Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 12:05:23 (88)

2000-10-05 12:05:23# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[12:05]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. v. spyr hvort eigi að selja Landssímann, hvort hann þjóni betur hlutverki sínu eftir að hann sé seldur, hvort Framsfl. ætli að standa að því. Unnið hefur verið á vettvangi ríkisstjórnarinnar að undirbúningi á sölu Landssímans. Hins vegar hefur Framsfl. sett ákveðin skilyrði fyrir því að séð sé fyrir því að landið allt eða þjóðin öll hafi aðgang að gagnaflutninganetinu á sama verði. Þetta er algert grundvallaratriði og skiptir máli. Þessi mál eru í vinnslu. Þeim er ekki lokið fremur en mörgum málum sem eru hér inni og þarf að skoða betur. Ég tel að ef hægt er að tryggja þetta muni Landssíminn þjóna landsbyggðinni á þann hátt sem viðunandi er. Þetta eru atriði sem við framsóknarmenn höfum sett á oddinn fyrir sölu Landssímans. Þar að auki hefur verið rætt um sölu annaðhvort hluta eða hluta eignarhluta ríkisins í bönkunum.