í samræmi við þá starfsemi sem á að vera og Alþingi vill hafa í þessum stofnunum.

Að lokum vil ég minnast á sölu eigna og framkvæmdir. Ljóst er að framkvæmdaáformum upp á 2 milljarða kr. hefur verið frestað en það verður að vera alveg ljóst af því að vegamál hafa verið inni í umræðunni að ekki er verið að lækka framlög til vegamála heldur er verið að auka framlög til vega- og hafnamála. Það skýrist af því að frestanir á framkvæmdum sem voru ákveðnar á yfirstandandi ári koma inn á næsta ári. Það er því verið að auka framkvæmdir en ekki draga úr þeim. Hins vegar hefðu þær verið enn þá auknar um 2 milljarða, þá hefði það verið skilaboð um enn þá aukna þenslu.

Ég vil að lokum nefna að tekjur vegna sölu eigna er varleg áætlun. Ef farið verður í sölu á þeim stóru eignum, og þegar það verður gert, þá munu sjást stærri tölur en þessar en ég verð því miður að geyma nánari útlistingu á því til seinni ræðu minnar.